136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[21:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek hér til máls þar sem ég hafði fyrirvara um álit hv. félagsmálanefndar til hv. fjárlaganefndar. Fyrirvari minn sneri að safnliðum, ég hef alltaf verið á móti því fyrirbæri og tel að tíminn sem nefndarmönnum gefst til að kanna einstaka liði sé allt of skammur til þess að mynda sér einhverja skoðun auk þess sem Alþingi á sjálft að endurskoða og bera ábyrgð á þeim fjárveitingum sem framkvæmdarvaldið fær. Og hver ber ábyrgð á fjárveitingum sem Alþingi sjálft ákveður?

Þá sakna ég þess í fjárlagafrumvarpinu, frú forseti, að stóra liði vantar. Það er af ýmsum ástæðum. Til dæmis vantar hlutafé í bankana. Það hefur verið sagt að það verði 385 milljarðar, gæti verið minna. Ef erlendir aðilar kæmu inn, þá gæti það orðið minna, en það eru ekkert mjög stórar líkur á því.

Síðan vantar inn Icesave-reikningana. Þar gæti verið krafa á bilinu frá núll og upp í 600 milljarða, kannski líkleg 150 milljarðar. Það vantar líka.

Svo vantar vexti á IMF-lánið. Það er enn þá óljósara. Það er ekki víst að við þurfum að draga á það og þá eru engir vextir, en ef við drögum á það eru það 4% vextir og það bítur líka í, fjögur komma eitthvað. Það er eiginlega eini innlendi vandinn vegna þess að það má segja að ummæli breskra ráðamanna hafi valdið bankahruninu. Icesave-reikningarnir eru gallar í regluverki Evrópusambandsins sem við erum þvinguð til að taka upp með sameiginlegu átaki Evrópusambandsins. Lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má segja að sé til að mæta jöklabréfunum og vandamálum sem þau skapa í gengi krónunnar og þar er óljóst hvaða vexti við þurfum að taka. Það hefur líka valdið því að við settum upp reglur um gjaldeyrisviðskipti.

Að síðustu eru það lánardrottnarnir sem segja að ef við ekki gerum eitthvað gott við þá getum við gleymt því að taka lán næstu 20–30 árin. Ég er ekki alveg svo sannfærður um það en það er líka liður sem er algjörlega óljós.

Þessa sakna ég en ég held að fjárlagafrumvarpið þurfi að finna meðalveg milli þess að skattleggja ekki um of og þess að viðhalda góðu velferðarkerfi. Það er okkar vandi og við þurfum að gæta að því að mesta auðlind þjóðarinnar, mannauðurinn, hverfi ekki úr landi því að allir græða á því að hann haldist í landi, bæði Bretarnir, Hollendingarnir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og lánardrottnarnir.