136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir góða ræðu og sérstaklega hlý orð í minn garð. Mér leið orðið eins og heima í Hafnarfirði. Ég verð að segja að þetta er mesta hól sem ég hef nokkurn tíma fengið á þingi, þ.e. ræða hv. þm. Jóns Magnússonar.

Hv. þingmaður fór yfir nokkur atriði út af því að hann hafði tekið eftir því að ég hafði óskað eftir því. Hann fór yfir ýmis hagræðingaratriði í ríkisrekstrinum, breytingu á launum, eftirlaunum og slíku. Ég tel sjálfgefið að þegar harðnar á dalnum í ríkisrekstri muni þættir eins og yfirvinna og annað breytast og við getum verið sammála um eftirlaunaþáttinn því ég var meðflutningsmaður Valgerðar Bjarnadóttur á því fræga frumvarpi. Varnarmálastofnun og loftrýmiseftirlitið, það hefur komið til umræðu og í þessum breytingartillögum er verið að fella niður 227 millj. kr. til Varnarmálastofnunar m.a. með því að fækka komu erlendra flugsveita vegna loftrýmiseftirlitsins. Síðan fór hv. þm. Jón Magnússon í sendiráðin og (Gripið fram í.) lagði þau öll af nema sendiráðið í Kaupmannahöfn.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Listinn var langur. Það er að vísu verið að leggja það til í tillögunum að starfsstöðvunum í Pretoríu, Strassborg og Róm verði lokað á árinu 2009 og starfsemi aðalræðisskrifstofu Íslands í New York verði endurskipulögð og starfsmönnum fækkað hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, hjá Sendiráði Íslands í París, sendiráði Íslands í Nýju Delí og hjá Sendiráði Íslands í Tokyo þannig að það fer saman með þessum tillögum.

Síðan var vikið að tillögum um niðurskurð hjá forsetaembættinu og Alþingi, aðstoðarmönnum og ráðstöfunarfé ráðherra, og síðan í lokin að styrkjakerfi atvinnuveganna sem ég vil óska eftir að þingmaðurinn skýri örlítið betur.