136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör sem hann kemur með, m.a. varðandi útsvarið sem ég hafði sérstaklega gert að umræðuefni. Ég dreg ekki eitt augnablik í efa góðan vilja hv. þm. Gunnars Svavarssonar til þess að bæta vinnubrögð í þinginu og ég dreg heldur ekki í efa að hann hafi lagt sig fram um það í vinnu fjárlaganefndar og þar hafi margt batnað í hennar vinnu. Það breytir ekki því að í stóru máli eins og fjárlagafrumvarpinu sjálfu, þó að við séum hér við óvenjulegar og erfiðar aðstæður, verða menn að reyna að tryggja eins lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð og unnt er.

Það er Alþingi sem hefur með höndum fjárveitingavaldið, fjárheimildavaldið. Þó að ríkisstjórnin vinni fjárlagafrumvarp og komi með sínar tillögur verður hún að gefa þinginu nægilegt ráðrúm til að fjalla um það á sínum eigin forsendum og ekki ætlast æ ofan í æ til þess að mál séu afgreidd hér á einhverjum sérstökum leifturhraða. Þingmenn sem eru í forustu fyrir þingnefndir eins og fjárlaganefndina verða einfaldlega að segja við framkvæmdarvaldið að það verði að gefa nefndinni viðunandi tíma til að fjalla um málin, ekki bara fjárlaganefndinni heldur að þegar svo viðamiklar breytingar koma fram á öllum málasviðum verði að gefa fagnefndunum tækifæri til þess að gera það líka.

Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að við höldum áfram þingstörfum þessa viku og þess vegna næstu eða séum hér í vinnu milli jóla og nýárs eins og gengur og gerist á vinnumarkaði til að fjalla um þessi stóru mál, það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Á sama tíma er verið að demba hér inn alls konar málum (Forseti hringir.) á síðustu mínútum sem maður áttar sig ekki á af hverju verið er að gera með þeim hraða sem raun ber vitni.