136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir frábæra ræðu, tímamótaræðu og ódauðlega í alla staði. Hún var einnig kröftuglega flutt.

Ég hélt um tíma að hv. þingmaður gæti ekki komið þorskinum að í ræðu sinni því að hann var búinn að tala í meira en hálftíma án þess að minnast á hann. Það sagði mér að hv. þingmanni væri mikið niðri fyrir varðandi ýmislegt annað en síðan vék hann að þeim þáttum, varðandi hugsanlega aukna þorskveiði eins og hann hefur jafnan gert og hefur haldið á lofti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka það af honum. Hins vegar vék hann svolítið að því í ræðu sinni að fara þyrfti fram með mikið aðhald og niðurskurð í ljósi þeirra upplýsinga sem þó eru til staðar, þótt af skornum skammti séu. Því væri kostur að vita hvar hv. þingmanni þætti best að bera niður varðandi þær hagræðingaraðgerðir sem er ljóst að þarf að fara í. Ég tek undir að það sem er veikt í upplýsingastreyminu og ég hef áður vikið að því í ræðu minni, þrusuræðu, er að hafa ekki nákvæmt yfirlit yfir lánsfjármögnun og vaxtagjöld ríkissjóðs en það er boðað að þær upplýsingar komi fram við 3. umr.

Einnig vil ég ítreka varðandi umræddar tillögur ríkisstjórnarinnar sem fjárlaganefnd hefur til umfjöllunar að við í stjórnarmeirihlutanum berum auðvitað fulla ábyrgð á þeim gjörningum og þeim tillögum sem hér eru (Forseti hringir.) til umræðu.