136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:37]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að það fýkur eiginlega í mig þegar ég hlusta á þá umræðu sem hér fer fram og skoða þau gögn sem liggja til grundvallar. Maður spyr sig bara: Á þetta að vera eitt allsherjargrín, þessi umræða?

Fjárlögin eru það skjal sem er mest stefnumarkandi af þeim sem lögð eru fram á haustþingi. Fjárlögin sýna hvernig við ætlum að greiða út í samfélagið á næsta ári. Umræðan og nefndarálit meiri hlutans sýna að við erum algjörlega í lausu lofti. Það liggja engin grundvallargögn hér að baki, ekki nokkur. Nefndarálit meiri hlutans — það er ekkert í því. Það er rúmlega ein blaðsíða en það er ekkert efnisinnihald í því þannig að það er eiginlega ekkert um að tala hérna.

Ég vil spyrja hv. þm. Gunnar Svavarsson: Er þetta bara tómt grín þessi umræða sem við erum að fara í gegnum núna í dag? Það liggur ekkert á bak við hana. Af hverju er nefndarálitið svona rýrt frá meiri hlutanum? Er það ekki af því að það er ekkert hægt að segja? Er það ekki bara sannleikurinn? Það er ekkert hægt að segja.

Er það ekki algert rugl að við séum að fara að afgreiða fjárlög á næstu dögum? Mér heyrðist hv. þm. Gunnar Svavarsson gera sér eilítið grein fyrir þessu með því að tala um að kannski ætti bara að taka fjárlögin upp oftar. Er það ekki bara það eina sem við getum gert í stöðunni, þ.e. að afgreiða ekki fjárlög til eins árs? Það hlýtur bara að vera „djók“, eins og unglingarnir segja, í stöðunni. Það bara getur ekki verið að það sé hægt. Það vantar grundvallarforsendur. Þurfum við að afgreiða einhver „smotterísfjárlög“ núna til einhverra vikna eða mánaða? Er það ekki bara staðan sem við erum í?