136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:58]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held einnig að það þurfi að fara sameiginlega — þess vegna sagði ég að ég saknaði þess að stjórnarandstaðan hefði ekki fengið að koma að þessum pakka sem ríkisstjórnin komi með fram — í gegnum allar tillögur sem geta orðið til sparnaðar. Ég hef hins vegar þann fyrirvara sem ég nefndi í ræðu minni varðandi velferðarstofnanir og heilbrigðiskerfið. Það er af þeirri ástæðu að það mun reyna mjög á velferðarkerfið á næstunni og þess vegna jafnvel heilbrigðiskerfið á komandi árum.

Ég held einnig, hæstv. forseti, að takist okkur að styðja verulega við atvinnulífið muni það gefa okkur auknar tekjur. Það mun gefa okkur auknar tekjur og það mun draga úr atvinnuleysisbótaþættinum og þeim kostnaði sem fylgir atvinnuleysinu. Þetta er samspil þess að reyna að auka tekjurnar, halda uppi atvinnustiginu og þess að skera niður.

Ég hef ekki gert aðra fyrirvara í máli mínu, hæstv. forseti, en þann að ég teldi að það þyrfti að verja velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið. Ég held að við getum skoðað mjög marga þætti í ríkisfjármálunum til að leita að sparnaði. Það er ljóst að þjóð sem á að taka á sig 60–100 milljarða í vaxtakostnaði af ekki stærra hlutfalli fjárlaga en íslenska þjóðin er með mun þurfa mikið aðhald á næstu árum. Við verðum að leita þess þar sem við teljum að hægt sé að skera niður án þess að dýpka þá lægð sem við erum að lenda í.