136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:07]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er spurt: Hverjir eiga að bera byrðarnar? Ég varpaði fram nokkrum spurningum síðla kvölds í gær eða í nótt en enginn var til andsvara vegna þess að hv. formaður heilbrigðisnefndar og reyndar líka hv. formaður menntamálanefndar létu ekki sjá sig í umræðunum, tóku ekki þátt í þeim, létu sig hverfa, strikuðu sig út af mælendaskrá. Ég verð að segja að þetta vakti athygli fleiri en mín. Ég verð að segja að það er sérkennilegt, þegar verið er að skera niður heilbrigðisútgjöld um 6,9 milljarða, þegar verið er að skera Landspítalann niður um 1.700 millj. kr., þegar verið er að skera heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu niður um 300 millj. kr. og þegar verið er að leggja 1.100 millj. kr. á í nýja sjúklingaskatta, að þá sé formaður heilbrigðisnefndar þingsins hvergi á vettvangi. Ég hlýt að spyrja: Hver er aðkoma hv. heilbrigðisnefndar að þessum stórfellda niðurskurði? Hver er aðkoma hv. heilbrigðisnefndar þegar þetta liggur fyrir?

Í framhaldinu vil ég spyrja: Ég hef nefnt nokkra þætti, niðurskurð og sjúklingaskatta, en vil spyrja sérstaklega um söfnunarreikning til handa ráðherranum upp á 780 millj. kr. þar sem verið er að taka af öllum heilbrigðisstofnunum í landinu og leggja inn á óskilgreindan söfnunarreikning í ráðuneytinu til að ráðherrann geti ráðskast með í umdæmaskipun í heilbrigðisþjónustu í landinu. Ég óska eftir að fá svör við þessu.

Þetta eru örfáar af þeim spurningum sem ég varpaði fram til hv. formanns heilbrigðisnefndar í gær. Ég var líka með spurningar til hv. formanns iðnaðarnefndar sem var heldur ekki á vettvangi (Forseti hringir.) og lét ekki sjá sig í þessari umræðu. (Forseti hringir.) Ég verð að segja að það er lítill sómi að formönnum þingnefnda sem þannig standa (Forseti hringir.) vaktina í þingsal.