136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:47]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er von að meiri hlutinn sem tók hér við niðurskurðartillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gegnum ríkisstjórnina síðastliðinn fimmtudag og hefur nú ekki mikið haft fram að færa sjálfur. Spyrjið þá aðra um tillögur og það er sjálfsagt mál að reyna að verða við því að koma með þær.

Varðandi hátekjuskattinn er alveg ljóst að hefði hann t.d. verið álagður eins og hann var á sínum tíma hefði hann gefið umtalsverða fjármuni á árunum 2006 og 2007, sennilega hæst á árinu 2007. Ég tala nú ekki um ef tekjumörkin hefðu verið jafnlág og ef þau hefðu verið látin fylgja verðlagi upp á við hefðu það engu að síður verið fleiri milljarðar á hverju ári. Hann var farinn að gefa 3–4 milljarða, ef ég man rétt, þegar best lét á sínum tíma þegar hann var enn lagður á í fullu fjöri.

Það má vel vera að hv. þingmanni verði að ósk sinni um að ég sjái til þess að hann fái í hendur útfærðar hugmyndir um hvernig megi gera þetta. Ég bið hv. þingmann að hafa örlitla biðlund. Þá verður honum kannski að þeirri ósk sinni og vonandi styður hann þá það að við drögum úr hinum sársaukafulla niðurskurði þar sem við teljum hann vera hvað tilfinnanlegastan, kannski með því að láta það fólk sem þó hefur enn og kemur til með að hafa á næsta ári allgóðar tekjur leggja aðeins meira af mörkum þannig að við reynum að dreifa byrðunum á sanngjarnan hátt. Það er stundum kallað félagshyggja eða jafnaðarstefna og ætti ekki að vera svo erfitt fyrir hv. þingmann að átta sig á því. (Gripið fram í.)

Ég veit ekki hvað mönnum verður ágengt í þessum efnum ef skyndilega skyldu verða þau tíðindi að menn vildu allt í einu fara að vinna að alvörufjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009. Ég veit ekki hvað mönnum verður ágengt í þeim efnum á einhverjum örfáum sólarhringum. Ég beini spurningu til meiri hlutans: Vilja menn hugleiða að fara í þetta eins og menn og taka sér kannski eins og mánuð í að semja (Forseti hringir.) alvörufjárlagafrumvarp en afgreiða fjárheimildir fyrir áramótin þannig að lífið geti haldið sinn vanagang og hægt verði að borga út laun 1. janúar? Þá er okkur ekkert að vanbúnaði að halda slíkri vinnu (Forseti hringir.) áfram inn í janúar.