136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:12]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er kannski best að byrja á því að þakka fyrir samstarfið í fjárlaganefnd sem hefur að mörgu leyti verið ágætt og ekkert undan þeim samskiptum að kvarta. Það er hins vegar undan því að kvarta að upplýsingar hafa ekki fengist sem beðið hefur verið um og ég hygg að það muni koma fram í ræðu minni og er auðvitað skrifað í nefndarálit minni hlutans, að það er ýmislegt slíkt sem að er að finna. Þótt ræða hv. formanns fjárlaganefndar hafi ekki verið mjög löng held ég að ég geti tekið undir að hún hafi verið þokkalega frábær og jafnvel mögnuð. Ég veit ekki hvaða orðum á að bæta við þetta, en ég segi þetta og get alveg glaðst með hv. formanni fjárlaganefndar vegna ræðu hans. (Gripið fram í: Áhrifarík.) Ja, það er náttúrlega ekki skrifað vegna þess að áhrif koma fram á einstaklingnum, það getur enginn borið um það hvað er áhrifaríkt og hvað ekki, hæstv. forseti.

Við höfum nýverið sett lög á hv. Alþingi, lög um sérstaka rannsóknarnefnd sem ætlað er að leiða fram það sem sannast og rétt er talið um hrun fjármálakerfisins og þann gríðarlega efnahagsvanda sem af því leiðir. Það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að í þeim ræðum og nefndarálitum sem hér hafa verið kynnt hafa menn fjallað um þennan vanda sem upp er kominn í þjóðfélagi okkar, þennan gríðarlega efnahagsvanda.

Öll þjóðin á kröfu til þess að við rannsókn þessara mála verði allt uppi á borðum, engum verði hlíft við að leita að því sem sannast reynist í þessum málum. Vandi okkar næstu árin er hins vegar risavaxinn og hann lendir vissulega á mörgum sem enga sök eiga á þeim áföllum sem þjóðin tekur nú á sig vegna, ég vil leyfa mér að segja, fjárglæfra fárra og einnig eftirlitsleysis ríkisstjórnarinnar, eftirlitsleysis einstakra ráðherra og stofnana sem með okkur fylgjast. En um þetta, ágæti forseti, segir svo í upphafi nefndarálits minni hlutans, með leyfi forseta:

„Öllum má vera ljóst að íslenska þjóðin og efnahagskerfi hennar urðu fyrir miklu áfalli þegar þrír stærstu viðskiptabankar landsins féllu í byrjun október 2008. Fram hefur komið það álit að um sé að ræða mesta hrun bankakerfis í heimssögunni miðað við umfang efnahagskerfisins. Á innan við viku frá þessum atburðum hafði virði íslensku krónunnar fallið um meira en 70% og hlutabréfamarkaðurinn tapað yfir 80% af verðmæti sínu. Þessi áföll munu hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag til langrar framtíðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að þjóðarframleiðsla muni dragast saman um 9,6% á árinu 2009 og enn meira árið 2010. Tekjur ríkissjóðs munu dragast verulega saman á sama tíma og þrýstingur á aukin útgjöld til velferðarmála mun aukast vegna versnandi ástands í þjóðfélaginu.

Almenningur á Íslandi stendur nú frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum, auknum framfærslukostnaði, okurvöxtum og lækkandi eignavirði. Almennur kaupmáttur fellur á sama tíma og skuldir aukast, hvort sem þær eru verðtryggðar, óverðtryggðar eða í erlendri mynt. Misgengishópar myndast og þeir hafa litla og oft enga möguleika á að bjarga sér út úr ástandinu. Eins og nú horfir blasir við fjöldagjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum með sársaukafullum afleiðingum fyrir bæði atvinnulíf og kjör almennings. Þrátt fyrir að eitt mikilvægasta hlutverk yfirvalda sé að gæta hagsmuna þegnanna bárust þegnunum engar viðvaranir frá yfirvöldum um hvað væri í aðsigi. Á undanförnum vikum hefur verið gert opinbert að stjórnvöld höfðu ítrekað verið vöruð við, bæði af innlendum og erlendum sérfræðingum, í hvað stefndi með bankana og fjármálalíf þjóðarinnar. Stjórnvöld völdu hins vegar að ana áfram í sjálfsblekkingu og láta sem ekkert væri. Á síðastliðnum vetri varaði stjórnarandstaðan á þingi ítrekað við því að óbreytt stjórnarstefna, erlend skuldasöfnun og taumlaus óráðsía innan fjármálakerfisins gæti leitt til mikils ófarnaðar fyrir efnahagslíf landsins ef ekki væri þegar í stað brugðist við.“

Hæstv. forseti. Fram á þetta ár var venjulega hressilegt yfirbragð á ríkisstjórninni sem jafnan talaði um að við værum í góðri stöðu, við værum í öflugri útrás og við værum vel í stakk búin til að takast á við einhvern samdrátt í þjóðartekjunum. Má ég þá minna á, hæstv. forseti, orð hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra um að við værum í góðri stöðu til þess m.a. að skera niður þorskveiði um árabil, eins og Hafrannsóknastofnun lagði til, vegna þess hve vel við stæðum atvinnu- og efnahagslega, þessi þjóð. En eins og þeir muna sem kynnt sér hafa taldi Hafrannsóknastofnun að hér þyrfti að skera niður þorskafla til fimm ára, að lágmarki.

Hæstv. forseti. Nú krefst minni hluti fjárlaganefndar þess að ríkisstjórnin leggi fram skýra og trúverðuga stefnu um það hvernig eigi að leggja upp með áætlun um það að vinna þjóðina út úr þeim mikla vanda sem við erum stödd í og blasir einnig við fram undan næstu árin. Þjóðin stendur nú frammi fyrir gífurlegu tapi og risavöxnum skuldbindingum til næstu áratuga sem leggjast á þjóðina.

Minni hlutinn krefst þess að ríkisstjórnin leggi fram skýra stefnu um það hvernig eigi að vinna þjóðina út úr þeim mikla vanda sem nú blasir við. Minni hlutinn átelur ríkisstjórnina og önnur stjórnvöld fyrir þátt þeirra í aðdraganda hruns bankanna, sem m.a. felst í andvaraleysi, aðgerðaleysi og um margt röngum viðbrögðum. Fram undan eru á næstu árum risavaxin og erfið verkefni sem felast í því að ná efnahagskerfinu og ríkissjóði aftur á réttan kjöl. Greiðslubyrði þjóðarinnar, lántökur, vaxtabyrði, lánstími og afborgunarskilmálar eru enn þá óþekktar stærðir þegar við ræðum fjárlögin við 2. umr. Undir þannig óvissu er ógjörningur að sjá til lands um afkomu ríkisins og álögur þær sem þjóðinni er ætlað að takast á við næstu árin.

Vissulega var sofið á verðinum í aðdraganda þess sem síðar hefur orðið og um það segir svo í áliti minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr., með leyfi forseta:

„Allt frá því um mitt ár 2007 hafa komið fram viðvaranir um að í vændum væru miklir efnahagslegir erfiðleikar vegna þróunar mála á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Fjölmargir aðilar, innlendir og erlendir, hafa á þeim tíma sem liðinn er komið fram með rökstuddar viðvaranir til ríkisstjórnarinnar án viðbragða af hennar hálfu. Allt árið 2008, í aðdraganda hruns bankanna, fór þunginn í þessari umræðu stigvaxandi eftir því sem á leið. Ríkisstjórnin sýndi engin merki um viðbrögð og er engu líkara en hún hafi ekki gert sér grein fyrir þróun mála eða ekki viljað gera það. Stjórnarandstaðan á Alþingi hóf umræðu um þessi mál hvað eftir annað á vettvangi þingsins, lagði fram rökstuddar viðvaranir, krafði ríkisstjórnina um svör og hvatti til aðgerða. Engin viðbrögð komu fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, því var gjarnan svarað til að allt væri í góðu lagi og engar ástæður til að hafa áhyggjur af þróun mála. Í mars 2008 sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðu á Alþingi að botninum væri náð og fram undan væru bjartir tímar í efnahagsmálum. Sams konar ummæli féllu hjá fleiri fulltrúum stjórnarmeirihlutans á Alþingi á vordögum 2008. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi voru í raun fjarri raunveruleikanum í þessum efnum eins og fjölmörg fleiri dæmi úr umræðu síðustu mánaða sýna.

Fram hefur komið að forustumönnum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, var gerð grein fyrir alvarleika málsins á fundi með aðalseðlabankastjóra í febrúar sl. Eftir að þessar upplýsingar komu fram upplýstu forustumennirnir að einir sex fundir hefðu verið haldnir um málin, sá fyrsti 6. febrúar með aðalseðlabankastjóra. Það undarlega er að öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, t.d. iðnaðarráðherra, sem var staðgengill utanríkisráðherra í veikindum hennar, og viðskiptaráðherra var, að þeirra sögn, ekki kunnugt um þessa fundi. Þeir hvorki sátu þessa fundi né var sagt frá þeim. Rétt er einnig að taka fram að formönnum stjórnarandstöðunnar, sem sátu marga svokallaða samráðsfundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar frá byrjun október sl., var aldrei skýrt frá þessum fundum eða innihaldi þeirra. Aldrei.

Á samráðsfundi formanna stjórnarandstöðuflokkanna með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í maí sl. um sérstaka lántökuheimild til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi veitti upp á 500 milljarða kr. yfirdráttarheimild hjá seðlabönkunum á Norðurlöndum voru heldur engar upplýsingar veittar um áðurnefnda fundi eða samtöl.

Eitt af því sem fram hefur komið er að aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands hafi í júní sl. sagt við ráðherra ríkisstjórnarinnar að engar líkur væru á að íslenska bankakerfið gæti staðið af sér það ástand sem fram undan væri. Enginn ráðherra kannast við að hafa fengið slíkar viðvaranir, þar stendur orð gegn orði og það er krafa minni hlutans að sannleikurinn í þessu máli komi fram. Þetta er lýsandi dæmi um samskipti ráðamanna, ástandið og vinnubrögð stjórnvalda.

Minni hlutinn telur að viðskiptaráðherra hafi sofið á verðinum hvað varðar eftirlitsskyldu sína. Hann hefur sjálfur lýst því að hafa ekki átt bein samskipti við yfirstjórn Seðlabanka Íslands í tæpt ár, frá því í nóvember 2007. Svo virðist sem viðskiptaráðherra hafi verið haldið utan við fundi ráðherra ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þegar fjallað var um málefni viðskiptabankanna.“

Með samþykki neyðarlaganna 6. október var ljóst að bankarnir þrír yrðu yfirteknir af ríkinu og að ríkissjóður yrði að fjármagna bankana. Jafnframt var ljóst að ríkið yrði að fá aðgang að lánsfé frá öðrum sjóðum. Sá sem hér stendur hvatti mjög til þess að við næðum sem fyrst samningum við hverja þá þjóð sem vildi lána okkur og um það væri samráð sem allra fyrst. Bæði Norðmenn og Rússar gátu komið til greina um lán á þessum fyrstu dögum. Það hefði að mínu viti styrkt samningsstöðu okkar í framhaldinu ef samningar hefðu tekist við þessar þjóðir. Ríkisstjórnin tók aðra stefnu í málinu og um það segir svo í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands gengu frá samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðgerðaáætlun í efnahagsmálum og lánveitingar sjóðsins til að efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Í aðdraganda þess var farið með málið sem hernaðarleyndarmál. Alþingi fékk engar upplýsingar um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um, bæði á Alþingi og í þingnefndum. Á sama tíma var byrjað að vinna eftir áætluninni, fyrst með mikilli hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Þá var ekki búið að samþykkja áætlunina á hv. Alþingi. Sú aðgerð var reyndar harðlega gagnrýnd og stjórnvöld og einstakir ráðherrar vísuðu hver á annan í ábyrgð á þeim gjörningi þar til Seðlabankinn neyddist til að gefa út yfirlýsingu um að þessi stýrivaxtahækkun væri að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samkvæmt samkomulagi sem enn hefði ekki verið birt. Þrátt fyrir alla leyndina gagnvart Alþingi komst eitt dagblaðanna að lokum yfir samkomulagið við sjóðinn og áætlunina sem íslenskum stjórnvöldum væri gert að fylgja og birti hana. Það voru fyrstu upplýsingar sem alþingismenn fengu um samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessi vinnubrögð eru afar gagnrýnisverð og lýsa lítilsvirðingu af hálfu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ber alla ábyrgð á því. Þegar Alþingi fjallaði loks um samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fengust takmarkaðar grunnupplýsingar um málið. Á fundum fjárlaganefndar fengust engar upplýsingar eða gögn um forsendur, svo sem áætlanir o.fl. Minni hlutinn vísar í gagnrýni sína á þessi vinnubrögð í nefndaráliti sínu um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu Alþingis á samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og minni hluti fjárlaganefndar vísar í það álit. Þá er enn fremur gagnrýnt að ríkisstjórnin skuli í upphafi hafa bundið sig við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýtrustu skilmála hans í stað þess að leita annarra valkosta í stöðunni eins og ég vék að áður. Ýmsir sérfræðingar, bæði innan lands og utan, hafa bent á að til væru aðrar leiðir sem hefði mátt skoða sem lausn á þeim vanda sem upp var kominn.

Þingmenn Frjálslynda flokksins gerðu kröfu til þess þegar umræða fór fram í þinginu nýverið að gerð yrði krafa á Breta vegna beitingar hryðjuverkalaga þar í landi gegn íslenskum fjármálafyrirtækjum. Krafan byggði á því sem sneri að eignum fyrirtækjanna í Bretlandi. Ákvörðun breskra stjórnvalda hefur verið hagsmunum Íslands mjög skaðleg og nú stöndum við frammi fyrir því að Íslendingar þurfa að bera miklar fjárhagslegar byrðar, að því er virðist vegna þess hvernig þau mál fóru milli íslenskra ráðherra og breskra. Fullyrða má að þar sé á ferðinni einhver dýrasti misskilningur sem um getur á síðari tímum. Viðskiptaráðherra Íslands og fjármálaráðherra Íslands virðast ekki hafa talað saman um málin, en þeir ræddu við breska fjármálaráðherrann með nokkurra vikna millibili og úr varð dýrasti misskilningur Íslandssögunnar. Ráðherrarnir ræddu málefni Landsbankans hvor í sínu lagi og olli það þessum dýra misskilningi.

Í nefndaráliti minni hlutans er það orðað svo, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra taldi sig vera að ræða um lántöku Landsbanka Íslands hf. hjá ríkissjóði en breski fjármálaráðherrann taldi að ríkisstjórn Íslands væri að hafna boði bresku ríkisstjórnarinnar um að gegn tiltekinni greiðslu mundu þarlend stjórnvöld taka allar skuldbindingar Icesave-reikninganna á breska innlánstryggingakerfið og þar með hlífa Íslandi við þeim gífurlega kostnaði sem var fyrirséður og stjórnvöldum beggja landa fullljós. Ljóst virðist að fjármálaráðherra hafi ekki verið skýrt frá fundarefni viðskiptaráðherra Íslands með breska fjármálaráðherranum í lok ágúst sl. þar sem umfjöllunarefnin voru Icesave-reikningar Landsbanka Íslands í Bretlandi. Furðulegt má telja að ekki skuli vera til minnisblöð um þennan fund, sbr. svör viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um það mál.

Misskilningurinn lá í því að verið var að fjalla um tvö mismunandi málefni bankans án þess að aðilar málsins gerðu sér grein fyrir því á þeim tíma. Afleiðingin varð beiting svonefndra hryðjuverkalaga á Landsbankann í Bretlandi og eignir íslenskra fyrirtækja þar í landi, sem leiddi til þess að íslenska þjóðin mun að öllum líkindum sitja uppi með hundraða milljarða króna skuldbindingar til framtíðar. Þetta er lýsandi dæmi um samskiptaleysið og vinnubrögðin hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar eins og það blasir við minni hlutanum.“

Í þessu sambandi er rétt að draga fram þá stöðu sem íslenska þjóðin stendur að öllum líkindum frammi fyrir en hvernig þau mál geta litið út veldur miklum áhyggjum. Um það segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þær breytingartillögur sem ríkisstjórnin lagði fram, og meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert að sínum, vantar enn mikið upp á að fyrir liggi heildarmynd af frumvarpinu. Enn hafa ekki komið fram tillögur varðandi vissa útgjaldaliði. Um er að ræða vaxtagjöld af auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig. Einnig vantar endurmat á verðlags- og gengisforsendum, en horfur eru á að þau áhrif verði mjög íþyngjandi. Þá er í fyrirliggjandi breytingartillögum ekki gert ráð fyrir breytingum á öðrum liðum sjóðstreymis eða á 5. gr., lánsfjárgrein frumvarpsins, né á 6. gr., heimildagreininni. Breytingartillögur er varða þessa liði verða lagðar fram fyrir 3. umræðu.

Minni hlutinn hefur leitast við að leggja mjög lauslegt mat á lánsfjárþörf ríkissjóðs, en tekur fram að allar grunnforsendur vantar til að matið geti talist nákvæmt og auk þess er ekki tekið tillit til krafna ríkisins. Í lok október sl. námu skuldir ríkissjóðs 564,3 milljörðum kr. Ekki liggur fyrir hver afkoma ríkissjóðs verður á árinu 2008, en fram komnar upplýsingar benda til halla. Í upphafi árs 2009 nema skuldir a.m.k. 560 milljörðum kr. Halli ríkissjóðs samanlagt til ársloka 2011 gæti hugsanlega numið 500 milljörðum kr.“

„Ætla má að […] fjármögnun vegna ábyrgða Icesave í Bretlandi og Hollandi nemi allt að 660 milljörðum kr. Þá er ekki tekið tillit til hugsanlegrar fjármögnunar innlánsreikninga bankanna í öðrum löndum.“

Hvað segir þessi samantekt okkur?

„Fjármögnunarþörf ríkisins til ársloka 2011 mun samkvæmt þessu lauslega mati nema a.m.k. 1.700 milljörðum kr., sé gengið út frá fyrrgreindum forsendum. Enn fremur má benda á að í ljós hefur komið að hollensk stjórnvöld hafa undirritað viljayfirlýsingu um að fjármagna Icesave-innlán þar í landi fyrir íslensk stjórnvöld en ekki liggur fyrir lánssamningur.

Miðað við þessar forsendur og að kostnaður af fjármögnun ríkisskuldabréfa nemi 13–17% á 5–10 ára skuldabréfum má gera ráð fyrir að vaxtagjöld geti numið á þriðja hundrað milljarða kr. til ársloka 2011. Hjaðni verðbólga eins og áætlanir gera ráð fyrir mun draga úr þessum vaxtakostnaði. Minni hlutinn vekur athygli á því að ef bankarnir geta ekki fjármagnað vandamál sem upp eru komin í íslensku atvinnulífi mun koma til kasta ríkissjóðs. Fjárþörf ríkissjóðs kann því að verða önnur en hér kemur fram. Óvissa ríkir um hvenær eignir bankanna erlendis verða innleystar, hvaða verðmæti er um að ræða og hvaða áhrif þær koma til með að hafa á skuldbindingar ríkissjóðs.“

Hæstv. forseti. Ljóst er að við tökumst á við gríðarlega mikinn vanda á næstu árum. Þá stóru spurningu vantar í upplýsingar um fjárlögin, hvernig við ætlum að taka á honum. Með hvaða hætti ætlum við að taka þessi lán? Hver verða vaxtakjör þeirra? Verður afborgunarleysi á einhverjum tíma lánanna sem við tökum? Hvernig tökum við lán til að borga niður lán þegar við munum ekki ráða við kúfinn?

Ég veit að formaður fjárlaganefndar áttar sig á um hvað ég ræði í þessu sambandi.

Við getum lent í því, sem er mjög líklegt, að þurfa að taka lán til að borga niður önnur lán og fleyta okkur þannig áfram. Við horfum sem sagt á það að næstu 10 árin verðum við með mjög mikla vaxtabyrði og mjög mikla afborgunarbyrði. Þess vegna liggur algerlega ljóst fyrir, hæstv. forseti, að við munum þurfa sameiginlega — og þar undan getur stjórnarandstaðan ekki heldur skorast — að taka á því að koma fjárlögum Íslands til næstu ára á réttan kjöl.

Það þýðir að bæði þarf mikið aðhald og niðurskurð. Einnig verðum við að afla allra þeirra tekna inn í þjóðfélagið sem mögulegt er og nýta alla þá kosti sem eru í boði í atvinnumálum. Það þýðir að við verðum að auka þorskveiðina. Menn ættu varla að vera á tauginni yfir því lengur eftir að fundið var út að einn þorskstofn hafi sett Íslandsmet í vexti og stækkað um 70% á milli ára. Ekki bara Íslandsmet, ég hugsa að þetta sé heimsmet.

Þetta segir auðvitað bara einn sannleika sem er að vitlaust var metið í fyrra og hittiðfyrra. Nú er verið að finna mikið af stórum fiski og þó að við séum guðs börn dettur þessi þorskur ekki af himnum, heldur vex hann og hefur þar af leiðandi verið í sjónum síðustu tvö, þrjú, fjögur eða fimm árin. Ef þessi fiskur finnst núna í sjónum var hann að stórum hluta til í fyrra þó að (Gripið fram í: … mælst núna.) mönnum hafi ekki tekist að mæla hann.

Ég hef heyrt þessa kenningu, hv. þingmaður, hún kallast að veiðanleiki sé svo mikill að menn geti allt í einu farið að veiða svo rosalega mikið að allt sem menn gerðu mælist kolvitlaust. Á venjulegu veiðimannamáli hét það nú að fiskur væri í göngu og þétti sig og er ekkert nýtt við það á Íslandsmiðum. Hann gerir það og á því byggjast allar fiskveiðar.

Það eru ánægjuleg tíðindi að þessi skekkja skuli hafa verið leiðrétt og ég tel að við verðum að bregðast við með því að auka þorskaflann. Við verðum að ná í meiri tekjur. Það eru váleg tíðindi sem bárust í morgun, ef rétt er haft eftir í blöðunum, að menn ætli ekki að aðhafast við neitt sem heitir uppbygging á þeim álverum sem tekin hafði verið stefna á. Það setur atvinnumál á svæðum eins og Húsavík í uppnám og þá framtíð sem menn horfðu þar á varðandi orkunýtingu. Það segir hins vegar ekki að ekki séu til aðrir kostir til orkunýtingar og þar verða menn að svipast um og reyna að finna atvinnutækifæri sem hægt er að nýta orkuna í. Það er nú einu sinni þannig að álverð á heimsmarkaði hefur jafnan verið breytilegt, nú er það lágt og má búast við því að dragi úr framkvæmdum á þessu sviði. Ef við getum fundið fleiri möguleika til að nýta orkuna en að festa hana í álveri fagna ég því. Það er gott fyrir íslensku þjóðina að setja ekki öll eggin í sömu körfuna, byggja ekki á einni atvinnugrein að langmestu leyti þó að það verði sennilega ekki í stóriðjunni. Margir voru samt farnir að tala um að stóriðjan, álframleiðslan, yrði okkar stærsti framleiðsluatvinnuvegur.

Ferðaþjónustan er eitt af því sem við getum örugglega bætt í og aukið við. Við þurfum auðvitað að meta það og stjórnvöld þurfa sérstaklega að skoða hvernig þau geta stutt við ferðaþjónustuna í landinu og aukið ferðamannastraum. Þar er eftir mikilli auðlegð að slægjast og miklum möguleikum fyrir framtíðina.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að við þurfum líka að skera niður. Það er ekki hægt að gagnrýna allt sem gert er í þeim efnum þó að við setjum vissulega fyrirvara í nefndarálit okkar að því er varðar niðurskurð á heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum vegna þess að við sjáum ekki hvernig það á að samrýmast þeim markmiðum að viðhalda hér velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni að fara í málin eins og lagt er til núna í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar. Ég held að menn verði að skoða þau mál betur á milli 2. og 3. umr. eins og fjöldamargt annað sem hér er til umræðu, hæstv. forseti.

Það er alveg ljóst að við eigum mikið undir því að velferðarkerfi okkar haldi, að velferðarkerfið geti tekist á við þá niðursveiflu sem er í þjóðfélaginu, um það þurfum við að sameinast. Næsta ár verður vafalaust mjög erfitt og ég held að menn þurfi að leggjast í það sameiginlega að vinna þessi mál til betri vegar, hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan bauð fram beina samvinnu um þessi mál þegar á haustdögum þegar það ástand var að skella á okkur sem varð. Þetta viðhorf okkar í stjórnarandstöðunni hefur reyndar margoft komið fram, að við værum tilbúin til að leggja því lið að vinna að því að koma íslensku þjóðinni út úr þeim gríðarlegu erfiðleikum sem fram undan eru.

Ég verð að segja alveg eins og er að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og samþykki meiri hluta fjárlaganefndar á þeim vinnubrögðum með því að taka þennan pakka á fimmtudaginn og gera hann að sínum buðu ekki upp á þetta samráð.

Það eru nokkrir dagar eftir af þessu ári og við í minni hlutanum höfum sagt það í nefndaráliti okkar að við teldum óframkvæmanlegt að fara fram með fjárlögin miðað við þær upplýsingar sem nú lægju fyrir, það yrðu að koma upplýsingar um lánsfjárpakkann, samsetningu lánanna, greiðslukvaðirnar og einhver framtíðarsýn um það hvernig við sæjum til lands næstu 3–4 árin varðandi þá stöðu sem við erum að lenda í. Það er ekki hægt að tala neina tæpitungu um þetta mál. Þetta er alveg grafalvarlegt sem við erum að lenda í. Byrðarnar sem munu lenda á fólkinu í landinu verða miklar, þar þurfum við líka að forgangsraða og mér finnst ekki mikil forgangsröðun í þeirri stefnumótun að fara núna í flata skattahækkun í stað þess að skoða, hvað eigum við að segja, hver voru baráttumál Samfylkingarinnar í skattamálum? Var það ekki þrepaskipt skattkerfi sem gæti leitt til þess að skatturinn yrði minni á þeim sem voru með lægri tekjurnar en meiri á þeim sem væru með hærri tekjurnar? Og hvert var forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili í skattamálum? Að afnema hátekjuskattinn í staðinn fyrir að horfa frekar til þess að hann væri raunverulegur hátekjuskattur og að horfa til þess að hin ótrúlegu laun sem voru greidd í þessu þjóðfélagi væru skattlögð, m.a. í gegnum hátekjuskattsþrep. Nei, menn gerðu það ekki, menn völdu þá leið að segja sem svo að hátekjuskatturinn væri farinn að teygja sig of neðarlega í launastiganum eins og hann var. Það kunna vel að hafa verið rétt rök, en þá áttu menn bara að hækka launalínuna, færa hana upp og hafa hátekjuskattinn inni þar ofan við.

Nú leggur ríkisstjórnin það til að við alþingismenn og æðstu embættismenn lækkum laun okkar, að við förum þá leiðina til að ná niður þessum hæstu tekjum. Ég hefði talið miklu betra að gera það í gegnum skattkerfið, en ef við ætlum að gera það hér með lögum gagnvart okkur sjálfum mælist ég til þess, hæstv. forseti, að við gerum það sjálf, við klárum það sjálf hér í Alþingi að ákveða hvað við ætlum að skera launin niður um mörg prósent en vísum því ekki út í bæ.

Ef það tekst og ef einnig tekst að semja niður við aðra þá standa lögin um kjararáðið samt óbreytt, og hvernig virkar þá kjararáð þegar launin hafa verið skorin niður? Þá ber því að taka mið af því að lækka launin og vinnur þá eftir sínum lögum.

Þannig skil ég þessi lög, hæstv. forseti. Við bættum síðast inn þegar við breyttum lögunum um kjararáð, sem er ekki langt síðan, að taka mið af því sem gerðist á almennum vinnumarkaði. Ég held að það hafi verið réttmæt breyting en mér hefur alltaf fundist það dálítill aumingjadómur, fyrirgefðu orðbragðið, hæstv. forseti, þegar við þingmenn sjálfir þorum ekki að tala um eigin kjör, hvorki eftirlaunin okkar í æðstu störfum né kjör okkar eins og þau eru.

Það er kannski vegna þess að ég var svo vanur að tala um kjörin mín í 25–30 ár meðan ég var í forustu fyrir mína stétt, skipstjórnarmenn á Íslandi og aðra yfirmenn á skipum. Ég tel ekki að það sé neitt til að skammast sín fyrir, að tala um kjörin sín. Menn eiga bara að tala um þau og þjóðin á alveg að fá að vita hvað við höfum í laun. Ég skorast hvorki undan því að ræða kjarahlið alþingismanna né undan því að ræða hið svokallaða eftirlaunafrumvarp. Ég vil að það sé rætt með rökum, út frá talnalegum forsendum og skynsamlegum rökum, hvernig sem við förum í gegnum það.

Allt er þetta partur af ríkisfjármálunum og þeim kostnaði sem ríkið hefur.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið. Ég hef flutt hér alveg sérstaklega frábæra ræðu, held ég. Maður verður að gefa sér einkunn sjálfur þegar hv. formaður fjárlaganefndar gengur hér hjá og lýsir bara eigin ágæti en ekki annarra. Ég þakka að lokum fyrir samstarfið í nefndinni og þó að mér finnist að vegna þeirra aðstæðna sem núna eru uppi hafi ekki tekist að vinna verkin eins og ég hefði viljað sjá, eða að við stjórnarandstaðan hefðum fengið að koma miklu fyrr að þeim pakka sem ríkisstjórnin lagði fyrir og skoða hann og leggja kannski eitthvað gott til málanna get ég samt sagt að það er ágætt að vinna með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd. Ég kvarta ekki undan því og ég þakka starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir frábært samstarf og þjónustu við okkur í minni hlutanum.