136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég gaf hér í skyn áðan var einfaldlega að fjárlaganefndin væri tilbúin til þess að fjalla um fjárlögin inn í vorið eða rýna þau hverju sinni. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að fjárlögin eru hér samþykkt með tilliti til fjárreiðulaga og það er heimildarfærsla eitt ár fram í tímann.

Í ljósi þess ástands sem við stöndum frammi fyrir hlýtur það augljóslega að gerast að fjárlaganefndin — og þá Alþingi — rýni enn frekar í fjárlögin með hliðsjón af framkvæmd fjárlaganna, hvernig hún gengur fyrir sig. Það mun þá hugsanlega birtast í fjáraukalögunum.

Ég ætla ekki að spá um hvort það gerist eða þurfi að gerast. Hins vegar þurfum við öll að vera á vaktinni. Ég vísaði til þess í ræðu minni áðan hverjar ábyrgðir forstöðumanna og ráðuneytanna væru í þeim efnum til að vakta heildarkerfið þegar vindur fram í næsta ár, þess vegna strax í janúar eða febrúar.