136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:07]
Horfa

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og við auðvitað gerum okkur öll grein fyrir stöndum við frammi fyrir gríðarlegum vanda og mjög erfiðri stöðu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Það er bara staðreyndin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við þurfum að vinna okkur út úr því. Eins og ég sagði í ræðu minni verða menn þegar þeir standa frammi fyrir rekstrarhalla, hvort sem það er ríkissjóður eða í einhverjum öðrum rekstri, auðvitað að leita leiða til þess að jafna hann, annaðhvort með auknum tekjum eða lægri gjöldum. Ég fór í ræðu minni yfir nokkrar ábendingar, ekki tæmandi, alls ekki, um það með hvaða hætti menn gætu hugsanlega nálgast það. Þá legg ég m.a. áherslu á að fara yfir forgangsröðun útgjalda og ég nefndi það líka að við ættum að reyna að slá skjaldborg utan um velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið. Þetta getum við rætt vel saman í fjárlaganefnd og ég veit að meiri hlutinn er tilbúinn til þess.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði, þetta er erfitt verkefni og ég verð að viðurkenna að mér líst í raun og veru lítið á blikuna til næstu ára.