136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:53]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var mjög athyglisvert að hlusta á hv. þm. Illuga Gunnarsson ræða um vinnubrögðin og aðferðafræðina við fjárlagagerðina. Ég minnist ræðu sem hv. þingmaður flutti fyrir um ári um vinnubrögð við fjárlagagerðina og lýðræðislega aðkomu þingsins og lýðræðislega og þingræðislega ábyrgð Alþingis og fjárlaganefndar. Í fyrra talaði hv. þm. Illugi Gunnarsson um að stórbæta þyrfti og taka sig verulega á í vinnubrögðum við fjárlagagerðina, ekki síst út frá þingræðislegu og lýðræðislegu sjónarmiði, það væri svo að Alþingi bæri ábyrgð á fjárlagavinnunni og fjárlagafrumvarpinu og þegar ráðherra hefði mælt fyrir því og skilað því inn í þingið væri það í rauninni þingið sem bæri ábyrgð á því og vinnu þess.

Nú hefur raunin orðið öll önnur. Ef eitthvað er hægt að segja um lýðræðislega og þingræðislega aðkomu að fjárlagagerðinni hefur hún aldrei verið verri en í haust. Aldrei, ekki síðan ég man eftir og er ég þó búinn að vera þingmaður í allnokkur ár. Meira að segja meiri hluti fjárlaganefndar lýsti því við 2. umr. að þetta væru tillögur ríkisstjórnarinnar en ekki fjárlaganefndar, þó svo að sagt væri eftir á að auðvitað yrðum við að gera þær að okkar.

Ég spyr hv. þm. Illuga Gunnarsson hvers vegna honum hafi orðið svo lítið ágengt (Forseti hringir.) miðað við áform sín frá því í fyrrahaust og einnig hvort honum finnist vinnubrögðin eins og þau hafa gengið fyrir sig í haust við (Forseti hringir.) fjárlagagerðina ásættanleg.