136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:45]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gefst takmarkað tækifæri til þess í stuttu andsvari að skýra mjög nákvæmlega út flóknar hugmyndir. En miðað við það sem ég var að nefna og þau sendiráð sem ég talaði um að leggja ætti niður þá er það ekki nema hluti af því sem ég tel að skera þurfi niður í utanríkisþjónustunni. Ég tel í raun að þessi gamaldags hugmyndafræði sendiráða eigi ekki heima á 21. öldinni nema í örfáum tilvikum. Þetta getur átt heima þar sem sinna þarf sérstaklega mjög stöðugum málum eins og t.d. hjá sendiráðinu í Brussel þar sem um er að ræða mjög víðtækan samning sem við erum aðilar að, um Evrópska efnahagssvæðið. Þá koma hugsanlega til lönd sem búa við annað stjórnkerfi en við, t.d. Kína, en í löndum sem búa við svipað stjórnkerfi og við er almennt ekki veruleg þörf á að vera með miðaldalegt sendiráð eftir öllum þeim hefðum og reglum sem um það gilda og lúta. Það sem ég var að vekja sérstaka athygli á, hv. þm. Gunnar Svavarsson, er að þar getum verulega skorið niður og tekið á. Það sem ég vil að beint sé augum að er að skera niður yfirbygginguna í stjórnkerfi landsins. Ég tel að við eigum að byrja þar. Við eigum að einfalda stjórnkerfið og skera niður yfirbygginguna og ég benti m.a. á það, sem er ákveðin þungamiðja í því sem ég var að leggja til, að miðað við aðstæður verði launakjör ríkisins endurskoðuð allt frá grunni.