136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla örlítið að halda áfram að svara spurningum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Hvað varðar umferðarstofumálin er gríðarlegt fall í sértekjum stofnunarinnar sem þar af leiðandi birtist í tekjuhluta frumvarpsins og kemur á móti í gjaldahliðina. Það þýðir auðvitað þó nokkurn samdrátt hjá stofnuninni á móti. Tekjufallið er gríðarlegt vegna þess að nýskráningum bíla hefur fækkað mjög mikið á milli ára.

Einnig bendi ég þingmanninum á að kynna sér hagrænu skiptinguna á stofnframkvæmdum á bls. 185 í fjárlagafrumvarpinu, þar er hægt að skoða hvernig viðhalds- og stofnframkvæmdirnar koma fram og varpa myndinni yfir á samdráttartillögurnar eins og þær birtast frá ríkisstjórninni.

Ég vil taka undir með báðum þingmönnunum Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni að umræddar samgöngutillögur þurfa að fara til samgöngunefndar og fá þar umræðu.

Að lokum vil ég líka segja það að ég sem formaður fjárlaganefndar vík mér ekkert undan þeirri ábyrgð að bera hér fram umrætt nefndarálit sem felur í sér tillögur ríkisstjórnarinnar. Það var hins vegar ákvörðun fjárlaganefndar að færa til 3. umr. umfjöllun um ýmis önnur stór mál og munu þau þá birtast við 3. umr.

Að sama skapi ætla ég ekki að víkja mér undan því að funda hér alla daga og jafnvel yfir jólin. Minn stærsti galli er að vera vinnualki og þess vegna hefur mér aldrei þótt erfitt að vera einhvers staðar við vinnu þó jafnvel að það séu jól.