136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[20:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um mat hv. þingmanna á ræðum annarra hv. þingmanna. Hins vegar hef ég dálítið gaman af því þegar hv. þingmenn koma hér upp og miðla okkur af visku sinni og smekk og mati á málefnalegum umræðum. Ég tel að það sé ágætisinnlegg í umræðuna og það segir kannski sitt um umræðuefnin sem fólk velur sér í þessari pontu. Ég ætla núna að leggja mitt mat á þær umræður sem hafa farið hér fram í dag. (SVÓ: Nú, má það?) Var ég ekki að hvetja til þess, hv. þingmaður? Var ég ekki að þakka fyrir mat þingmanna og forgangsröðun (Gripið fram í.) í þessari pontu?

Ég held að þessi umræða í dag sýni einmitt þá óvissu sem ríkir um fjárlögin og það er auðvitað stóra málið sem við ræðum hér í dag. Við erum stödd í því sem við köllum 2. umr. fjárlaga en um nánast nýtt plagg er að ræða og því má í raun kalla þetta 1. umr. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa heyrst um þá óvissu sem við erum stödd í og það er í rauninni erfitt að ræða fjárlög af miklu viti þegar tekjuhliðin er enn jafnóljós og raun ber vitni. Kannski er eðlilegt að fólk leggi þá mat á ræður annarra til að tefja tímann.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri hreinlegra að veita ríkissjóði fjárheimild fram yfir áramót og gefa þinginu þannig aukinn tíma til að vinna fjárlögin betur þó að þeirri vinnu yrði ekki lokið fyrr en í janúar.

Nefndarálit minni hlutans sýnir vel þessa óvissu og varpar skýru ljósi á þá klípu sem við Íslendingar erum í, alveg sama hvar í flokki við stöndum. Á sama tíma og tekjur ríkissjóðs dragast saman eykst þrýstingur á útgjöld til velferðarmála eins og segir í áliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Tekjur ríkissjóðs munu dragast verulega saman á sama tíma og þrýstingur á aukin útgjöld til velferðarmála mun aukast vegna versnandi ástands í þjóðfélaginu.“

Stærsta viðfangsefni fjárlaganna er auðvitað hvernig við komumst út úr þessari kreppu án þess að missa grundvallarstoðir samfélagsins, það sem við köllum velferðar- og menntakerfi, undan okkur. Það mundi ég kalla óafturkræf samfélagsspjöll. Þessi fjárlög, ókláruð eins og þau eru, skipta miklu fyrir framtíðina. Okkar hlutverk er ekki aðeins að koma okkur út úr þessari efnahagskreppu heldur líka að gæta þess að þjóðin missi ekki það sem hún hefur byggt upp hvort sem það eru skólar, heilbrigðisþjónusta eða almannatryggingar. Okkar hlutverk er að gæta hagsmuna þjóðarinnar og það er eðlilegt að við horfum á þessi fjárlög í því samhengi sem þau eru sett. Þ.e. þau eru sett í kreppu sem kemur í kjölfar loftbólugóðæris sem sprakk framan í okkur þegar bankarnir hrundu í byrjun október.

Eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans hafa sumir haldið því fram að miðað við umfang efnahagskerfis eigi Íslendingar nánast heimsmet í bankahruni. Það kemur kannski ekki á óvart miðað við hin frægu höfðatölufræði. Erlendir fjölmiðlar lýsa íslenskri þjóð eins og hún sé í áfalli enda hefur sjálfsmynd Íslendinga verið snúið á hvolf á einni nóttu. Í hópi ríkustu þjóða heims í gær og skuldar hvað mest í dag. Það er ekki nema von að fólk kalli eftir aðgerðum enda er það almenningur sem núna borgar brúsann fyrir ævintýramennsku fjármálamanna, bankastjóranna sem brostu allan hringinn meðan Icesave-reikningarnir möluðu gull. Þeir hringdu á föstudegi til að vita hvað mikið af peningum hefði runnið inn en þessir peningar hafa allir runnið út aftur. Þetta eru sömu auðmennirnir og eignuðust hlut hver í öðrum í frumskógi krosseignatengsla og lánuðu sjálfum sér peninga til að kaupa meira loft. Nú eru niðurskurðarfjárlög á borðinu sem eru viðbrögð við þessu.

Við höfum kallað eftir pólitískum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við höfum kallað eftir kosningum. Við höfum kallað eftir því að mistök séu viðurkennd. Við höfum kallað eftir því að horfið verði frá þeirri stjórnarstefnu sem hér hefur verið, byggðri á frjálshyggju og meðvitaðri pólitískri afskiptaleysisstefnu, en það gerist ekki neitt. Ríkisstjórnin situr sem fastast og segir ekki af sér. Hún lætur kenningar á flot um að einstökum ráðherrum verði hrókerað til, sem kalla má smjörklípu eins og hún var einhvern tíma skilgreind. Einu breytingarnar sem eru boðaðar er að ef Sjálfstæðisflokkurinn snúist ekki í afstöðu sinni til Evrópusambandsins sé stjórnarsamstarfinu sjálfhætt. Því er ekki sjálfhætt þegar ríkisstjórnin er búin að keyra þjóðina í þrot. Þá er ekki ástæða til að hætta.

Aðgerðirnar hafa verið að fallast á þá afarkosti sem okkur voru settir vegna Icesave-reikninganna — en þeir eru auðvitað stórt vandamál í þessum fjárlögum því þá þarf væntanlega að greiða — fallast á kröfur Evrópusambandsins og viðurkenna tilskipun ESB um innstæðutryggingu gegn óljósum fyrirheitum um að tillit verði tekið til okkar erfiðu aðstæðna.

Það er ekkert skrýtið að Evrópusambandið hafi ekki viljað láta reyna á málaferli vegna Icesave-samninganna. Auðvitað vildi Evrópusambandið ekki taka þá áhættu að réttaróvissa skapaðist um tilskipunina um innstæðutryggingu. Þetta hafa íslensk stjórnvöld fallist á og þar með senda þau ákveðin skilaboð út í heiminn um að ekki verði látið reyna á málið fyrir dómstólum þó að þeim möguleika sé haldið opnum í orði. Um þetta fjallaði forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Björg Thorarensen, m.a. í ræðu á fullveldisdaginn. Í máli Bjargar kom fram, með leyfi forseta, að:

„ESB-ríkin voru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið vakið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir um ríkisábyrgð á bankainnstæðum. Í ofanálag voru skilyrði fyrir aðstoð Alþjóðgjaldeyrissjóðsins spyrt saman við þessar deilur um ríkisábyrgð innstæðna, svo íslensk stjórnvöld áttu engra kosta völ. Það var ekki um annað að ræða að gangast undir þá þvingun að taka lán sem rennur að hluta til þess að ábyrgjast greiðslur tryggingasjóðsins, nokkuð sem ríkinu ber engin lagalega skylda til, hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarreglum. Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar, ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum, og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.“

En það var ákveðið að láta ekki á þetta reyna og treysta frekar á náð og miskunn um að tekið yrði tillit til okkar sérstöku aðstæðna.

Þetta er enginn smáreikningur sem við vitum þó ekki enn hver verður, allt að 640 milljarðar, 660 milljarðar jafnvel, og um leið erum við ræða þessi niðurskurðarfjárlög þegar við erum búin að gefa þetta eftir.

Á sama tíma og þetta er gert virðast málaferli gegn Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga vera stopp og ekkert að gerast. Búið er að ræða það í þessum sal. Rík ástæða er þó til að standa í lappirnar í því máli enda hafa bresk stjórnvöld með aðgerðum sínum valdið miklum skaða og það er morgunljóst að eignir Landsbankans í Bretlandi hafa rýrnað við þennan gjörning, eignir sem annars hefðu gengið upp í Icesave-skuldbindingarnar sem íslenskur almenningur þarf nú að borga. En það gerist ekkert í því heldur, er það? Allir taka því bara rólega í ríkisstjórninni.

En það var reyndar eitt gert. Leitað var eftir fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það kemur ekki á óvart að skilmálar hans bera vott um að þar eru auðvitað á ferð varðhundar fjármagnsins en ekki almannahagsmuna. Þar er kveðið á um hina metnaðarfullu áætlun í ríkisfjármálum sem á að bera vott um aðhaldssaman rekstur sem þýðir á mæltu máli niðurskurður. Þetta frumvarp sprettur upp úr því ömurlegu ástandi sem íslenskur almenningur kallaði ekki yfir sig nema kannski með því að kjósa þá flokka sem sitja enn í ríkisstjórn. Þetta er til marks um blóðugan niðurskurð sem á eftir að bitna á íslenskum almenningi, því miður, óttast ég, um nokkra framtíð. Hins vegar er enn þá mikil óvissa um tekjuhlið frumvarpsins.

Hv. þm. Magnús Stefánsson fór í ræðu sinni yfir skuldir ríkissjóðs eins og minni hlutinn í fjárlaganefnd hefur reiknað þær út samkvæmt þeim óljósu forsendum sem liggja fyrir en í nefndaráliti minni hlutans er gerð talsverð grein fyrir þessu. Þar hefur minni hlutinn leitast við að leggja lauslegt mat á lánsfjárþörf ríkissjóðs. Að vísu vantar, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, allar grunnforsendur til þess að matið geti talist nákvæmt og ekki tekið tillit til krafna ríkisins.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka mál hv. þm. Magnúsar Stefánssonar en hins vegar eru þetta óhugnanlegar tölur og er rætt um að fjármögnunarþörf ríkisins til ársloka 2011 gæti numið samkvæmt þessu mati að minnsta kosti 1.700 milljörðum kr. ef gengið er út frá þeim forsendum sem minni hlutinn gefur sér í þessu áliti. Þetta eru auðvitað risavaxnar tölur.

Tekjuhlið frumvarpsins er óljós. Gert er ráð fyrir um 395 milljörðum í tekjur í núverandi drögum en samkvæmt áliti minni hlutans er ekki ólíklegt að þær gætu verið ofmetnar. Enn hefur ekki gefist tími til að ræða tekjuhlið í efnahags- og skattanefnd enda gríðarlegt álag á þeirri nefnd um þessar mundir og hefur hún vart undan að fjalla um frumvörp sem á að afgreiða fyrir jól.

Hér hefur verið kallað eftir tillögum. Í breytingartillögum meiri hlutans er gert ráð fyrir að hækka tekjuskatt um 1% en ekki minnst á hátekjuskatt sem gæti lagst á laun t.d. yfir hálfri milljón. Reyndar sagði formaður annars stjórnarflokksins nú á dögunum að hátekjuskattur væri fyrst og fremst táknrænn og jöfnuður er þá líklega almennt táknrænn því að hátekjuskattur gengur einmitt út á að jafna byrðir, dreifa skattbyrðinni á réttlátari hátt. En þar er ekki gerð tilraun til þess heldur er tekjuskattur hækkaður á alla jafnt. Síðan er að sjálfsögðu boðuð aukin skattheimta í frumvarpinu með auknum sjúklingasköttum, auknum komugjöldum í heilbrigðisþjónustu, og því má segja að almenningur borgi skuldir útrásarvíkinganna. Á sama tíma eru skattarnir hækkaðir flatt og skuldir almennings vaxa með verðtryggðum húsnæðislánum og ekki hefur verið ráðist í neinar aðgerðir til að vinna gegn því að öðru leyti en því að fólk getur lengt í hengingarólinni, geymt skuldirnar og safnað þeim upp.

Mig langar að ræða sérstaklega um þann niðurskurð sem boðaður er í frumvarpinu og þó að ég hafi aðeins nefnt aukin komugjöld í heilbrigðiskerfinu ætla ég svo sem ekki að ræða heilbrigðismálin í löngu máli. En auðvitað vekur miklar áhyggjur sá mikli niðurskurður sem er boðaður í starfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss um 2 milljarða. Það veldur ekki síst áhyggjum af því að í nýlegri frétt frá 13. nóvember sl. kemur fram í Morgunblaðinu að spítalinn verði rekinn með 1.500 millj. kr. halla á þessu ári. Er sá halli ekki síst sökum gengisins og innkaupa á lyfjum og tækjum eða um það bil 1.200 millj. af þessum 1.500 millj. kr. halla.

Það er auðvitað áhyggjuefni að á sama tíma og þessi aðalspítali landsins er rekinn nú þegar með 1.500 millj. kr. halla er boðaður 2 milljarða niðurskurður þannig að það er alveg ljóst að eitthvað verður undan að láta og það verður þá að sjálfsögðu þjónustan við sjúklinga.

Boðaður er 209 millj. kr. niðurskurður á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og 270 millj. kr. niðurskurður á heilsugæslustöðvum almennt. Alls eru skornir tæpir 7 milljarðar af heilbrigðisráðuneytinu. Það er auðvitað hætt við því að ekki aðeins eigi þjónustan eftir að skerðast og ekki aðeins eigi sjúklingar eftir að borga meira fyrir að verða veikir heldur er hætt við því að öll þróunarverkefni, t.d. samningurinn sem verið hefur í gildi við Akureyrarbæ um heilsugæslu, missi vind úr seglum eða falli niður.

En heilbrigðismálin eru þó ekki aðalefni mitt heldur niðurskurður í menntamálum upp tæplega 4,4 milljarða. Í fyrra fjárlagafrumvarpinu — ég kalla það fyrra fjárlagafrumvarpið því að ég tel þetta ekki vera sama plagg og var lagt fram í byrjun október — var gert ráð fyrir aukningu til háskólanna, reyndar mestri aukningu til hins einkarekna háskóla, Háskólans í Reykjavík, eða 24% en 18,5% hækkun til sameinaðra háskóla, HÍ og KHÍ, og 17,2% til HA. En nú er í staðinn kominn flatur niðurskurður á skólana auk þess að framlögum til rannsókna hefur verið frestað. Þar vegur mjög þungt 655 millj. kr. frestun á framlagi til rannsókna í Háskóla Íslands.

Eins og hv. þingmenn rekur minni til var sá samningur boðaður með pompi og prakt í fyrra og sáu þá forsvarsmenn skólans loksins fram á að geta sig hrært eftir áralanga sveltistefnu vegna þess að skólanum hafði verið mjög þröngur stakkur sniðinn. Þetta er þó ekki eini niðurskurðurinn heldur er framlag til rekstrar háskólans lækkað um 270 millj. og háskólasjóðurinn sem sinnt hefur ungu fræðafólki og nýdoktorum er skorinn um 118 millj. kr.

Það er auðvitað grátlegt eftir að skólinn sá loks fram á bjartari tíma eftir áralanga sveltistefnu þar sem margar námsgreinar höfðu orðið mjög illa úti og lent í ódýrasta flokki reiknilíkansins. Og því miður hefur ástandið verið þannig að ekki hefur verið mögulegt að ráða kennara í margar greinar í stað þeirra sem hætt hafa og kennslu hefur verið haldið úti með ódýrasta mögulega vinnuafli sem eru stundakennarar með enga rannsóknarskyldu og eru vinnuþrælkaðir oft og tíðum.

Þó að háskólunum hafi fjölgað hér á landi hafa tækifærin verið takmörkuð fyrir unga fræðimenn og nýdoktora sem snúa heim úr námi. Tækifærin eru mjög takmörkuð í sumum fræðigreinum. Eins og þinginu ætti að vera kunnugt um er hörð alþjóðleg samkeppni í fræðaheiminum og þar skiptir gríðarlegu máli að geta haldið þessu unga fólki heima og að lögð sé rækt við séreinkenni hvers fræðasamfélags. Með þessum ákvörðunum, sem ekki munu aðeins gilda í ár eða næsta ár heldur hafa áhrif langt fram í tímann því að boðaður hefur verið frekari niðurskurður á næstu árum, horfum við fram á mjög slæma tíma fyrir íslenskt fræðasamfélag og þá er ég náttúrlega ekki bara að tala um Háskóla Íslands.

Rannsóknarsamningi við Háskólann á Akureyri er frestað og sparað er eftir því. Öllum rannsóknarsamningum við háskóla er frestað og sparað í rekstri. Fallið er frá sérstökum framlögum til fræðasetra Háskóla Íslands og það langar mig að ræða sérstaklega. Þar eru 24 milljónir sem vissulega er lág tala en þar er um að ræða Háskólasetur Snæfellsness, Háskólasetrið á Hornafirði, Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Húsavík, Rannsóknasetur Háskóla Íslands í landnýtingu og Fræðasetur Háskóla Íslands á Austurlandi. Þessi setur hafa verið mjög mikilvægar miðstöðvar fyrir landsbyggðina. Þarna hefur verið unnið mikið starf fyrir lágmarksfjármagn. Unnið hefur verið að fjölda nýsköpunarverkefna en framlög ríkisins á flestum setrunum, líklega utan eins, hafa miðast við rekstrarkostnað og laun eins forstöðumanns. Þessir forstöðumenn hafa síðan aflað viðbótartekna og getað skapað þannig fleiri störf. Þessi setur hafa verið í miklu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki í sínum heimabyggðum þannig að þarna er mikilvæg atvinnuskapandi starfsemi, sprotastarfsemi, sem byggir á nýsköpun á landsbyggðinni skorin niður í einu vetfangi um 24 millj. kr.

Það er vissulega rétt að staðan er þröng og skera þarf niður. En stóra málið er kannski það að hér hafa menn haft uppi stór orð og þá er ég að tala um þingmenn og ráðherra ríkisstjórnarinnar sem hafa staðið hér og annars staðar og rætt um menntun og rannsóknir sem leið út úr kreppunni. Þeir hafa sagt að það sé mjög mikilvægt að efla og verja skóla og rannsóknarstofnanir þegar sverfur að því að þar liggi tækifærin, tækifæri til atvinnusköpunar, þekkingarsköpunar og verðmætasköpunar fyrir íslenskt samfélag. En hvað er gert hér? Jú, það er frestað öllum rannsóknarsamningum. Þekkingarsköpuninni sem á að koma okkur út úr kreppunni er skotið á frest og væntanlega verðmætasköpuninni líka. Störfin sem hefðu getað orðið til verða ekki til. Ég spyr: Hvað varð um nauðsyn þess að halda fólki hér heima? Það eru ekki mörg tækifæri þegar við horfum á þennan niðurskurð á rannsóknum. Rannsóknarsamningarnir höfðu nefnilega gefið mörgum von um að tækifæri væru fram undan en þau eru tekin burtu.

En ég vil bara minna á orð sendiherra Færeyja hér á landi sem talaði á málþingi hjá BSRB á dögunum um kreppuna sem þar var. Lærdómur okkar, sagði hún, var sá að peningur kemur aftur en fólk kemur ekki aftur. En við ætlum ekki að læra neitt af Færeyingum heldur ætlum við bara að reyna að skera sem mest sem hraðast niður og koma okkur þannig út úr kreppunni. En á þessum tíma gætum við misst fólk út og það kemur ekki aftur.

Ég gæti rætt um margt í kaflanum um menntamálin og ljóst er að það verður mjög þröngt í búi hjá framhaldsskólunum sem fá þennan flata niðurskurð. Að auki er öll forfallakennsla skorin niður um 126 millj. sem þýðir að ef framhaldsskólakennari forfallast þurfa skólarnir að leysa það innan búðar. Miðað við að reksturinn hefur verið þröngur hingað til sé ég ekki að það sé nokkurt svigrúm fyrir skólana að skipuleggja starf sitt þannig að nemendur geti fengið þá kennslu sem þeim ber. Þetta á því eftir að skila sér í skertri þjónustu við framhaldsskólanema þessa lands.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga þar sem verið hafa metnaðarfull markmið um gerð námskrár — en hér hafa verið höfð uppi stór orð um mikilvægi íslenskunnar og við ræddum íslenska málstefnu í fyrri umræðu á dögunum — er skorin niður um 130 millj. kr. sem er mjög stór hluti af þeim pakka. Svo eru það framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þar færist nú enn fjör í leikinn því að þar er nú skorið niður um 1.769 millj. Ég spyr: Hvaða forgangsröðun er þetta? Búið er að ræða mikið í þessum sal — bara á síðustu dögum og vikum — um nauðsyn þess að efla þurfi lánasjóðinn, sérstaklega núna þegar fólk mun streyma í nám í mjög erfiðum aðstæðum á vinnumarkaði.

Rétt er að benda á að grunnframfærsla á mánuði fyrir barnlausan einstakling sem býr í eigin húsnæði er 100.600 kr. og samkvæmt lögum um lánasjóðinn á sjóðurinn að gera lánsmönnum kleift að framfleyta sér. Þeir eiga sem sagt að geta séð fyrir sér með 100.600 kr. Það sér auðvitað hver maður að það er ekki auðvelt fyrir nokkurn að lifa af þeirri fjárhæð einni saman í samfélaginu um þessar mundir. Og auðvitað er löngu kominn tími á að endurskoða framfærslugrunninn sem þessi framfærsla byggist á og höfum við lagt fram tillögu um það. Fyrir henni hefur ekki verið mælt þótt hún hafi reyndar komið fram talsvert áður en þau stjórnarfrumvörp sem tekin hafa verið inn með afbrigðum í „lange baner“ á síðustu dögum. Það er svo merkilegt að þingmannamálin þau sitja eftir þó að þau komi fram á réttum tíma. Það er alveg ótrúleg þróun miðað við þau stóru orð sem höfð hafa verið uppi um að nú eigi nú aldeilis að gera þingið betra og þingmannamál eigi að sjálfsögðu að hafa sama forgang og stjórnarfrumvörp. Maður veltir fyrir sér hvað búi nú að baki þeim orðum. Líklega ekki neitt frekar en að baki þessum fjárlögum.

Þá vil ég minna á að það er auðvitað löngu kominn tími á að endurskoða allt þetta kerfi og breyta því í átt sem tíðkast á Norðurlöndum með mánaðarlegum greiðslum í stað yfirdráttarkerfis sem miðast aðallega við að bankarnir fái vaxtatekjur af námsmönnum og ríkið greiði námsmönnum vaxtastyrk. Námsmannahreyfingarnar eru löngu búnar að benda á þetta og berjast fyrir þessu árum saman. En ég sé hreinlega ekki að það stefni í nokkrar breytingar á lánasjóðnum miðað við þennan niðurskurð og miðað við að frumvarp okkar um þetta efni hefur ekki heldur verið tekið á dagskrá af skrýtnum ástæðum þó að það hafi líka verið lagt fram fyrir þann frest sem settur var á frumvörp sem mæla átti fyrir á þessu þingi. Svona getur nú atburðarásin verið ótrúleg á þinginu.

Ég hefði haldið að það væri hagur ríkisins að fólk færi í nám, fólk sem er án atvinnu, og tækist þannig á við ný og ögrandi viðfangsefni. Þá þarf Lánasjóður íslenskra námsmanna að vera grundvallarstoð. Mín skoðun er sú að það ætti í rauninni að efla lánasjóðinn og gera fleirum kleift að sækja sér nám. T.d. mætti breyta úthlutunarreglum þannig að fólk yfir tvítugu gæti sótt um lán til að ljúka námi í framhaldsskóla. En það er ekki hægt núna heldur er lánshæft nám eingöngu talið vera á háskólastigi.

Ef við meinum eitthvað með því að skólarnir eigi að vera okkar bjargráð í kreppunni verðum við að láta gjörðir fylgja orðum. 4 milljarðar kr. eru skornir niður í menntamálum. Við ætlum að nota 385 milljarða í að endurfjármagna bankana. Við ætlum að borga Icesave-reikninga fyrir allt að 660 milljarða. Við ætlum ekki að fara í mál. Við ætlum ekki að láta reyna á Evróputilskipunina. Við ætlum ekki að reyna að komast að því hvort það sé virkilega hægt að skuldbinda heila þjóð til þess að greiða reikninga þegar allt fjármálakerfið fer á hausinn. Við ætlum ekki að láta á það reyna. Nei, við ætlum að borga þetta. Svo ætlum við að endurfjármagna Seðlabankann fyrir 150 milljarða en við ætlum að skera menntakerfið niður fyrir 4 milljarða.

Ég skil alveg tilganginn. Það á að reyna að lágmarka hallann á ríkissjóði. En við verðum líka að velta fyrir okkur hvort við séum komin svo langt í því að lágmarka hallann á ríkissjóði að afleiðingarnar gætu orðið óafturkræfar fyrir þjóðina.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í ræðu sinni að það væri hægt að skipuleggja sparnaðinn betur og það væri hugsanlega hægt að skera meira niður á kostnaðarliðnum Varnarmálastofnun. En hún kostar eftir sparnað 1,2 milljarða. Hér hefur verið rætt um sendiráð sem kosta 2,3 milljarða. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að leggja niður t.d. sendiráð okkar í Brussel fyrir NATO. Ég sé nú ekki annað en að það væri ágætur sparnaður.

Mönnum hefur orðið nokkuð tíðrætt um aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna í dag en ég sé fyrir mér að það væri nú hægur vandi að skera niður þessa tólf pólitískt ráðnu aðstoðarmenn ráðherra sem ég veit ekki betur en að séu á ágætislaunum, 700 þús. kr. eða eitthvað þar um bil var það einhvern tímann. Það mætti þá jafnvel lækka þá í launum eins og aðra sem verða fyrir launalækkun núna. Auðvitað má víða spara, ég ætla ekki að gera lítið úr því, en það er forgangsröðunin sem skiptir máli og við þurfum að horfa þar til framtíðar. Við þurfum að gæta að undirstöðunum og við erum búin að ræða það oft í þessum sal, stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn, að það sé nú gott að þegar á okkur skellur kreppa höfum við þessar undirstöður og öllum þykir skyndilega mjög vænt um velferðarsamfélagið.

En undirstöðurnar eru ekkert náttúrulögmál sem standa án þess að um þær sé hugsað. Það er mjög erfitt að skuldsetja ríkissjóð, ekki síst fyrir Íslendinga sem ortu Hávamál: „Blóðugt er hjarta þess er biðja skal sér í mál hvert matar.“ Ég er viss um að þannig líður okkur öllum sem horfum á þessa skuldsetningu og lántöku af því að við förum hér bónleið til búðar og biðjum um peninga, ég er viss um að það leggst ekki vel í fólk.

Þótt erfitt sé að skuldsetja ríkissjóð finnst mér líklegt að þessi niðurskurður muni valda meiri skaða en hann gefur til kynna sem tölur á blaði í breytingartillögum við fjárlagafrumvarp. Ef við tálgum utan af undirstöðunum gætum við lent í því að stoðirnar halda ekki lengur og byggingin hrynur öll ofan á okkur. Hér verðum við því að stíga varlega til jarðar.

Ég ítreka þá skoðun mína að þessi fjárlög þurfa frekari vinnu. Ég tel í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem við eigum við að glíma að það ætti að skoða þá leið sem ég nefndi í upphafi, þ.e. að veita ríkisstjórn afmarkaðar fjárheimildir þangað til þing lýkur fjárlagavinnu, sem gæti t.d. orðið um miðjan janúar. Þá væri hægt að leggja meiri vinnu af hálfu þingsins í fjárlögin og hægt að skoða nákvæmlega hvar skera má niður og hvar ekki. Hugsanlega væri hægt að draga úr álögum á sjúklinga eins og hér hefur verið nefnt. Hugsanlega væri hægt að komast hjá einhverjum af þeim niðurskurði sem áætlaður er. Ég nefni sem dæmi að þær 24 millj. sem skornar eru niður við þekkingarsetur á landsbyggðinni. Ég tel að þetta frumvarp krefjist ítarlegri vinnu, að þessar breytingartillögur kalli á ítarlegri breytingartillögur á móti. Það er á ábyrgð þingsins að gefa þessu meiri tíma og beita þá bráðabirgðaákvæðum þangað til hægt verður að ljúka gerð fjárlaga því að þessi fjárlög sem hér eru afgreidd eru alls ekki fullnægjandi plagg. Ég tel þau ekki fullnægjandi plagg og ég tel að þingið þurfi meiri tíma til að fara yfir þau.

Ég vil bara minna á það sem ég sagði áðan um tekjuhliðina sem enn er ekki búið að ræða í nefnd og er mjög óljós. Það er því tillaga mín hér og væri áhugavert að heyra hvort umræðan muni snúast þannig og hvort einhver hv. þingmaður eigi eftir að koma á eftir mér og leggja mat út frá sínum góða smekk á það sem hér hefur verið fært fram.