136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:55]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar skyldi ég eiga að byrja að telja upp þegar benda skal á það sem mætti huga að? Við getum litið yfir farinn veg og skoðað hvað hefur orðið úr þeim stofnunum sem við höfum búið til á undanförnum árum og áratugum. Hvernig hafa þær þróast? Hafa þær fylgt einhverri markvissri áætlun? Ég held að svo sé ekki. Eina áætlunin sem þær stofnanir sem við höfum sett á fót hafa fylgt er útþensla. Þær hafa stækkað og stækkað og stækkað.

Fyrsta stofnunin sem mig langar að minnast á er Fiskistofa. Þegar Þorsteinn Pálsson mælti fyrir þeirri tillögu á fiskiþingi fyrir mörgum árum lýsti hann því yfir þegar gengið var á hann um kostnað og útþenslu og annað slíkt að sú stofnun yrði aldrei — taktu eftir, hv. formaður — stærri en 11 manna stofnun. Ég held að með virkum lagfæringum á fiskveiðistjórnarkerfinu sé enginn vandi að breyta starfsemi Fiskistofu verulega. Með því að hafa kerfið þannig hannað að það líti meira eftir sér sjálft og að meiri hvati sé í kerfinu sjálfu en það þurfi ekki endalaust að vera með eftirlit yfir sjálfu sér.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að mér finnst koma mjög vel til greina að skoða varnarmálaþáttinn sem við höfum tekið upp á undanförnum árum. Mér finnst koma meira en til greina að skoða svokallaða Varnarmálastofnun. Mér finnst líka koma til greina (Forseti hringir.) að skoða fyrirhugaða sjúkratryggingastofnun, hvort hún eigi rétt á sér því þó að ég hafi greitt henni atkvæði þá eru bara breyttir tímar núna.