136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að nefndaráliti meiri hlutans. Það hefur eiginlega verið með óbreyttu sniði undanfarin ár jafnvel áratugi. Inni í því áliti er álit frá minni hluta utanríkismálanefndar.

Úr því að það var óbeint gert lítið úr áliti meiri hluta fjárlaganefndar og sagt að það væri rúm blaðsíða er álitið frá minni hluta utanríkismálanefndar sex línur. Ég ætla nú að lesa það vegna þess að vísað er til þess. Hér segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur hins vegar að spara mætti mun meiri fjármuni með því að leggja Varnarmálastofnun niður.“

Það hafði áður komið fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hætta ætti öllum fjárútlátum til hernaðartengdra verkefna, þ.e. til NATO, það hafði áður komið fram. Þá fjármuni ætti að nota í að halda því hlutfalli sem rennur til þróunarsamvinnu og mannúðar- og hjálparstarfs að lágmarki hinu sama miðað við þjóðarframleiðslu á þessu ári. Álitið er ekki lengra.

Líkt og fram kom í morgun hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni segir þarna að taka eigi niður þessa tvo þætti og flytja þá í annan rekstur. Einnig hefur komið fram að hv. þm. Steingrímur J. vill taka upp hátekjuskatt sem mundi gefa 3–4 milljarða. Þegar hátekjuskatturinn var hér — ég er í sjálfu sér sé ekki á móti því að menn séu með einhver skattþrep og útfærslu á slíku — gaf hann um einn og hálfan milljarð og lagðist mikið á millitekjufólkið. Aukningin á að vera þetta mikil en að vísu hefur raunvirðið aukist á milli ára. Þá væri fróðlegt að fá að vita hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að hátekjuskatturinn verði útfærður núna (Forseti hringir.) þannig að hann nái 3–4 milljarða kr. tekjuauka.