136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef lesið umrætt nefndarálit og ég mun lesa þessa tímamótaræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og skoða hvenær hann vitnar til annars vegar stefnuyfirlýsingar Vinstri grænna og hins vegar nefndarálitsins. Mér fannst hins vegar að í ræðunni væri stundum hægt að skilja hann þannig að umræddir meðflutningsmenn að nefndarálitinu tækju undir þessar yfirlýsingar hv. þingmanns.

Hv. þingmaður svaraði ekki fyrirspurn minni varðandi niðurskurð í ríkisrekstri eða hagræðingu að því undanskildu að hann hefur lýst því yfir að það sé sjálfsagt að taka niður tvo rekstrarliði, annars vegar 70 millj. kr. framlag til NATO og hins vegar Varnarmálastofnun, og færa þá fjármuni jafnharðan aftur út í aðra rekstrarliði. Ég ítreka þessa spurningu.