136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[01:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég gerði fyrr í kvöld grein fyrir sjónarmiðum mínum varðandi fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og ég get stytt mál mitt með því að vísa í ræður oddvita okkar við fjárlagaumræðuna, hv. þm. Jón Bjarnason, sem gert hefur ágætlega grein fyrir okkar meginviðhorfum.

Við höfum lýst því hvers vegna við teljum fjárlagagerðina fyrir komandi ár ekki standast grundvallarkröfur sem við hljótum að gera til Alþingis. Við höfum reynt að setja fjárlagafrumvarpið inn í annað samhengi en stjórnarliðar hafa gert við þessa umræðu. Þeir byrjuðu framan af umræðunni á því að reisa kröfur á hendur okkur, spyrja hvað það væri sem við vildum gera og hvernig við vildum standa að málum. Við höfum gert grein fyrir því. Við hefðum viljað í upphafi fjármálakreppunnar mynda þjóðstjórn, þar sem allir aðilar kæmu að máli, og stuðla að breiðri samstöðu í þjóðfélaginu. Síðan stæðum við sameiginlega að því að standast ásókn Breta og síðar Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að setja á okkur óheyrilegar skuldaskrúfur sem verða þess valdandi að á næsta ári má reikna með því að vaxtagjöld Íslendinga vegna skuldbindinga sem nú er verið að hlaða á þjóðina munu fara yfir 100 milljarða kr. Þetta eru hin raunverulegu stærðarhlutföll sem ber að hafa í huga í stað þess að einblína einvörðungu á hallann á ríkissjóði. Mönnum vaxa í augum rúmir 200 milljarðar sem verið er að reyna að koma niður í hvað, 175 milljarða eða þar um bil að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en horfa þá fram hjá þessum geigvænlegu upphæðum.

Upphaflega var gert ráð fyrir því að háskólasjúkrahús í Reykjavík mundi kosta 20–30 milljarða. Ég held að sú upphæð sé komin talsvert ofar, 40–50 milljarðar hygg ég. En hér erum við að tala um rúmlega tvö háskólasjúkrahús á ári í vaxtagjöld. Það kann að vera að ég vanreikni þessar upphæðir, áætlaðan kostnað við háskólasjúkrahús, en alla vega erum við að tala um a.m.k. eitt hátæknisjúkrahús á ári í vaxtagreiðslur.

Þetta er samhengi hlutanna sem við þurfum að horfast í augu við. Síðan er hitt að allar forsendur fjárlagafrumvarpsins eru harla ótraustar og óvissar. Af þeim sökum höfum við lagt til, í stjórnarandstöðunni, að við gerðum eins konar bráðabirgðafjárlög núna með lágmarksheimildum til fjárútláta úr ríkissjóði en legðumst síðan að nýju yfir málið á fyrri hluta komandi árs — augljóst er að við verðum að gera það en að við horfumst í augu við þá staðreynd núna. Af þessum sökum er harla vonlaust að gera breytingartillögur á frumvarpi sem er eins froðukennt og þetta. Við vitum einfaldlega ekki hvað bíður okkar á komandi mánuðum. Við vitum ekki hvaða skuldbindingum ríkisstjórnin er að hlaða á okkur.

Þessi reynsla á eftir að verða okkur eftirminnileg fyrir margra hluta sakir. Ég rifjaði það upp hér við umræðuna að á sama tíma og bresk stjórnvöld láta setja Ísland á lista yfir hryðjuverkalönd, hryðjuverkasamtök — al Kaída, Norður Kórea og Íran munu vera á þeim lista — á sama tíma og Evrópusambandið tekur undir kröfur Breta og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að sama skapi, þá gerist það að sérstaklega annar stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, tekur að biðla ákafar til Evrópusambandsaðildar en nokkru sinni fyrr. Þetta kalla ég að kyssa á vöndinn.

Ég er sannfærður um það — og talar hér maður sem er því fylgjandi að Evrópusambandsaðild verði útkljáð í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu, ég sannfærður um að slíkri aðild yrði hafnað nú. Íslendingar vilja ekki láta fara með sig á þennan hátt.

Ég rifjaði það upp í fyrri ræðu minni í kvöld að ef við hefðum búið við stjórnvöld eins lin og þau sem nú verma ráðherrastólana hér þá hefðum við aldrei unnið eitt einasta þorskastríð. Það er alveg víst, það er deginum ljósara.

Hvað við vildum gera og hvað við viljum gera, vegna þess að það kemur dagur eftir þennan dag og við eigum eftir að taka þessi fjárlög upp að nýju. Það þarf að endurskoða skattkerfið og horfa þar á kjarajöfnun, þ.e. að setja hér á hátekjuskatt. Það þarf að hækka fjármagnstekjuskattinn. Við minnum á að útfærsla okkar á fjármagnstekjuskattinum, hærri skattinum, yrði þess valdandi að 80–90% þeirra sem núna borga fjármagnstekjuskatt, smásparendurnir, yrðu undanþegnir slíkum skatti. Þetta er í hnotskurn lýsingin á okkar skattstefnu, að færa skattbyrðina yfir á herðar hinna aflögufæru en létta henni af hinum sem hafa minni burði í þeim efnum.

Hæstv. forseti. Við vörum mjög alvarlega við því að þær þrengingar sem nú steðja að Íslendingum verði notaðar til að veikja undirstöður íslenska velferðarkerfisins. Því miður eru teikn á lofti um hið gagnstæða. Farið er að boða aukin gjöld í heilbrigðisþjónustunni. Það er talað um að selja aðgang að rúmum á Landspítalanum og öðrum sjúkrahúsum í landinu. Verið er að skerða bætur úr almannatryggingakerfinu. Einvörðungu fjórðungur þeirra sem hafa framfæri sitt frá Tryggingastofnun ríkisins fá óskertar bætur, þrír fjórðu verða fyrir umtalsverðri skerðingu, 10% skerðingu. Og við vekjum athygli á því að nú þegar reynir á varnir fyrir tryggingakerfið í fyrsta skipti frá því lögum var breytt á síðari hluta tíunda áratugarins þar sem sú vísitala ætti halda sem væri hærri, neysluvísitala eða launavísitala, í fyrsta skipti sem reynir á þessar varnir ákveður flokkur sem kallar sig jafnaðarmannaflokk Íslands og gengur undir heitinu Samfylkingin svona dags daglega að skerða þessar bætur, taka niður varnarmúrana.

Þetta eru áherslurnar sem við gagnrýnum í þessu frumvarpi en ofar öllu öðru þá hvetjum við til þess að menn skoði heildardæmið. Að við einskorðum ekki okkar sjónarhorn við fjárlagahallann sem slíkan heldur skoðum skuldastöðuna og þær skuldbindingar sem verið er að hlaða á skattgreiðendur bæði núna og langt inn í framtíðina.

Ég veit að ég og við tölum inn í samvisku og hjörtu margra stjórnarþingmanna. Ég veit að margir þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum, reyndar úr báðum stjórnarflokkunum, hafa áhyggjur af þessu og deila þessum sjónarmiðum með okkur. Ég yrði ekki undrandi þótt það ætti við um báða stjórnarþingmennina sem eru hér við umræðuna, hv. þm. Sjálfstæðisflokksins Kristján Júlíusson og hv. formann fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson. Það væri fróðlegt að heyra sjónarmið þeirra hér undir lok umræðunnar.

Á þessum forsendum höfum við byggt málflutning okkar í dag og við höfum lagt á það áherslu að í reynd hvílir sönnunarbyrðin ekki á okkur heldur á stjórnarmeirihlutanum sem er að knýja þessar breytingar í gegn og ætlar að láta okkur samþykkja fjárlagafrumvarp nánast með bundið fyrir augun.