136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:32]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlög við 2. umr. og ég tel sérstaka ástæðu til að koma upp þó ekki væri nema til að gera grein fyrir því að ég er alls ekki sátt við þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð í tengslum við þetta mál. Það kemur mjög vel fram í nefndaráliti minni hlutans að það vantar allar forsendur inn í þetta fjárlagafrumvarp, þ.e. fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á sínum tíma eins og hefðbundin vinnubrögð gera ráð fyrir er orðið algjörlega úrelt. Það varð ljóst strax og við vissum að bankarnir væru að hrynja að það fjárlagafrumvarp gæti aldrei orðið neitt til að byggja á. Ég man að á sínum tíma sagði sú er hér stendur að segja mætti að það frumvarp væri skrifað með ósýnilegu bleki.

Síðan hefur fjárlaganefnd beðið eftir að fá skýrari skilaboð frá stjórnvöldum um spár en þau hafa ekki komið. Minni hlutinn hefur ítrekað beðið um þau, bæði munnlega og skriflega, en þau hafa ekki skilað sér og því liggja engar forsendur, virðulegur forseti, að baki þeim tillögum sem við ræðum hér eða fjárlagafrumvarpinu yfirleitt.

Mér finnst mjög alvarlegt líka þegar maður áttar sig á að meira að segja þeir ágætu hv. þingmenn Gunnar Svavarsson og Kristján Þór Júlíusson, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, gáfu fyrirheit um að vinnubrögðin yrðu bætt í sambandi við fjárlagagerðina, taka ætti faglegar á því starfi og fara betur ofan í málin og þingið ætti að taka völdin meira í sínar hendur í þeim efnum. En það er aldeilis ekki sú staða sem er uppi núna, af því að í ljós kemur að það er ríkisstjórnin eða fjármálaráðuneytið sem kemur með tillögur, breytingartillögur. „Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin tóku málið í sínar hendur með stuðningi stjórnarmeirihlutans“, eins og stendur í nefndaráliti minni hlutans. „Þar var unnið að breytingum á frumvarpinu og það nánast endursamið án þess að fjárlaganefnd í heild, hinn lögformlegi vettvangur, kæmi á nokkurn hátt að verkinu.“ Því var sem sagt ýtt yfir á fjármálaráðherra og ríkisstjórnina af stjórnarmeirihlutanum. „Það var ekki fyrr en fulltrúar fjármálaráðuneytisins mættu á fund fjárlaganefndar fimmtudaginn 11. desember að fjárlaganefndinni voru kynntar tillögur ríkisstjórnarinnar um stórfelldan niðurskurð á gjaldahlið frumvarpsins. Enginn tími var gefinn til umræðna um frumvarpið í fjárlaganefnd, hvað þá að tími hafi verið gefinn til að leggja mat á áhrif einstakra tillagna, t.d. með því að ræða við aðila sem viðkomandi tillögur varða.“ Þetta eru vinnubrögðin sem varaformaður og formaður fjárlaganefndar sitja uppi með í þessari stöðu, að þingið hafði sólarhring til að skoða tillögurnar þegar ákveðið er að taka þær úr nefnd. Þessu mótmælti minni hlutinn auðvitað harðlega. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð, virðulegur forseti, tillögurnar eru kokkaðar bak við luktar dyr, svo koma þær fram og þá er gefinn sólarhringur í nefndinni sem að sjálfsögðu getur ekkert farið yfir málin.

Það hefur líka komið fram, virðulegur forseti, að þjóðhagsspá sem er einn mikilvægasti grunnur fjárlagagerðarinnar hefur ekki verið endurmetin. Það liggja ekki fyrir greiðsluáætlanir, engin rekstraráætlun o.s.frv. Ég þreyti þingheim ekki á því að lesa þetta upp en það vantar bara forsendur, það er kannski aðalmálið. Það er alvarlegt að afgreiða fjárlög í þessari stöðu eins og málum er fyrir komið og ég tel ekki eðlilegt að afgreiða þau til eins árs. Það þarf að ræða það, væntanlega í fjárlaganefnd, hvernig hægt er að setja málin fram með þeim hætti að við samþykkjum tillögur til miklu skemmri tíma en eins árs á meðan engin gögn koma.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar við ræðum fjárlögin, eins og af hverju við erum komin í þessa erfiðu stöðu, virðulegur forseti. Mig langar að tæpa á nokkrum atriðum í því sambandi. Í fyrsta lagi langaði mig að ræða um þær gífurlegu ábyrgðir sem við erum að leggja á þjóðina, sem eru svokallaðir Icesave-reikningar. Það er alveg ljóst að þeir munu hafa áhrif á fjárlagagerðina, þetta verða mjög háar upphæðir sem munu hafa áhrif á þjóðarbúið til einhvers tíma. Það er líka ljóst að ráðherrar ríkisstjórnarinnar gáfu mjög óskýr skilaboð til breskra stjórnvalda. Hæstv. viðskiptaráðherra Björgvin Sigurðsson hélt fund 2. september með breska fjármálaráðherranum og sagði þar eitthvað sem maður áttar sig ekkert á hvað var, af því að 7. október talaði hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen við sama ráðherra Breta, Alistair Darling, og þá sagði breski ráðherrann að kollegi hæstv. fjármálaráðherra — og ekki er hægt að lesa út úr því að það sé nokkur annar en hæstv. viðskiptaráðherra eða ég get ekki skilið það á annan hátt — og menn hans hafi sagt rangt til eða sem sagt afvegaleitt eitthvað á þessum fundi með Bretunum.

Sú orðræða sem hefur orðið um ummæli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í þessu sambandi vekur athygli mína af því að núna veit almenningur og stjórnarandstaðan hvað fór fram í símtali hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens og fjármálaráðherra Breta, við vitum hvað fór fram í því símtali af því að það lak út. Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en að það hafi lekið frá íslenskum stjórnvöldum, það birtist fyrst í íslenskum fjölmiðlum. Reyndar er mjög sérstakt að svona símtal hafi verið tekið upp yfirleitt, a.m.k. man sú er hér stendur aldrei til þess þegar hún var ráðherra og átti símtöl við kollega sína erlendis að þau hafi verið tekin upp. En látum það vera, menn hafa kannski viljað taka símtalið upp til að vera með það á hreinu hvað var sagt, en símtalinu var lekið þannig að við vitum hvað þar var sagt og það er alveg greinilegt að það símtal sýnir mjög veikan málflutning hæstv. fjármálaráðherra Árna Mathiesens.

Síðan er það sem Davíð Oddsson hefur sagt. Hann hefur talað um tvö símtöl. Annars vegar símtal sem á að hafa farið fram þar sem hann hafi sagt að 0% líkur væru á því að bankarnir stæðu af sér fjármálaóstöðugleikann erlendis. Hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde brást við þessum ummælum í fjölmiðlum og sagði að eigin frumkvæði að líklega væri seðlabankastjóri að tala um símtal við hann, þ.e. hæstv. forsætisráðherra, og það má vel vera að svo sé. Síðan hefur hæstv. forsætisráðherra sagt að það gæti vel verið að slíkt símtal hafi farið fram en þar hafi þá ekki verið um opinbera stefnu Seðlabankans að ræða. Þetta finnst mér mjög skrýtin umræða af því að seðlabankastjóri treysti sér til að koma svo bratt fram, ekki bara í einhverju spjalli úti í bæ heldur fyrir þingnefnd. Seðlabankastjóri sagði þetta fyrir þingnefnd, vísaði þar í samtöl. Hugsanlega er til upptaka af þessu samtali.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson upplýsti það í umræðu í þinginu að seðlabankastjóri hefði geymt upptökur í lengri tíma en almennt gengur og gerist til að eiga þær til að upplýsa síðar hvernig málin stæðu. Þá fer maður að lúslesa aftur hina frægu ræðu sem seðlabankastjóri hélt á morgunfundi Viðskiptaráðs 18. nóvember sl. en þar segir hann að bresk stjórnvöld hafi ekki skýrt frá því hvers vegna þau gripu til þess að beita okkur terroristalögunum svokölluðu. Seðlabankastjóri segir að ekki hafi öll samtöl verið birt hvað þessi mál varðar og þess vegna sé auðveldara að bera fram tilbúnar sakir o.s.frv. Sem sagt, að ekki hafi öll samtöl verið birt, hér er ekki talað um gögn heldur samtöl, svo líklega eru þetta símtöl, annars hefði viðkomandi aðili ekki orðað þetta svona.

Síðan segir hann, virðulegur forseti, og ég ætla að vitna beint í það sem seðlabankastjóri Davíð Oddsson sagði, með leyfi forseta:

„Ég hef engar áhyggjur af þessu vegna þess að þegar málin verða rannsökuð hljóta fleiri samtöl að verða birt. Mér er kunnugt um efni þeirra og mér er kunnugt um hvað í raun réði afstöðu breskra stjórnvalda.“

Það er alveg ljóst að seðlabankastjóri er að vísa þarna í eitthvert símtal, væntanlega við Breta, sem skýri af hverju þeir beita terroristalögum gegn okkur. Þarna eru tilgreind sérstaklega „samtöl“ sem hlýtur að túlkast sem símtöl en ekki gögn. Það er ljóst að seðlabankastjóri liggur á bunka af símtölum miðað við hvernig hann orðar þetta. Þetta getur því orðið svolítið spennandi þegar þetta verður upplýst síðar. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt mál af því að íslensk stjórnvöld velta fyrir sér, og ég skil það mjög vel, að fara í málaferli gagnvart Bretum út af beitingu hryðjuverkalaganna. Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að þessi ummæli seðlabankastjóra geti truflað þann undirbúning að málaferlum. Það er kannski erfitt að fara í málaferli við erlenda þjóð þegar seðlabankastjóri segir slíkt, að hann eigi samtöl sem sýni af hverju Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum og svo eru þau samtöl ekki birt eða spiluð eða neitt. Ég tel að íslensk stjórnvöld hljóti að vera í gífurlegri klemmu út af þessum ummælum seðlabankastjóra sem vísar þarna í einhver samtöl sem sýna af hverju Bretar beittu okkur hryðjuverkalöggjöfinni.

Virðulegur forseti. Mig langaði líka að minnast á eitt annað, af því að ég ætla ekki að tala lengi, sem tengist fjárlögunum á ákveðinn hátt. En af því að við skynjum auðvitað hve krónan er veik og að hún er líklega ekki gjaldmiðill til framtíðar — ég held að flestir séu að verða sammála um það — þá vakti það athygli mína sem kom fram grein í Fréttablaðinu um helgina eftir hv. þingmenn Illuga Gunnarsson og Bjarna Benediktsson. Sú grein var samfelld vörn gagnvart þeirri stöðu sem uppi er. Það var mjög merkilegt að lesa hana, þar er talað um að hér hafi ríkt fákeppni og mikið verið um krosseignatengsl og það er hárrétt. Það er svolítið gaman að sjá sjálfstæðismenn skrifa svona grein af því að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur sem hefur haft mjög sterk ítök í atvinnulífinu. En nú sjá viðkomandi aðilar það greinilega svart á hvítu að hér hefur ríkt fákeppni og mikil krosseignatengsl. Í þessari grein kemur fram ákveðin afstaða gagnvart Evrópusambandinu sem mér fannst mjög merkileg. Mig langaði að tipla þessu á hér af því að þetta tengist gjaldmiðlinum og afkomu okkar í framtíðinni gagnvart tekjum okkar og gjöldum o.s.frv. Þarna rifja þingmennirnir upp að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á móti Evrópusambandinu, gott og vel, fínt, og þeir rökstyðja það af hverju svo er. En svo segja þeir — ég er ekki með greinina hérna en ég man þetta nokkurn veginn — að þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn mundi hugsanlega samþykkja það á landsfundi sínum — og það er nú gott að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson er einmitt í salnum en hann er formaður í Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins og er að undirbúa landsfundinn — eða komast að þeirri niðurstöðu á fundinum að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB, þ.e. að vera bara áfram í þeirri stöðu sem við erum í núna og vera utan ESB, telji þeir, hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson, að fara eigi í aðildarviðræður og leggja útkomuna úr aðildarviðræðum fyrir þjóðina.

Mér finnst mjög sérstakt að sjá þetta vegna þess að það er talsvert holur hljómur í því ef stjórnarflokkur treystir sér til að hafa slíka stefnu, þ.e. ef flokkurinn segir að okkur sé betur borgið utan ESB en ætli samt að fara á fullu í aðildarviðræður. Það væri mjög holur hljómur í því er og eiginlega mjög skrýtið að menn skuli komast að þessari niðurstöðu. Mér fannst þetta mjög eftirtektarvert og á von á því að um þetta verið mikil umræða í Sjálfstæðisflokknum af því að þar eru menn að velta fyrir sér kostunum og göllunum eins og eðlilegt er.

Það er ljóst að pressan frá Samfylkingunni er alveg gríðarleg á samstarfsflokkinn vegna Evrópusambandsmálanna. Hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði um helgina að það væri sjálfhætt í núverandi ríkisstjórn ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki aðildarviðræður og þá er nú ekki lítið sagt. Það er bara bein hótun í þessu og eiginlega ótrúlegt inngrip í innri stefnumótun hjá samstarfsflokki og hjá hvaða flokki yfirleitt að segja slíkt. Það er afar djúpt í árinni tekið af hæstv. utanríkisráðherra að leyfa sér að koma svona fram gagnvart samstarfsflokki sínum en ég sé ekki betur en Sjálfstæðisflokkurinn liggi algjörlega flatur í málinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert tekið á móti þessari yfirlýsingu, ekkert látið í sér heyra út af henni, heldur hefur hv. þm. Kristján Þór Júlíusson einmitt þvert á móti sagt að menn hefðu ekki tíma á þeim bænum að að eltast við svona ummæli, menn væru á fullu að undirbúa sig fyrir landsfundinn. En það er auðvitað saga til næsta bæjar þegar samstarfsflokkurinn, og það ekkert hver sem er þar heldur formaður hans sem leyfir sér að segja við Sjálfstæðisflokkinn að það verði bara stjórnarslit ef hann samþykkir ekki aðildarviðræður við ESB. Og svo koma þeir ágætu hv. þingmenn Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson og segja: Skítt með það hvað Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir á landsfundi, það verða samt aðildarviðræður. Þetta er sú staða sem við erum í gagnvart þessu máli og er eiginlega alveg með ólíkindum.

Virðulegur forseti. Ég vildi draga þetta sérstaklega fram af því að þetta tengist efnahagsmálum okkar og þó að það tengist þeim ekki í augnablikinu er þetta stórmál til framtíðar og gæti reyndar að margra mati haft jákvæð áhrif á stöðu efnahagsmála hér á landi ef og þegar stjórnvöld ákveða að fara í aðildarviðræður, af því að það verður að segjast eins og er að æ fleiri þingmenn eru á þeirri skoðun og sú er hér stendur er á þeirri skoðun, að það beri að skoða þá leið. Að sjálfsögðu eigum við ekki að samþykkja hvað sem er í aðildarviðræðum, við eigum t.d. að halda hagsmunum okkar í sjávarútvegi mjög vel til haga og í auðlindamálum, en það er með algjörum ólíkindum hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin tala í þessum málum, bæði inn á við og út á við.