136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni að það væri mín persónulega skoðun að það mætti gera þetta við þessa tvo liði og vil leggja áherslu á það.

Ég tel að það eigi að fara í gegnum frumvarpið allt í heild sinni út frá allt annarri forgangsröðun. Samkvæmt þeirri forgangsröðun sem frumvarpið leggur fram verður eingöngu farið í flatan og beinan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Menn ætla sér að skera niður við Landspítalann án þess að hafa hugmynd um hvaða afleiðingar það hefur. Gæti hv. þingmaður svarað því hér í síðari ræðu sinni hvaða afleiðingar fyrirhugaður niðurskurður á fjölda starfa hjá Landspítalanum hafi ef þessi ákvörðun á fram að ganga? Svona svör eiga að liggja fyrir áður en menn setja fram gríðarlegar niðurskurðartillögur á einstakar stofnanir. Ég verð að segja það.