136. löggjafarþing — 58. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[01:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hafði hér nokkur orð um vinnubrögð og aðstæður í sambandi við þessa svokölluðu 2. umr. fjárlagafrumvarps fyrir árið 2009 fyrr í dag og þarf ekki að endurtaka það. Eftir því sem liðið hefur á umræðuna hef ég orðið æ meira hugsi yfir því hvernig Alþingi stendur að málum, hvernig t.d. einstakir fagráðherrar og formenn fagnefnda sjá hlutverk sitt í þessum efnum. Hér eru undir hlutir sem þýða það stórfelldar breytingar í rekstrarumhverfi stofnana og ýmiss konar starfsemi að einhvern tíma hefði maður haldið að ástæða væri til að þeir sem eiga síðan að bera pólitíska ábyrgð á framkvæmdinni og/eða koma að þeim málum hér fyrir hönd Alþingis sem formenn viðkomandi fagnefnda hefðu haft uppi einhverja tilburði til að koma og útskýra fyrir okkur hvernig þetta á að ganga upp.

Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra haft sig hér í umræðuna til að útskýra fyrir okkur hvernig eigi að reka Landspítalann á næsta ári með tæpum 2 milljörðum kr. minni fjárveitingar en hann hefur? Hefur formaður heilbrigðisnefndar farið yfir það? Ég hef ekki orðið var við það. Þannig mætti áfram halda.

Undir kvöld var dreift hér bandormi ríkisstjórnarinnar um alls konar inngrip í sérlög sem tengjast fyrirhuguðu fjárlagafrumvarpi eða fyrirhuguðum fjárlögum. Þegar betur er að gáð er það þannig að sumt af því sem þar er tekið inn á að heita komið hér í breytingartillögum við 2. umr. fjárlaga en annað á að koma við 3. umr. Bandormurinn lítur hér fyrst dagsins ljós með frumvarpi um lagaheimildir til að gera þessar skerðingar og niðurskurð eða nýja sjúklingaskatta eða hvað það er að lögum á næsta ári, hann hefði að sjálfsögðu átt að liggja fyrir og að minnsta kosti vera búinn að koma til umræðu og vera farinn til nefndar. Breytingartillögur við 3. umr. hefðu þá átt að vera heildstæðar og taka mið af því sem þar er á ferðinni. Er það þannig? Nei.

Hér er um algeran bútasaum að ræða. Þetta eru einhver tætingslegustu vinnubrögð sem ég hef nokkurn tíma séð og er þá mikið sagt í sambandi við tilraunir til þess að reyna að koma saman einu stykki fjárlögum fyrir ríkið. Það verður einfaldlega að gefa þessu falleinkunn, það er ekkert annað hægt. Ég veit að menn afsaka sig með afbrigðilegum aðstæðum og miklum erfiðleikum og þar fram eftir götunum en það er í raun mjög takmörkuð afsökun, vegna þess að enn lifa þó 15 dagar til áramóta og mönnum er ekkert vandara um hér á þessum vinnustað en annars staðar að vinna a.m.k. alla virka daga sem eftir eru til áramóta til að gera þetta þá eins sómasamlega úr garði og hægt er. — Kemur vel á vondan að hér skuli mæta í salinn hæstv. landbúnaðarráðherra, það er þá kannski hægt að fara aðeins yfir það sem að bændum á að snúa á næstunni.

Ég fór að blaða í þessum bandormi og ég verð að segja alveg eins og er að hann gerði mig heldur dapran í huga, bæði yfir því hversu lágt er lagst á köflum og eins yfir ýmsu öðru sem vekur þarna nokkra furðu. 2. gr. eða II. kafli og 2. gr. frumvarps til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum — og eru nú þeir tímar gengnir í garð á nýjan leik að það þarf svona bandorma um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Einhvern tíma var hér flokkur sem ætlaði að útrýma allri slíkri hugsun og slíkt væri liðin tíð, svona sértækar ráðstafanir og krukk í ríkisfjármálunum, en það er nú eitthvað annað.

Hvar er nú borið niður? Jú, í búvörusamningnum, sem er löggerningur, bindandi samningur sem enginn vafi er á að heldur fyrir dómi ef út í það er farið. Nú veit ég ekki hvort bændur hafa beinlínis haft fyrir að þinglýsa honum en það skiptir væntanlega ekki sköpum í þessum efnum. Hann er þannig úr garði gerður að hann byggir á ákvæðum í lögum um samningaviðræður ríkis og bænda og þar er ákveðið ferli í gangi og bændur samþykkja hann í almennri atkvæðagreiðslu, þannig að hann hefur að þessu leyti öll einkenni kjarasamninga. Hann er borinn undir stéttina og hún annaðhvort samþykkir hann eða synjar honum. Það þýðir t.d. að bændaforusta hvers tíma hefur ekkert samningsumboð til að breyta honum eða samþykkja á honum breytingar, hún þyrfti að afla þess í nýrri atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna sinna.

Engu að síður á nú að bera hér niður og taka verðbætur af bændum á næsta ári og það eru litlar 800 millj. kr. sem áætlað er að spara í því miðað við núverandi verðlagshorfur og þetta er hvað, herra forseti? Þetta er einhver tekjulægsta stétt landsins í gríðarlegum erfiðleikum vegna mikilla kostnaðarhækkana og annarra aðstæðna sem hér hafa þróast með óhagstæðum hætti, talið jafnvel að allt að þriðjungur kúabænda sé í reynd gjaldþrota vegna hækkana á lánum og mikillar skuldsetningar á undanförnum árum vegna uppbyggingar í þeirri grein. Hin stóra hliðin í búvörusamningnum eru sauðfjárbændur og þeir hafa almennt ekki verið taldir sérstaklega aflögufærir í samfélagi okkar. Þarna ber ríkisstjórnin niður.

Hvað er svo sagt til að réttlæta inngrip í þennan löggerning, þennan bindandi samning sem hefur að lögum að mörgu leyti sömu stöðu og gerður kjarasamningur af því hann er samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu stéttarinnar?

Það er sagt, með leyfi forseta:

„Skerðingin er almenns eðlis og bundin við takmarkaðan tíma. Hún er einnig liður í veigamiklum ráðstöfunum sem ríkið er nauðugt að ráðast í. Verður því ekki talið að þessi breyting stríði gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar jafnvel þótt gripið yrði inn í gildandi samninga ríkis og bænda.“

Eitthvað eru menn samt í beyglu með þetta. „Verður þó ekki talið“, þetta minnir mig á orðalagið þegar menn voru að sveigja til stjórnarskrána með samþykkt EES-samningsins og töldu að þetta „mundi rúmast“, það mætti teygja ramma stjórnarskrárinnar þannig að þetta „slyppi sennilega“. Þetta er slík lögfræði. Ég öfunda ekki hæstv. landbúnaðarráðherra, sem við höfum átt orðastað hér við, þingmenn, oft á undanförnum mánuðum um mikla erfiðleika bænda og landbúnaðarins, sem allir lofa núna og prísa að eiga, því að við eigum þó að minnsta kosti mat í landinu, guði sé lof fyrir að krötunum tókst ekki að eyðileggja landbúnaðinn — að koma þá svona fram við greinina, sem er okkur mjög dýrmæt og mikilvæg. Við ættum að hafa hugsun á að styðja landbúnaðinn í gegnum þessa erfiðleika, þá verðmæta- og atvinnusköpun sem þar er og undirstöðu matvælaiðnaðar og fjölbreyttrar annarrar starfsemi.

Ég verð líka að segja alveg eins og er, þó að einhver telji mér kannski málið skylt, að mikið óskaplega finnst mér lágt lagst þegar allt í einu er tínt þarna inn í IV. kafla, 5. gr. laganna, ákvæði um hvað? Að slá af annan héraðsdýralækninn í Þingeyjarumdæmi. Þar fundu menn aldeilis matarholuna eða hvað, hæstv. herra forseti? Þar fann landbúnaðarráðherra væntanlega — sem hefur átt að leggja eitthvað af mörkum í púkkið — matarholuna, sem var að slá af þessa þjónustu í þessu stóra og víðlenda héraði.

Margt er annað mjög umhugsunarvert í þessum bandormi, sem hefði auðvitað þurft að vera búið að ræða hér ef einhver svipur hefði átt að vera á hlutunum. Ég er ákaflega ósammála þeirri aðferð sem hér er farin í skattamálum, ekki vegna þess að ég hafi ekki skilning á því og sé ekki sammála því að það beri að reyna að afla tekna eftir því sem kostur er til að draga þá úr þeim niðurskurði sem menn ella telja sig knúna til að fara í, en það er heldur aumingjalegt að sú leið skuli farin að fara í flata hækkun tekjuskatts og útsvars og gera enga minnstu tilraun til þess að dreifa þá skattbyrðunum þannig að þeir beri þær meira sem aflögufærari eru.

Þegar kemur hér að ýmsum uppreikningi og útreikningi bóta kemur afar merkileg mynd í ljós. Það er t.d. þannig — sem er vel — að það á að reyna að verja lágmarksgreiðslur til þeirra sem slíkra njóta úr almannatryggingakerfinu og til þess að það verði, miðað við verðlagshorfur, eru þær hækkaðar um 20%. En þegar kemur síðan að ýmsum öðrum bótaliðum eru alls konar tölur á ferð. Aðrar greiðslur almannatrygginga eru hækkaðar um 9,6%, sjómannafrádráttur er uppfærður um 12,9%, en viðmiðunarfjárhæðir barnabóta og vaxtabóta um 5,7%. Þar er skilin eftir, ef ég sé rétt, gamla prósentan úr ónýta fjárlagafrumvarpinu frá því í haust. Með öðrum orðum: Þetta er algerlega handahófskennt, það er ekkert samræmi í neinu þarna. Hvaða vísindi eru þarna á ferð? Þetta er einhver geðþótti. Þetta eru bara geðþóttavísitölur sem menn setja þarna inn væntanlega einkum til þess að ná út úr þessu u.þ.b. þeim niðurskurði sem þeir ætla sér.

Í 17. gr. er ætlunin að skjóta lagastoð undir nýjan sjúklingaskatt. Það er undarlegt, herra forseti, að þegar þessir tveir flokkar, eða forveri annars þeirra og sá sami gamli í hinu tilvikinu, Sjálfstæðisflokkurinn, ná saman í ríkisstjórn gerast alltaf svona hlutir. Þá koma sjúklingaskattarnir. Eða muna menn ekki hverjir innleiddu þá? Ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks 1991–1995. Þá komu sjúklingaskattarnir og þetta er byrjað aftur, þegar kratarnir eru komnir í fangið á Sjálfstæðisflokknum þá byrja þeir. Sérstakur skattur á þá sem eiga að leggjast inn á sjúkrahús eins og menn geri það almennt að gamni sínu.

Nú er það þannig að ýmiss konar gjaldtaka hefur því miður viðhaldist og jafnvel hækkað í kerfinu sem áður var að stærstum hluta gjaldfrítt og menn töldu eitt af einkennismerkjum hinna samábyrgu norrænu velferðarsamfélaga að þar væri ákveðin undirstöðuþjónusta gjaldfrjáls, greidd af almennu aflafé og þannig tryggðu menn eins fullkomið jafnræði og gæði þjónustunnar sem allir nytu óháð efnahag eins og kostur væri. Aðalsmerki hinna samábyrgu norrænu velferðarsamfélaga. Svo falleruðust krataflokkar í Vestur-Evrópu og víðar í heiminum af nýfrjálshyggjunni á síðustu árum níunda áratugarins og í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Þess sást nú heldur betur stað hér á Íslandi þar sem Alþýðuflokkurinn sálugi varð einn af frjálshyggjusinnuðustu krata- eða verkalýðsflokkum í veröldinni og gekk í það með Sjálfstæðisflokknum af fullu afli á kjörtímabilinu 1991–1995 að innleiða þessa hluti.

Sjúkrahúsin hafa verið ákveðið vígi sem hefur haldið fram undir þetta. Menn hafa ekki verið látnir greiða fyrir þjónustuna þegar þeir voru komnir inn á sjúkrahús og hafi þeir þurft að leggjast þangað inn, verið skráðir þangað inn af sínum læknum, hafa þeir fengið þjónustu þar án endurgjalds svona að mestu leyti. Að vísu hefur ýmis rannsóknarkostnaður o.fl. smálæðst þar inn en grunnþjónustan þó verið í aðalatriðum á þessum grunni.

Hér á líka að fara inn í þetta vígi þar sem eru sjúkrahúsin, þar sem er fólk sem er svo veikt að það þarf að leggjast inn á heilbrigðisstofnun. Hver er reynslan af slíkri gjaldtöku þó að hún eigi kannski ekki að vera nein ósköp hér í byrjun, 360 milljónir þó sem eru umtalsverðir fjármunir. Jú, það reynist óhemjuerfitt að ná henni út aftur og hún vill yfirleitt fara hækkandi. Hvað ætla menn að gera 2010 þegar enn erfiðara verður að koma saman fjárlögum? Jú, ætli menn seilist þá ekki til þess að hækka þetta? Komugjöldin á heilsugæslustöðvarnar voru ósköp lág í byrjun og menn sögðu: Þetta er svo lágt, þetta er bara svona hundraðkall, þetta er svona bara skráningargjald. Svo hækkaði það ár eftir ár þegar það var einu sinni komið inn, þegar búið var að brjóta ísinn. Samfylkingin ber mikla ábyrgð að rjúfa þetta vígi líka og taka upp beinar greiðslur fyrir innlögn manna á sjúkrahús. Þetta eru ekki þeir fjármunir að það mundi muna öllu að taka þá öðruvísi á þessu í þessum ósköpum öllum saman.

Almannatryggingakaflinn er náttúrlega stærstur í þessu því að þar munar 5,9 milljörðum sem á að spara við að hækka ekki bætur í samræmi við verðlagsforsendur. Á móti koma 2 milljarðar vegna lágmarkstryggingarinnar þannig að eftir standa rétt tæpir 4 milljarðar nettó í skerðingu, sem lesa má hér út úr greinargerð með bandorminum. Þar eru komin gögn sem algerlega vantaði hér í umræðuna í dag þegar maður var að reyna að átta sig t.d. á þessum tætingslegu breytingartillögum, það var engin leið fyrr en maður fær þá t.d. kostnaðarmat og mat fjárlagaskrifstofunnar á því hvað þetta eigi að gefa af sér.

Ég verð að endurtaka, herra forseti, gagnrýni mína á það hvernig hér er að málum staðið. Þetta er í raun og veru algerlega óboðlegt, þetta er engin alvöru 2. umr., þetta er hálf 1. umr. um nýtt fjárlagafrumvarp sem er ómarktækt vegna þess hvernig hlutirnir eru lagðir upp, vegna þess hvers konar bútasaumur þetta er og vegna þess hvað mikið af grundvallargögnum vantar til að fá eitthvert samhengi í hlutina.

Þegar það nú bætist við að það vantar síðan öll ósköpin sem á að fara að færa hér inn í lög, heimildir fyrir ríkið til að skuldsetja þjóðina fram á næstu áratugi þá versnar nú í því eins og ég hygg að hv. þm. Pétur Blöndal, formaður efnahagsnefndar, hafi bent á í umræðunni í dag. Það hlýtur að vera þannig að það verður að fá lagastoð fyrir þeim lántökum sem hér á að fara að ráðast í og þeirri endurfjármögnun banka og Seðlabanka sem á að fara að ráðast í. Eru það ekki 350–385 milljarðar í tilviki bankanna, 150–200 milljarðar í tilviki Seðlabankans? Það á að fara að reka ríkissjóð með 160–170 milljarða halla þannig að þá verður að ætla vaxtakostnað af því. Það á að heimila Innlánstryggingasjóði að taka lán, hann er jafnvel að því þessa dagana þó að það megi ekki, það er bara einfaldlega þannig. Ég spurði að því hvenær handhöfn lánsins færðist yfir á Innlánstryggingasjóð og það var upplýst af starfsmönnum þeirra ráðuneyta sem með það fara að það gerðist þegar farið yrði að borga út, og það eru 630–640 milljarðar kr. miðað við gengið eins og það hefur verið að undanförnu. Og það á að taka 5,1 milljarð bandaríkjadala eða um 580 milljarða miðað við gengið í dag hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og erlendum seðlabönkum. Bíddu, þetta vantar, það er ekki eitt orð um vaxtabyrðina og líklegar horfur fyrir ríkið í kjölfar alls þessa.

Ríkisstjórnin var að slá um sig á karamellublaðamannafundunum sínum hérna fyrir nokkrum vikum og hélt fyrst karamellufund um aðgerðir til stuðnings heimilunum sem ekkert var í. Það var helst að menn ætluðu að leggja einhverja fjármuni í að flytja út bíla, annað var það ekki. Svo kom næsti fundur hálfum mánuði síðar og þá voru það fyrirtækin og var enn minna í því því að það voru bara áskoranir og tilmæli til hinna og þessara aðila úti í bæ að gera eitthvað, ekkert frá ríkisstjórninni.

Þess vegna beið maður eftir fjárlagafrumvarpinu. Ég minnist þess að aðstandendur ríkisstjórnarinnar sögðu einmitt þá: Bíðið þið, svo kemur þetta í fjárlagafrumvarpinu. Menn hafa sagt við sveitarstjórnir: Bíðið þið, svo kemur þetta í fjárlagafrumvarpinu.

Hvað er að koma í fjárlagafrumvarpinu til stuðnings heimilum, til stuðnings atvinnulífi, til að verja heimilin og halda atvinnulífinu gangandi? Ekki neitt nema blóðugur niðurskurður. Það á að dýpka kreppuna, auka atvinnuleysið með þessum ráðstöfunum samkvæmt forskrift Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Við höfum verið að vinna aðgerðaáætlun í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég er með hana hér í höndunum á tólf blaðsíðum þar sem m.a. er heill kafli um aðgerðir í efnahags- og ríkisfjármálum. Hefði ég tíma til mundi ég m.a. vitna í hugmyndir okkar um tekjuöflun og sparnað. Þar eru aðgerðir sem snúa að samskiptum okkar við erlend ríki og annað í þeim dúr sem brýnt er að taka á. Hvar er prógramm ríkisstjórnarinnar í þessum efnum? Það er ekki til, það er ekki neitt, af því að ég kalla minnisblaðið um tólf spora kerfið fyrir atvinnulífið ekki áætlun, það er ekki neitt. Það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem hefur tekið völdin í þessum efnum á Íslandi og það er dapurlegt, og ég er ekki viss um að það verði okkur til mikillar farsældar að fylgja hans meingölluðu uppskrift sem margar þjóðir hafa bitra reynslu af að fara eftir. Þar sýnist mér því miður ekkert hafa breyst, þannig að það er ekki að þessu leyti, virðulegur forseti, mikið tilefni til bjartsýni meðan þessi aumingja ríkisstjórn sameinast ekki um eitt eða neitt nema að sitja.