136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[01:16]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessarar umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar, 2. umr. um fjárlög. Það hefur komið æ betur í ljós eftir því sem liðið hefur á umræðuna hversu mörg atriði skortir varðandi grundvöll þeirra talna sem hér eru lagðar fram. Það undirstrikar að þetta frumvarp eins og það liggur fyrir nú er raunar bara vinnuplagg en ekki fullbúið frumvarp til fjárlaga eins og það ætti að vera við 2. umr.

Ljóst er að einkenni þessa frumvarps eru fálmkennd viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þeirri erfiðu stöðu sem komin er upp í efnahags- og fjármálalífi þjóðarinnar og er afleiðing nýfrjálshyggju og einkavæðingarstefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sl. 17 ár. Þetta er dapur og sorglegur minnisvarði um þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fylgt og keyrt fram í samfelldri stjórnartíð sinni.

Nú leggjast á almenning í landinu hundruð milljarða kr. skuldbindingar sem hann á enga sök á. Þá bregst þessi ríkisstjórn við með því að keyra fram niðurskurð í velferðarkerfinu, gríðarlegan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Þannig á að mæta þeim greiðsluvanda og skuldum sem ríkissjóður stendur frammi fyrir.

Það hefur líka komið greinilega fram í umræðunni að einmitt þau viðbrögð sem ríkisstjórnin sýnir eru hvað hættulegust. Einmitt við þessar aðstæður á og ber að standa vörð um velferðarþjónustuna, um menntunina og heilbrigðismálin, og einnig að hvetja og styðja atvinnulífið í landinu, grunnatvinnuvegina jafnt sem sprota- og nýsköpunartækifæri. Nú ríður á að við gerum allt sem við getum til þess að treysta innviði samfélagsins, sköpum grunn fyrir öflugt atvinnulíf og aukum atvinnu- og útflutningstekjur.

Það skortir öll markmið í þessar tillögur ríkisstjórnarinnar. Ég hefði viljað sjá markmið sem fælu í sér t.d. að menn settu sér mark til að vinna að varðandi hámarksatvinnuleysi í þeirri erfiðu stöðu sem við erum nú. Að ríkisstjórnin setti sér að stöðva eða koma í veg að fyrir atvinnuleysi færi upp yfir ákveðin mörk. Ég vildi líka sjá að sett væru mörk um hvar og á hvaða stigi ríkisstjórnin ætlaði að verja fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Á að láta það ganga glórulaust yfir að fjöldi fólks missi húsnæði sitt? Engin mörk, ekkert markmið og engin sýn er sett fram í þessum efnum, bara beitt niðurskurði og aftur niðurskurði.

Ég vildi að menn settu sér raunveruleg mörk þar sem tilgreind eru raunveruleg skilyrði og möguleikar fyrir fólk til þess að skrá sig í nám, háskóla, framhaldsskóla og tækninám. Hverju mætir fólk? Innritunargjöldin í háskólana, bara til að skrá sig, eru 45 þús. kr. að ég held. Fólk sem missir atvinnuna, fólk sem er á lágmarkskjörum eða fólk sem verið er að skerða vinnuhlutfall hjá — ef það ætlar að skrá sig í skóla verður það að byrja á því að greiða 45 þús. kr. í skrásetningargjöld. Það er ekkert víst að fólk hafi efni á því, hvað þá að takast á við kostnað við námið í heild.

Félagsmálastjóri í byggðarlagi úti á landi hafði samband við mig og sagði að það væri þyngra en tárum tæki að taka á móti fólki og hlusta á það lýsa erfiðri stöðu sinni. Það væri tekjusamdráttur og sem dæmi mætti taka hjón með þrjú börn sem hefðu verið í framhaldsskóla. Það er ekki framhaldsskóli á viðkomandi landsvæði svo hjónin urðu að senda þau burt, eitt barnið var í framhaldsskóla á Akureyri og tvö í Reykjavík. Þau sögðu að kostnaðurinn við þetta skipti milljónum króna. Börnin hefðu verið dugleg að vinna fyrir sér til að létta undir með náminu en nú sæju þau ekki fram á að geta það því þeim hefði verið sagt upp starfinu og hefðu í rauninni enga tekjumöguleika. Þau ættu engan annan kost en að hætta í námi og flytja aftur heim.

Því miður er þetta raun sem fólk víða um land stendur frammi fyrir. Fólk sem hefur t.d. þurft að senda börn sín í skóla fjarri heimilum sínum og borið af því mikinn kostnað horfir núna fram á að geta ekki leyft þeim eða stutt þau til að njóta menntunar eins og þó hugur og væntingar standa til. Svo talar ríkisstjórnin um að það þurfi sjálfsagt að efla menntun og taka á móti fleira fólki inn í skólana en á móti eru skorin niður framlög. Ég nefni þetta sem dæmi um hvernig fólk við misjafnar aðstæður stendur frammi fyrir miklum vanda.

Ég vil líka nefna að nefndir voru starfandi, Norðvesturnefnd, Vestfjarðanefnd og Norðausturnefnd, til að taka á vanda þeirra byggða sem hefðu búið við mikla skerðingu á undanförnum missirum, samdrátt í atvinnulífi og neikvæðan hagvöxt. Gerð var sérstök áætlun fyrir þessi byggðarlög til að bæta þeim þetta upp. Nú sé ég að tillögur svokallaðrar Norðvesturnefndar, þ.e. fyrir Skagafjörð og Húnavatnssýslur þar sem staðan hafði verið hvað erfiðust — hlutar af þessum tillögum eru skornir niður. Það eru skornar niður 17 millj. kr., að mig minnir, sem áttu að fara í störf og verkefni tengd safna- og menningarstarfi í Húnavatnssýslu. Á Blönduósi og í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum.

Það kann að virðast létt og auðvelt verk fyrir fjárlaganefnd og ríkisstjórnina að skera niður þessar tölur en þetta voru þó aðgerðir sem byggðarlög og fólk í erfiðri stöðu hafði litið á sem stuðning og styrk í atvinnu- og menningarlífi og aðstoð við að vinna nokkuð upp það tap og tjón sem þessi byggðarlög tóku á sig í þenslu undanfarinna ára. Það er því ekki aðeins í góðærinu, í þenslunni, sem þessi byggðarlög og mörg verkefni taka á sig skerðingu og neikvæðan hagvöxt heldur eru þau líka fyrst látin til að taka á móti skerðingunni þegar kreppir að. (Gripið fram í: … með lögum.)

Þetta þarf að laga með lögum já, með fjárlögum sem við erum nú með til meðhöndlunar. Það eru þau sem ráða hvert tekjustreymið verður út um landið í hin ýmsu verkefni.

Hér hefur verið bent á og ítrekað mjög að greiðsluáætlun ríkissjóðs til næstu ára liggur ekki fyrir. Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs til næstu ára liggur ekki fyrir, fremur en afborgun eða vextir af hugsanlegum lánum og lántökum ríkissjóðs til næstu ára. Enn liggur heldur ekki fyrir raunveruleg skuldastaða ríkissjóðs. Grunnforsendur þess að hægt sé að afgreiða fjárlög liggja ekki fyrir.

Þess vegna er það mat okkar sem skipum minni hluta fjárlaganefndar að þessi fjárlög séu ekki hæf til afgreiðslu þingsins í þeim búningi sem þau birtast nú. Þess vegna höfum við lagt til að komi ekki fram nauðsynlegar upplýsingar, nauðsynlegar grunnforsendur sem hér hafa verið tilgreindar, beri að fresta afgreiðslu fjárlaga.

Það eru ekki forsvaranleg vinnubrögð að vera hér ef á að vinna og afgreiða fjárlög sem byggja á því einu að skera niður þjónustu, skera niður velferðarkerfið. Ekkert er vitað um framtíðina, skuldir eða marga veigamikla gjaldaþætti sem hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs. Tekjuáætlun liggur heldur ekki fyrir.

Ég vil því ljúka orðum mínum um þetta frumvarp, herra forseti, á að ítreka að þetta er vinnuplagg af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það hefur ekki fengið neina meðferð í fjárlaganefnd. Allar grunnforsendur þessara fjárlaga við 2. umr. vantar og ég legg áherslu á að náist ekki betri vinna og fáist ekki gleggri upplýsingar um grundvöll fyrir fjárlög næsta árs verði fjárlagagerðinni frestað þangað til hægt verður að vinna hana betur. Þá verði afgreidd bráðabirgðagreiðsluáætlun sem ríkissjóður getur stuðst við í byrjun janúar. Þetta eru óforsvaranleg vinnubrögð eins og þau liggja fyrir í þessu fjárlagafrumvarpi.