136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að stjórnarandstöðuþingmenn, rétt eins og forusta Alþýðusambands Íslands, vísi frá sér þeim ásökunum og þeirri gagnrýni stjórnarliða að við séum ekki með tillögur. Vegna þess, herra forseti, að rétt eins og hjá Alþýðusambandi Íslands þá skortir forsendur, það skortir allar forsendur til þess að fara ofan í þetta fjárlagafrumvarp og koma með uppbyggilegar tillögur.

Þetta er hrákasmíð sem er hent í gegnum fjárlaganefnd sem samþykkir pakkann í heilu lagi frá ríkisstjórninni, ættaðan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eins og hér hefur verið bent á. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð.

Það kemur úr því hörðustu átt þegar stjórnarliðar sem ekki geta komið með eigin tillögur heldur sækja þær í gegnum ríkisstjórnina til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, standa svo hér og kvarta undan því að stjórnarandstæðingar komi ekki með tillögur. Eða eins og hæstv. ráðherrar gerðu hér á dögunum kvörtuðu undan því að Alþýðusamband Íslands kæmi ekki með neinar tillögur.

Herra forseti. Ég vísa þessum ásökunum því til föðurhúsanna. Það er eðlilegt að við gerum tillögur til þess að koma í veg fyrir þann blóðuga niðurskurð í velferðarkerfinu sem felst í þeim miklu álögum sem á að fara að leggja á sjúklinga í formi sjúklingaskatta upp á 1.100 millj. kr.