136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður er ekki einn um að uppgötva að það hefur orðið gerbreyting á þjóðfélaginu á síðustu mánuðum og þar af leiðandi á fjárlagafrumvarpinu. Ég hef tekið eftir því líka. Hann svarar því ekki hvernig hann ætlar að lifa áfram í andstöðu við allar Evrópuþjóðir, þjóðirnar sem eru með okkur í Evrópska efnahagssvæðinu. Hann svaraði ekki heldur hvernig íslensk þjóð á að fara að taka lán hjá lánardrottnum ef ekkert er gengið til móts við þá. Hann svarar eiginlega engu af því sem ég spurði um og hann svarar heldur ekki hvernig hann ætlar að leysa vandamálið með gjaldeyrismarkaðinn án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það átti bara að skoða. Er hv. þingmaður búinn að skoða það allt út í hörgul?