136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og sessunaut mínum hér á þingi, Siv Friðleifsdóttur, fyrir ræðu hennar, sem var byggð upp í þremur hlutum. Fyrsti hlutinn vék að yfirlýsingum okkar formanns og varaformanns í fjárlaganefnd varðandi breytingar á vinnubrögðum. Ég stend enn við það sem ég hef sagt í þeim efnum og vonast til að Alþingi hafi mun betri aðgang að upplýsingakerfum en það hefur í dag og hafi fleiri tækifæri til að taka þátt í fjárlagagerðinni og þurfi ekki að vera eins háð og jafnvel ofurselt ráðuneytunum í þeim efnum.

Á sama hátt vil ég segja að fjárlagagerðin hefur verið með mjög óvenjulegum hætti þetta haustið. Þrátt fyrir að við höfum fundað þó nokkuð mikið hefðum við mátt fá tækifæri mun fyrr til að koma að þeim upplýsingum sem við þó fengum. Ég hef lýst því yfir í dag og tekið undir sjónarmið margra hv. þingmanna að þær upplýsingar hefðu mátt vera ítarlegri.

Á sama hátt greindi ég frá því í andsvari mínu hér fyrr í dag við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að ég sæi í sjálfu sér engin vandkvæði á því að þótt við ræddum fjárlögin aftur hér á vormánuðum í þá nýjum fjárauka. Ég sé fyrir mér að það gerist í sveitarfélögunum varðandi fjárhagsáætlanir en hins vegar er ljóst að þegar fjárlögin verða samþykkt gilda þau fyrir árið.

Ég verð hins vegar gefa þingmanninum tækifæri til að gera grein fyrir greinargóðu áliti sem hún sendi fjárlaganefndinni frá 2. minni hluta allsherjarnefndar. Hún kom í fjárlaganefndina og fór yfir það og hefði haft (Forseti hringir.) gott af því að heyra þá yfirferð aftur.