136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir efnisríka ræðu. Við hv. þingmaður höfum verið kollegar í sveitarstjórnum um langt árabil og mér þykir yfirleitt skemmtilegra að hlusta á þingmenn sem hafa verið í sveitarstjórnarmálum. Það er kannski út af því að ég er svo sjálfhverfur í þessum efnum.

Ég boðaði hér vissulega miklar breytingar og ég fór yfir það í ræðu minni í dag að það breytingaferli hefði tekist um margt með ágætum í störfum fjárlaganefndar. Ég hef verið talsmaður þess að styrkja yfirferð þingsins á lokafjárlögum, taka til umfjöllunar allar stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar, auka samskipti þingsins og undirstofnana þess, að upplýsingarnar kæmu fyrr og mikilvægast væri að fjárlaganefndarsviðið fengi með beinum hætti aðgang að upplýsingakerfum ríkisins til að yfirfara og stemma og rýna fjárveitingar sem til staðar eru, einnig að leggja áherslu á framkvæmd fjárlaga og eftirlit með E-hluta stofnunum og slíku.

Ég get alveg tekið undir það að síðustu vikurnar hefur örlítið fjarað undan þessum vinnubrögðum. Ég hef hins vegar reynt mitt besta í þessu og sagði það í andsvari við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur í dag að þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð eru ekki öðrum til eftirbreytni.

Ég vil líka örlítið víkja að útsvarsmálunum. Við 3. umr. er gert ráð fyrir því að fram komi breyting, að mér skilst, varðandi tekjustofna sveitarfélaga sem heimili þeim að hækka útsvarið um 0,25 prósentustig þannig að tekjuskatturinn fari upp um 1,25, og 0,25 af því fari þá inn í jöfnunarsjóðinn til að bæta fasteignaskatta hvað varðar ríkiseignir (Forseti hringir.) í sveitarfélögunum.