136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[17:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég skildi þau svo að í sjálfu sér mætti loka öllum sendiráðum og líklegast fastanefndum líka nema í Kaupmannahöfn, Berlín og Kína, því að flest voru talin upp en hugsanlega, (JM: Brussel líka.) já, fyrirgefðu, Brussel hljómaði eins og Berlín, en hugsanlega er þetta útfærsluatriði. Hins vegar má skilja þetta svo að hv. þingmaður vilji skoða starfsemi þessara sendiráða.

Hv. þingmaður kom líka að virðisaukaskattsumræðu og persónuafslætti og ég ítreka það að persónuafslátturinn er að hækka og er verðbótatengdur. Ég ætla ekki að ræða um verðtrygginguna við hv. þingmann, við höfum gert það áður á öðrum stöðum. En það var sérstaklega þetta sem ég vék að í spurningu minni, vegna þess að hv. þm. Jón Magnússon vék að því í ræðu sinni í dag að það ætti að fara inn í styrkjakerfið, rannsóknarstyrki eða velferðarsjóð atvinnuveganna, eins og hann nefndi í ræðunni. Mér dettur þá í hug að í umræðu í síðustu viku, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna útflutnings á bílum, þá talaði ég um þarna væri um óbeina styrki að ræða af því að í sjálfu sér væri hálfpartinn verið að endurgreiða þetta í formi félagslegra styrkja til að koma ökutækjunum úr landi, notuðum ökutækjum, því að þau væru kannski 80% í eigu atvinnuveganna. Hv. þm. Jón Magnússon studdi þá tillögu. Þess vegna spyr ég: Hvað er í raun verið að tala um þegar sagt er að við ætlum að fara inn í velferðarsjóði atvinnuveganna? Ég vil kannski fá það betur útfært.