136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[19:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gefa mér mikinn tíma til að fara yfir álitið. En í því var tekið á fangelsismálum, Landhelgisgæslunni og löggæslumálum. Undirstrikað var að brýnt væri að löggæslan gæti haldið uppi eðlilegri starfsemi, því að hún er ein af mikilvægustu stofnunum í ríki okkar. Einnig var bent á að þyrlusveitin er komin niður í lágmarksæfingar og að staðan í fangelsismálunum er óásættanleg þar sem fleiri en einn er í klefa. Þetta var álitið í stuttu máli.

En ég vil aðeins ræða vinnubrögð fjárlaganefndar af því að ég tel að þau séu fyrir neðan allar hellur. Ég er þá ekki að skammast í hv. formanni fjárlaganefndar en hann hefur samt samþykkt vinnubrögðin. Ríkisstjórnin tók allan pakkann til sín og kemur svo með tillögur 11. desember sem á að afgreiða út daginn eftir. Þetta eru mjög slæm vinnubrögð.

Það má herma það upp á hv. formann fjárlaganefndar að hann kvittar undir vinnubrögðin. Af hverju stoppaði ekki hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson vinnsluna? Tillögur komu inn 11. desember, af hverju var þeim hent út daginn eftir? Af hverju var ekki stoppað til að tækifæri gæfist til að fara yfir þetta með eðlilegum hætti í fjárlaganefnd? Þar ræður stjórnarmeirihlutinn för og ekkert mál var að stoppa þá umræðu. Þá ræddum við ekki í dag eitthvað sem við höfum engar forsendur til að ræða.