136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nefndarálit meiri hlutans við 2. umr. er í sjálfu sér ekkert rýrara en það hefur verið undanfarin ár og áratugi. Það samanstendur af stuttum inngangi og síðan heilmiklum sundurliðunum og yfirliti. Mesta breytingin er kannski sú að fjárlaganefndin tók ákvörðun um það sameiginlega, þ.e. stjórnarmeirihluti og stjórnarandstaða, að flytja til ákveðna þætti í umræðunni yfir til 3. umr. Þess vegna má segja að það sé örlítið rýrara en ella hefði orðið af því að við klipptum út ákveðna kafla úr nefndarálitinu. En að öðru leyti er það nákvæmlega eins og verið hefur undanfarin ár.

Það kemur einnig fram í nefndarálitinu og kom fram í ræðu minni að hér eru til umræðu breytingartillögur ríkisstjórnarinnar við frumvarpið sem lagðar voru fram fyrir fjárlaganefnd í síðastliðinni viku. Meiri hlutinn tók ákvörðun um að þær mundu einar standa í 2. umr. auk tillagna sem forsætisnefnd Alþingis hafði lagt fram varðandi rekstur þingsins þannig að það liggur ljóst fyrir.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst að ósekju mega taka fjárlög ársins upp ef þannig stendur á. Þannig á það almennt að vera ef rekstur stofnana eða rekstur ríkisins í heild sinni gengur ekki upp miðað við þær heimildir sem við eigum að veita. Við eigum þá ekki að vera hrædd að taka það til umfjöllunar.

Venjan hefur hins vegar verið sú að því hefur alltaf verið ýtt til haustsins og núna er því ýtt til þriðju viku desembermánaðar sem er ekki gott að mínu mati. Ég fjallaði ítarlega um framkvæmd fjárlaga í ræðu minni áðan og var það í raun og veru meginuppstaða (Forseti hringir.) ræðunnar.