136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[22:00]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni Pétri H. Blöndal fyrir þessa ræðu. Ég leyfi mér að þakka honum líka fyrir að standa í fæturna í þessu máli. Hann er formaður í efnahags- og skattanefnd þingsins og ég get borið því vitni sem nefndarmaður í þeirri nefnd að hann hefur gert allt sem í hans valdi hefur staðið til að kalla eftir upplýsingum þannig að við höfum forsendur til að byggja á þegar við tökum til við að ræða fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár. Við stöndum frammi fyrir miklum erfiðleikum, Íslendingar. Ég hef tekið eftir því hér við umræðuna að kallað hefur verið eftir því hvað stjórnarandstaðan vildi til bragðs taka, sérstaklega þegar við höfum reitt fram gagnrýni á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum hér á þingi.

Hvað var það sem vildum til bragðs taka og hvað viljum við núna taka til bragðs? Þegar sá mikli vandi varð okkur öllum augljós í byrjun októbermánaðar lögðum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fram þá tillögu við oddvita ríkisstjórnarflokkanna að mynduð yrði þjóðstjórn, að allir stjórnmálaflokkar á þingi kæmu að því sameiginlega að leysa vandann. Við kölluðum eftir breiðu samráði í þjóðfélaginu almennt þar sem að kæmi verkalýðshreyfing, samtök atvinnurekenda, almannasamtök önnur og með því móti yrði mynduð eins konar þjóðarsátt um þær lausnir og þær ráðstafanir sem gripið yrði til. Þessu var hafnað.

Við vildum líka að Íslendingar reyndu að standa í fæturna sameiginlega gagnvart ógnunum að utan. Þá er ég að horfa til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, upphaflega að sjálfsögðu til bresku ríkisstjórnarinnar og síðan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem tók upp hanskann fyrir Breta. Þetta gekk því miður ekki eftir.

Innan stjórnarmeirihlutans voru vissulega þeir aðilar sem vildu sýna staðfestu. Ég nefni þar hv. formann efnahags- og skattanefndar, ég nefni ýmsa í fjárlaganefnd líka, ég ætla ekki að alhæfa um allan stjórnarmeirihlutann í þessu efni, menn skulu njóta sannmælis. Hins vegar tók ég eftir því á hvaða stundu það var sem Samfylkingin brast. Það var þegar hún gerði sér grein fyrir því að Evrópusambandið stæði með Bretum. Þetta er sú reynsla sem ég hef haft á undanförnum árum hér í þinginu að jafnan þegar kemur inn í þingnefndir eða hingað inn í þingsal mál sem byggir á tilskipunum eða ákvörðunum í Brussel frá Evrópusambandinu hættir Samfylkingin að ræða málin. Þetta er bara orðinn hlutur. Við þekkjum það úr nefndum þingsins. Þannig hefur það verið.

Ég hef lýst því yfir að ég sé því fylgjandi að íslenska þjóðin geri út um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún gangi inn í Evrópusambandið eður ei. En ég er sannfærður um það og ég sannfærist æ betur um að því yrði hafnað. Hvers vegna? Vegna þess að Íslendingar láta ekki beygja sig á þann hátt sem Evrópusambandið vill gera. Það er enn til sá þráður, enn það bein í okkur að við kyssum ekki á vöndinn með þessum hætti. Ég spyr: Hvernig stendur á því að íslenska ríkisstjórnin hefur ekki hreyft því á fundum sínum í Stjórnarráðinu að segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu? Hvernig stendur á því að stjórnarflokkarnir, og þá sérstaklega Samfylkingin, tala um það í alvöru að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu á sama tíma og eitt helsta aðildarríki bandalagsins, Bretland, hefur okkur á lista yfir hryðjuverkaþjóðir og beitir okkur þvingunum á þann hátt sem við verðum núna vitni að? Halda menn að Lúðvík Jósepsson hefði tekið ofan hattinn á sínum tíma? Halda menn að Íslendingar hefðu unnið sín landhelgisstríð með þessa hugsun? Ímyndar sér einhver það? Nei. Þá voru vissulega til þær raddir á Íslandi sem sögðu að nú værum við að sigla inn í óvissusjó. Það er alveg rétt en menn stóðu saman og menn stóðu í fæturna. Það er þessa sem ég sakna þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar er annars vegar í þessu máli.

Þegar við hófum þessa umræðu um fjárlagafrumvarpið var gert ráð fyrir því að fjárlagahallinn yrði yfir 200 milljarðar, 215–220 milljarðar. Hvers vegna var það ekki látið standa? Jú, það var vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefur tekið völdin á Íslandi fyrirskipaði niðurskurð um 45 milljarða kr. (Iðnrh.: Ekki í iðnaðarráðuneytinu.) Um 45 milljarða kr. Og við vitum hver forgangsröðunin er í almannatryggingum. Í fyrsta skipti sem reynir á nauðvörn öryrkja og aldraðra sem sett var í lög eftir miðjan 10. áratuginn um að sú vísitala skyldi halda sem væri hærri, neysluvísitala eða launavísitala, (Iðnrh.: 20% …) nemur Samfylkingin hana á brott. (Iðnrh.: 20% …) 25%, fjórðungur þeirra sem hafa viðurværi sitt úr almannatryggingum halda sínu, þrír fjórðu hlutar eru skertir um 10%. (Iðnrh.: Lækkuðum þau aftur.) Þetta er Samfylkingin (Gripið fram í.) sem kallar sig jafnaðarmannaflokk, það er hún sem lætur sig hafa þetta. Það er hugsað svo aumt og svo lágt, að nú sé verið að verja hina lægst launuðu innan almannatrygginga, innan Tryggingastofnunar ríkisins.

Þetta er forgangsröðun jafnaðarmannaflokks Íslands. Og það er önnur forgangsröðun sem birtist okkur á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem boðað er að fólk verði krafið um aðgangseyri fyrir að leggjast sjúkt inn á Landspítalann í Reykjavík og inn á sjúkrahúsin í landinu. Menn ætla að setja á annan milljarð á sjúklinga til að hafa upp í skuldirnar sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eru að skrifa á íslensku þjóðina.

Síðan horfa menn á fjárlagahallann, en ég spyr: Hver er þessi halli í raun? Hver er hann? Þekkjum við hann? Nei, við þekkjum hann ekki. Hv. þingmaður, oddviti okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í fjárlaganefnd, hv. þm. Jón Bjarnason, (Gripið fram í.) og aðrir fulltrúar úr stjórnarandstöðu í fjárlaganefnd beindu spurningum til meiri hlutans, til framkvæmdarvaldsins, um hverjar spár lægju fyrir um komandi missiri og ár. Og vitið þið hver svörin voru? Svörin voru á eina lund: Það er komið undir því hvað Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir, hvað IMF segir. Þetta segir í svörunum og menn geta lesið það í minnihlutaálitinu. Þetta er veruleikinn.

Þeir sem hafa staðið vörð um leyndina og allt þetta rugl koma síðan hingað í pontu, í ræðustól á Alþingi, og spyrja okkur: Já, en hvað er það sem þið viljið gera? Og við segjum: Við viljum fá að þekkja forsendurnar áður en gripið er til þess að rukka sjúklinga um aðgang að Landspítalanum, áður en farið er að skera niður við ellilífeyrisþega og öryrkja í almannatryggingum. Það er það sem við viljum. Þess vegna segi ég, hæstv. forseti: Þessi umræða er marklaus, hún er móðgun við lýðræðið, það er móðgun við Alþingi að bjóða okkur upp á þetta. En það er ekki nóg með að óvissan sé mikil, vegna þess að við þekkjum ekki hvaða skuldbindingar verið er að setja á okkur, það er líka glundroðinn og ruglið í Stjórnarráðinu. Við urðum vitni að því í morgun sem sátum sameiginlegan fund félagsmálanefndar og heilbrigðisnefndar þingsins. Hvað kom þar fram? Jú, um komandi áramót, núna eftir hálfan mánuð, á að taka til starfa stofnun sem heitir Sjúkratryggingastofnun. Hvernig á hún að taka til starfa? Það veit enginn. Það er hins vegar búið að ráða forstjóra, það er byrjað að kljúfa almannatryggingar Tryggingastofnunar ríkisins í herðar niður í teoríu. En það veit enginn hvernig praxísinn á að vera að öðru leyti en einu, bara þessi klofningur á að kosta fjórðunginn úr milljarði, ekki bara einu sinni, heldur á hverju einasta ári á komandi árum. Þeir hinir sömu og eru nú að skerða tryggingabætur fyrir aldraða og öryrkja hlaða upp kostnaði af þessu tagi.

Þeir eru að setja skatt á þjóðina upp á á annan milljarð fyrir nýja stofnun sem heitir Varnarmálastofnun og á að verja okkur fyrir loftárásum einhverra ímyndaðra óvina þegar þær varnir sem við þurfum nú á að halda eru gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, gagnvart Evrópusambandinu og gagnvart vesaldómnum á þessum bekkjum hér, ráðherrabekknum, hjá meiri hlutanum á Alþingi, hjá Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum sem skipa þennan meiri hluta. Og það er alvarlegasta váin, vesaldómurinn, hvernig menn geta aldrei staðið í fæturna. Þeir þora þá einvörðungu að ráðast gegn þeim sem geta ekki varið sig, láglaunafólkinu, þeim sem þiggja bætur og hafa viðurværi sitt úr almannatryggingum. Það er ráðist á þá og nú á að fara að rukka sjúklinga, veikt fólk sem lendir á sjúkrahúsi á Íslandi. Þetta eru ráðstafanir ríkisstjórnarinnar.

Svo koma menn hingað upp og spyrja: Hvað er það sem þið viljið gera? Ég byrjaði á að svara: Við viljum fá að þekkja forsendurnar, við viljum fá að vita hvað þið ætlið að gera í útlöndum, upp á hvaða skuldbindingar þið eruð að fara að skrifa. Gætuð þið upplýst okkur um hvað varð um 200 milljarðana sem fóru í peningamarkaðssjóðina?

Við erum að tala um halla upp á tæpa 200 milljarða. Ég hef margoft spurt eftir þessu hér í þinginu. Hvað varð um peningana? Á hvaða forsendum var þeim ráðstafað? Gætum við rætt það? Viljið þið skýra það nákvæmlega fyrir okkur? Á þing og þjóð ekki rétt á því (Gripið fram í.) áður en farið er að skera niður við fátækt fólk á Íslandi og níðast á sjúku fólki? Komið hingað upp og skýrið okkur frá því hvað þið hafið gert við peningana. (Iðnrh.: Rætt utan dagskrár í síðustu viku.) Rætt utan dagskrár í síðustu viku? (Gripið fram í.) Það er þetta sem við viljum ræða. Þetta er ástæðan fyrir því að við teljum þessa umræðu marklausa. Þetta er bara rugl.

Við upplifðum þetta einnig í haust. Þegar frumvarpið kom upphaflega fram var sýnt hvert stefndi. Hvað gerði hæstv. fjármálaráðherra Íslands, hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen? Hann flutti hér ræðu sem sennilega hefur verið skrifuð í apríl, kannski var eitthvað liðið á sumar. Hann sagði að það væri svo gleðilegt og gaman að tala fyrir þessu frumvarpi því að það stefndi í svo mikið góðæri á Íslandi. Hér var allt í himnalagi. Við, í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, lögðum til — því miður voru ekki aðrir stjórnarandstöðuflokkar sammála okkur um það — að umræðunni yrði skotið á frest, þetta væri bara rugl og vitleysa. Andæfir því einhver núna? Nei, enginn. (Gripið fram í.) En er þetta ekki sama ruglið, hv. formaður fjárlaganefndar? Ég leyfi mér að spyrja. Í þeim gögnum sem liggja fyrir kemur fram að óvissan er svo gígantísk að við vitum ekkert hverjar tekjur ríkisins á komandi ári verða og það sem meira er, við höfum ekki hugmynd um hvaða skuldbindingum verið er að hlaða á íslenska skattgreiðendur, ekki bara á komandi ári, heldur komandi árum. Ekki bara á þessa kynslóð, heldur næstu kynslóðir einnig. Þetta eru staðreyndir málsins og þess vegna höfum við spurt hér við umræðuna og kallað eftir því hvort ekki væri ráð að við gripum til lágmarksráðstafana, fengjum lágmarksheimildir til að fleyta okkur fram á næsta ár, þegar við hefðum traustari forsendur til að byggja á og reyndum þá að gera eitthvað af viti og þá hugsanlega saman. Helst saman, það er ekkert sem við vildum fremur. Halda menn að við höfum ekki áhyggjur af því sem er að gerast innan velferðarþjónustunnar? Haldið þið að við höfum ekki áhyggjur af því þegar hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, sendir bréf til allra velferðarstofnana á Íslandi þar sem hann hvetur þær til að skera niður um 10%? Hæstv. heilbrigðisráðherra neitaði hér á þingi að þetta hefði verið gert, en við erum með gögn sem sýna að hann þakkaði stofnunum sem gripu til slíkra ráðstafana eða sýndu með hvaða hætti þær ætluðu að skera niður. Við erum með gögn sem sýna þetta svart á hvítu þó að því hafi verið neitað hér í sölum Alþingis. Þetta eru staðreyndir málsins.

Við höfum lýst því yfir á undanförnum mánuðum og missirum að í mikið óefni stefndi hjá heilbrigðisstofnunum landsins og þær hefðu búið við fjársvelti á undanförnum árum. Ríkisendurskoðun hrósar Landspítalanum fyrir framleiðniaukningu, þ.e. að vinna hvert verk fyrir minni peninga, og þegar forsvarsmenn sjúkrahússins, áður en þeir voru reknir — það eru allir reknir núna sem leyfa sér að andæfa — sögðu: Við getum ekki gengið lengra, komumst ekki lengra, voru þeir látnir fara. En ef skera á áfram að niður, hvert stefnir þá? Jú, það stefnir í þetta. Fólk á Íslandi hættir ekki að verða veikt og þurfa að leggjast inn á sjúkrahús og leita aðhlynningar eða læknismeðhöndlunar. Það verður greitt fyrir meðhöndlunina, það verður gert. Spurningin er: Hver á að borga, sá heilbrigði eða sá veiki? Ríkisstjórnin er að komast að niðurstöðu um það að í auknum mæli eigi það að vera hinn sjúki. Það er það sem á að gera. Reikningurinn verður eftir sem áður greiddur, það á að borga reikninginn. Ég spyr: Er þetta það sem Íslendingar vilja? Nei, Íslendingar hafa komist að þeirri niðurstöðu að við eigum að greiða fyrir heilbrigðisþjónustuna meðan við erum vinnufær og aflögufær en ekki bíða eftir að verða veik og vera þá rukkuð. Það er aðferðafræði Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands, sem hefur bakkað Sjálfstæðisflokkinn upp og sent inn í heilbrigðisráðuneytið einkavæðingarsinna úr röðum íhaldsins til að byrja að rusla þar til. Við sjáum núna árangurinn, ekki bara í vafasamri stefnu heldur í ótrúlega slælegum vinnubrögðum sem m.a. birtust í þessari uppákomu í morgun, á sameiginlegum fundi heilbrigðisnefndar og félagsmálanefndar þingsins.

Þar saka ég ekki hæstv. félagsmálaráðherra eða félagsmálaráðuneytið, heldur fyrst og fremst yfirganginn í hæstv. heilbrigðisráðherra og því ráðuneyti sem er að leiða til stóraukins kostnaðar fyrir íslenska skattgreiðendur og stóraukins óhagræðis. (Iðnrh.: Kvartmilljarður á ári.) Kvartmilljarður á ári bara í stjórnunarkostnaðinn, á ári, á hverju einasta ári. Gera menn sér grein fyrir þessu? Ég bara spyr.

Það eru ekki bara heilbrigðisstofnanirnar sem koma til með að blæða, í dag birtist frétt frá Fangelsismálastofnun og ég tek hana sem dæmi. Ég er ekki byrjaður á að tala um menntakerfið, það er reyndar þegar búið að tala um það og ég horfi hér á hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem á eflaust eftir að segja nokkur orð um menntakerfið. Ég er að tala um Fangelsismálastofnun og hvað fangelsismálastjóri Páll Winkel segir í fjölmiðlum í dag. Hann bendir á að sú fjárveiting sem yfirfullum fangelsum er ætluð samkvæmt þessu frumvarpi muni hafa í för með sér stórfelldan niðurskurð. Hvað þýðir það? Það þýðir að fólk sem á að sitja innan múra fangelsa kemur ekki til með að sitja þar. Það er bara staðreynd. Viljum við það?

Viljum við að veikt fólk fái ekki aðhlynningu, komist ekki inn á sjúkrahúsin nema gegn rukkun? Er það virkilega þetta sem við viljum?

Nú skal ég byrja að svara þegar spurt er: Hvað er það sem þið viljið?

Jú, í fyrsta lagi viljum við fá skýrar forsendur fyrir fjárlögin, í öðru lagi segi ég að við eigum að horfast í augu við mikinn halla á fjárlögum. Við eigum að beina fjármagni lífeyrissjóðanna á komandi missirum og árum í að styrkja innviði samfélagsins og horfa nú heildstætt á þjóðfélagið. Gerum það sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur beðið um á undanförnum árum þegar menn hafa gortað af því hér í þingsölum hve lítið ríkissjóður skuldi. Þá höfum við sagt: Horfum heildstætt á þjóðfélagið. Þegar allt kemur til alls þurfum við sameiginlega, sem samfélag, sem þjóð, að taka áföllunum. Það er það sem er að gerast núna. Þess vegna eigum við ekki bara að horfa á fjárlagahallann og alls ekki að láta nota mikinn fjárlagahalla sem afsökun fyrir niðurskurði á velferðarþjónustunni og veikingu á innviðum samfélagsins. Horfum á alla skuldastöðuna, horfum á Icesave-skuldirnar, horfum á IMF-skuldirnar, horfum á allan pakkann, vegna þess að hann kemur til með að verða fjárlagahalli komandi ára.

Menn hafa mikið velt því fyrir sér innan lífeyrissjóðanna og ég hef oft spurt þeirrar spurningar sjálfur hvort hægt væri að geyma peninga. Er hægt að geyma peninga? Ég held að það sé röng hugsun að telja sér trú um að maður geti sett pening í sparigrís uppi í hillu og tekið hann niður eftir 20 ár og notað hann þá. Það er ekki hægt vegna þess að hann er geymdur í efnahagskerfinu. Peningurinn er geymdur í efnahagskerfinu. Hin raunverulega verðtrygging Íslands syndir í sjónum í kringum okkur, það er verðtrygging íslensku þjóðarinnar og ef okkur vegnar illa efnahagslega munum við aldrei geta notið ávaxtanna af því sem við leggjum fyrir, aldrei.

Þetta gildir líka á heimsvísu og nú höfum við orðið vitni að því að peningunum sem settir voru í sparigrísinn var stolið, þeir voru teknir. Hvernig getum við þá geymt peninga? Ég segi: Vel notaðir peningar eru vel geymdir. Peningar sem eru notaðir til að styrkja samfélagið og innviði þess, eru vel geymdir. Þess vegna skulum við núna beina fjármagni lífeyrissjóðanna í stórauknum mæli til sveitarfélaga, þeim til aðstoðar og uppbyggingar, til ríkisins, því til aðstoðar og uppbyggingar, til að efla okkur sem samfélag, efla menntakerfið og heilbrigðiskerfið, búa betur að öldruðum, betur að ungu fólki sem er að afla húsnæðis — þá gerum við þjóðfélagið sterkt. Þá verður það líka aflögufært þegar fram líða stundir. Þannig eigum við að hugsa, ekki sem taparar. Lítum svo á að við séum að hefja nýja sókn. Það var fátæk þjóð sem byggði upp öflugt, kröftugt velferðarþjóðfélag á 20. öld. Það var ekki gert af neinum allsnægtum. Það var gert upp úr örbirgðinni.

Þannig eigum við að hugsa, hvernig við getum samnýtt krafta okkar til að byggja upp en það gerum við ekki með þeirri aðferðafræði sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem byggir á bölsýni og því að níðast mest á þeim sem minnst hafa. (Gripið fram í: Mest?) Ég spyr: Hvernig stendur á því að Samfylkingin skrifar upp á það hjá Sjálfstæðisflokknum að settur verði 1% flatur tekjuskattur á alla þjóðina í stað þess að byrja á því að setja á hátekjuskatt sem Samfylkingin hefur oft talað fyrir? Hún hefur gert það, hún hefur talað fyrir þrepaskiptum skatti en núna leggst hún flöt undir íhaldið.

Hvers vegna ekki að hækka fjármagnstekjuskattinn? Hvers vegna ekki að þyngja skattinn á þeim sem eru aflögufærir og létta hann á hinum? Gera menn sér grein fyrir því að tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa gengið út á að hækka fjármagnstekjuskatt en jafnframt koma á skattleysismörkum upp á, að því er mig minnir, 120 þús. kr. hefðu það í för með sér að á milli 80 og 90% þeirra sem nú borga fjármagnstekjuskatt mundu ekki borga neitt? Það eru hinir aflögufæru sem mundu borga meira. Þetta er okkar pólitík, þetta er það sem við viljum gera. Við viljum jafna kjörin í landinu og það er þetta sem fólk er að segja á útifundunum, fólkið sem fyllir Austurvöll viku eftir viku og kemur saman í Háskólabíói, þ.e. við viljum réttlæti. Nú viljum við réttlát skipti. Við viljum lýðræði og við viljum gagnsæi. Við viljum pukrið burt og þess vegna segi ég: Það er ekki sæmandi fyrir ríkisstjórnina eða ríkisstjórnarflokkana að bera fram fjárlagafrumvarp sem byggir á pukri. Það er allt undir huliðshjúp. Það er verið að tína í okkur smám saman hverjar hafa verið skipanir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fyrst var okkur sagt að hann hefði ekki sett nein skilyrði. Hvað gerist svo? Ekki voru liðnir margir klukkutímar frá því að skýrt var frá því að stýrivextir hefðu verið hækkaðir um 50%. Hvers vegna? Að skipan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvers vegna er farið niður með fjárlagahallann um 45 milljarða? Að skipan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvers vegna er ekki hægt að fá upplýsingar um tekjuáætlun fram í tímann? Jú, þeir hafa ekki heyrt það frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta segir hér í gögnunum, við erum með þau fyrir framan okkur.

Við höfum afsalað okkur fullveldinu. Það er það sem hefur gerst. Við höfum afsalað okkur fullveldinu að hluta til í allt of ríkum mæli, tel ég, og það finnst mér áhyggjuefni.

Ég veit ekki hvaða dæmi önnur ég á að taka úr þessu fjárlagafrumvarpi til að sýna fram á það sem við teljum ranga forgangsröðun. Það er hægt að telja þau mörg og benda á aðferðafræðina líka, hina flötu niðurskurðaraðferðafræði sem að vísu kom ekki frá fjárlaganefnd þingsins, heldur fyrst og fremst úr fjármálaráðuneytinu, sennilega án vitundar fjárlaganefndar. Það væri gaman að fá það upplýst hér á eftir frá formanni nefndarinnar hvort það hefði verið í samráði við hann sem formann fjárlaganefndar að hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen sendi út tilskipun um miðjan nóvembermánuð þar sem hann óskaði eftir því að allar stofnanir í landinu, allar velferðarstofnanirnar, hæfust handa við að skera niður um 10%. Ég hef nú skoðað gögnin um hvernig þær forgangsraða og því miður er það í allt of ríkum mæli án þess einu sinni að ræða við starfsfólkið. Það gerist víða í heilbrigðisstofnunum, niðurskurður í launum og kjörum er boðaður og fólk fært niður í starfshlutfalli án þess að boðað sé til fundar með stéttarfélögunum og heyrt hvaða sjónarmið þau kunna að hafa. Það er nefnilega þannig á Íslandi að allir gera sér grein fyrir því að nú þurfum við sameiginlega að taka á. Allir gera sér grein fyrir þessu. Það er mjög ríkur vilji fyrir því í þjóðfélaginu (Iðnrh.: Og á þá ekki að draga saman í ríkisrekstrinum?) að gera það. Ekki að draga saman í ríkisrekstri? Jú, sums staðar, t.d. að leggja niður Varnarmálastofnun. Hún á að kosta 1,2 milljarða kr. Það á að draga verulega úr fyrirhuguðum umsvifum Sjúkratryggingastofnunar, ég vil fá að átta mig á því áður en ég geng lengra hvað það hefði í för með sér að leggja stofnunina af, en draga verulega úr umsvifum hennar þegar nú hefur verið upplýst að það kostar fjórðung úr milljarði á ári að framfylgja kerfisbreytingunum sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur flumbrast til að koma í gegnum þingið.

Þá segi ég: Nú er sönnunarbyrðin á ykkur, kæru stjórnarmeirihlutamenn í þinginu. Sönnunarbyrðin er ykkar að sýna okkur fram á að þetta sé nauðsynlegt, að þetta sé réttlætanlegt og að þið komið til með að spara skattborgurum peninga, að sannfæra okkur um að aukið hagræði verði af þessum breytingum. Hvernig ætlar stjórnarmeirihlutinn að réttlæta fjórðung úr milljarði á ári með þessum kerfisbreytingum sem forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins sagði reyndar í dag að væri vanmetið, þetta væri miklu meira. Þetta væru miklu meiri fjármunir. Ég skal svara hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann spyr hvort ekki eigi að draga saman í ríkisrekstrinum: Sums staðar. Sums staðar á að þenja út, sums staðar á að auka útgjöldin, gagnvart fötluðum, öldruðum og sjúkum, inni í menntakerfinu, í Fangelsismálastofnun — (Iðnrh.: … allt …?) já, þá er ég kominn með allt. Þar horfir hæstv. iðnaðarráðherra á fjárlagahallann einan, en hann gleymir einu. Hann gleymir vinum okkar hjá Evrópusambandinu, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem eru með margfaldan hallann á fjárlögum ríkisins, að koma honum upp á axlir skattborgara samtímans og næstu ára. Það er sú staðreynd sem við erum að reyna að benda ykkur á og vörum við. Það er stöku þingmaður í stjórnarmeirihlutanum sem kemur auga á þetta og hefur burði til að standa hér upp og segja það. Ég hef nefnt einn, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hélt ræðu á undan mér og talaði um þessar skuldbindingar. Hann benti t.d. á, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, að ekki væri vitað hver vaxtabyrðin yrði af IMF-lánunum. Hver er hún? Getur hann svarað mér því? Getur verið að hún verði eftir tvö ár orðin tvö til þrjú háskólasjúkrahús á ári? Getur það verið? (Gripið fram í: Hugsanlega.) Hugsanlega? Þetta er stærðargráðan og hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans verða að átta sig á því þegar þeir spyrja hvað það sé sem við ætlum að gera að þeir verða að geta svarað okkur. Hverjar eru þær skuldbindingar sem stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin eru að setja á herðar okkar? Sönnunarbyrðin hvílir ekki á okkar herðum, heldur ykkar. Þið eruð með frumvarp hér, þinggögn þar sem þið svarið engum slíkum spurningum. Þið skjótið út í loftið á alla lund og leyfið ykkur síðan að beina þessum fráleitu spurningum til okkar. Fráleitu. Sönnunarbyrðin hvílir hjá ykkur.

Hvernig ætlar hv. þm. Kristján Júlíusson að réttlæta fjórðung úr milljarði fyrir að kljúfa Tryggingastofnun ríkisins í herðar niður og búa til stofnun sem búið er að ráða forstjóra í, að sönnu, en enginn veit síðan um framhaldið? Hvernig ætlar hann að réttlæta þetta? Vill hann gjöra svo að koma hér í pontu á eftir? Ég auglýsi eftir honum í andsvari til að skýra fyrir okkur hvernig hann réttlætir þessi útgjöld fyrir íslenska skattgreiðendur.

Hvernig réttlæta þingmenn Samfylkingarinnar það að sjúklingar sem leggjast inn á Landspítalann verði rukkaðir fyrir að fá þar aðhlynningu? Vilja hv. þingmenn Samfylkingarinnar gjöra svo vel að koma hingað upp (Iðnrh.: Já, ég skal gera það.) og skýra fyrir okkur hvers vegna á að gera þetta? Já. (Gripið fram í.) Vill hæstv. iðnaðarráðherra þá líka skýra fyrir okkur hvers vegna í fyrsta skipti sem reynir á nauðvörn aldraðra og öryrkja í almannatryggingakerfinu — (Iðnrh.: Þá heldur hún.) Að einum fjórða til, fjórðungurinn. (Gripið fram í.) Þrír fjórðu þeirra sem fá viðurværi sitt úr almannatryggingum munu sæta skerðingu. Samfylkingin leggur þetta til, sami flokkur og segir að nú eigi að fara að borga fyrir að leggjast inn á spítala.

Þetta eru fjárlögin í hnotskurn, og sönnunarbyrðin hvílir ekki hjá okkur. Hún hvílir hjá stjórnarmeirihlutanum, hún hvílir hjá Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni.