136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[16:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi nú ekki sagt kannski beinlínis að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu samið þetta frumvarp, enda væri það ekki rétt. En ég fór yfir það og vitnaði í skjöl því til sönnunar að ramminn er þaðan. Og hann er meira en viljayfirlýsingin ein, sú sem þeir rita undir, vinirnir Davíð Oddsson og hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, því að þar er ekki fyllt út í eyður. Það er ekki fyrr en maður fer inn í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og les þar tiltekna hluti sem maður fær botn í það t.d. hvaðan ákvörðunin er ættuð um að draga úr slakanum á fjárlagahallanum strax á árinu 2009. Það kemur ekki fram fyrr en á tilteknum stað í starfsmannaskýrslunni. Þar með segi ég að það er þar sem ramminn er ákveðinn og inn í hann eru menn svo að reyna að þröngva þessum niðurskurði.

Ég hefði haft gaman af því líka að heyra hv. þingmann að tala aðeins um árið 2010 en ég fór hér dálítið yfir að þá yrði kannski aðalhöggið.

Í þriðja lagi í sambandi við leiðir til að draga úr hinum sársaukafulla niðurskurði eða reyna að hafa svigrúm til að minnka sársaukann þar sem hann er tilfinnanlegastur í þessum efnum tel ég að hugleiða mætti hátekjuskatt og jafnvel frekari tekjuöflun. Niðurskurður þar sem enn er hægt að taka út hluti til að spara peninga og meiri halli bjóða upp á blandaða leið sem samtals gæti þýtt að mínu mati svigrúm upp á kannski 10–12 milljarða kr. sem mundu auka verulega getu okkar til að koma til móts við þá liði í þessum tillögum sem verst eru leiknir.

Hvað eru allgóð laun? Ég tel laun ofan við 500–700 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingi og milljón til 1.400 þús. kr. hjá hjónum verða (Forseti hringir.) það há laun að vel megi skoða þar eitthvert álag upp á einhverjar prósentur á þann hluta launanna sem eru þar fyrir ofan, (Forseti hringir.) þannig virkar jú hátekjuskatturinn.