136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki ætlun mín sérstaklega að kalla fram einhverjar svona persónulegar játningar hv. þingmanns hér í ræðustól, en gott og vel, hann kaus að upplýsa um það.

Ég þakka fyrir þetta og þakka fyrir það að formaður fjárlaganefndar telur eðlilegt að stórir málaflokkar eins og samgöngumálin fái umfjöllun á vettvangi samgöngunefndar. Ég vek líka máls á því að aðrar reglur gilda um 3. umr. fjárlaga en um 2. umr. Það að vísa stórum nýjum málum til 3. umr. þar sem minna svigrúm er til umfjöllunar og lýðræðislegra skoðanaskipta finnst mér bagalegt nema menn geri þá eitthvert samkomulag, þingflokkarnir, sín í milli um að vegna þessara sérstöku aðstæðna sem hér hafa skapast verði að viðhafa annars konar umræðuform eða lengri umræðutíma við 3. umr. en þingsköpin strangt til tekið gefa til kynna, enda er heimild í þingsköpunum til að víkja frá ákvæðum um ræðutíma ef samkomulag er um það á milli þingflokka.

Ég mælist því til þess að hv. formaður fjárlaganefndar ræði það við forustu þingsins að viðhafa þá, vegna þessara aðstæðna, a.m.k. sömu ákvæði um ræðutíma við 3. umr. fjárlaga og við 2. umr.