136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Magnússon fór mjög víða í ræðu sinni áðan og er ástæða til að staldra við nokkur atriði í því efni. Á tímabili mátti skilja að þar talaði ekki þingflokksformaður Frjálslynda flokksins miðað við þá umræðu sem frá minni hlutanum hefur komið en engu að síður komu fram margar gagnlegar ábendingar í máli hans sem vert er að taka til skoðunar, sérstaklega það sem lýtur að lækkun útgjalda ríkisins á komandi árum. Þær ábendingar hurfu hins vegar eins og dögg fyrir sólu þegar hv. þingmaður fór að ræða um þá möguleika sem væru enn frekar í stöðunni og ætti að skoða, svo sem lækkun á virðisaukaskatti og hækkun á persónuafslætti. Ég bendi hv. þingmanni á að hverjar þúsund krónur í hækkun á persónuafslætti kosta ríkissjóð um 2,2 milljarða þannig að einhvern veginn verðum við þá að mæta áhrifum af þeim tillögum um skattalækkanir sem hv. þingmaður leggur til.

Ég spyr hv. þingmann í þessu andsvari mínu um þær hugmyndir sem hann hefur uppi til að mæta þeim æskilegu breytingum sem hann leggur til. Þær tillögur sem hann nefndi sjálfur varðandi sparnað eða aðhald í ríkisrekstrinum duga engan veginn upp í þó ekki væri nema þessa tvo þætti.