136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa, við þær aðstæður sem nú eru uppi í efnahagslífinu, að standa að tillögum um niðurskurð til menntamála, ekki síst fyrir þá sem hafa unnið hörðum höndum að uppbyggingu menntakerfisins á síðustu árum og ég tel mig vera í þeim hópi. Við verðum hins vegar að hafa hugfast að útgjöld til menntamála hafa aukist gríðarlega á síðustu árum og hafa verið með þeim hæstu sem þekkjast í heiminum.

Niðurskurðurinn sem hv. þingmaður nefnir er að stórum hluta ákvörðun um að áformaðar hækkanir komi ekki til framkvæmda að sinni. Hér er verið að stíga eins varlega til jarðar og mögulegt er og ganga ekki of nærri menntakerfinu, m.a. til að reyna að koma í veg fyrir að fólk flýi land. En við verðum hins vegar að horfast í augu við það að tekjur ríkisins eru að dragast stórlega saman og við slíkar aðstæður verður ríkið að spara og skera niður og því miður á öllum sviðum.

Ég hef tekið eftir því að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa talað um það að ríkisstjórnarflokkarnir séu með tillögum sínum að boða blóðugan niðurskurð. Ég kýs þá að líta þannig á að Vinstri grænir séu á móti niðurskurði ríkisútgjalda og ef farið yrði eftir tillögum þeirra er ljóst að ríkið færi þráðbeint á hausinn enda virðast menn ekki skilja að einhvern veginn þarf að standa undir öllum þessum útgjöldum.

Við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu verða menn að svara þeirri spurningu hverjir eigi að bera byrðina. Fyrirtæki berjast í bökkum, fólk er að missa vinnuna, laun lækka, verðbólga er há og vextir líka og gjaldmiðillinn hefur hrunið. Þetta þýðir að fólkið í landinu er að taka á sig byrðarnar. Því hlýtur maður að spyrja: Treysta þingmenn Vinstri grænna sér til þess að horfa framan í þetta fólk og segja við það að það verði að skera niður sín útgjöld en að ríkið ætli ekki að gera það? Eða vill hv. þingmaður steypa þjóðfélaginu í enn meiri skuldir en orðið er og skuldsetja sjálfan sig, börnin sín og börnin þeirra til framtíðar?

Herra forseti. (Forseti hringir.) Aðstæður eru þannig í þjóðfélaginu að það verður að skera niður. Menn verða að viðurkenna það (Forseti hringir.) og segja sannleikann eins og hann er.