136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:09]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég sat á hinu háa Alþingi langt fram eftir kvöldi í gær þannig að hv. þingmaður hafði fullt tækifæri til að ræða við mig hvort heldur hér inni eða utan salar. En það er ljóst að við stöndum frammi fyrir veruleika sem við hefðum gjarnan viljað vera án. Það þarf að bregðast við á öllum sviðum samfélagsins. Í því fjárlagafrumvarpi sem við erum með fyrir framan okkur er verið að auka í fjárlögin varðandi heilbrigðismálin um 17% en hins vegar er gert ráð fyrir því í tillögum ríkisstjórnarinnar til fjárlaga við 2. umr. að þau lækki um 5,3 milljarða kr., stofnkostnaður verði lækkaður um 400 millj. kr. og aðallega vegna niðurskurðar á nýbyggingum þjóðarsjúkrahússins, sem er skorið niður um helming. Þá er gert ráð fyrir lækkun lyfjaútgjalda sem nema um 1 milljarði kr. sem er áætlað að muni fást með breytingum á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og lækkun lyfjakostnaðar vegna breytinga sem gerðar voru á lyfjalögum eins og hv. þingmaður man glöggt eftir síðasta vor og er vænst að muni skila aukinni samkeppni á lyfjamarkaði og lækkun á heildsöluverði lyfja.

Það er ljóst að góð heilbrigðisþjónusta er mjög mikilvæg og það er mjög mikilvægt að bera þannig niður að ekki sé vegið að öryggiskennd einstaklinga og fjölskyldna við þær aðstæður sem við erum í núna. Það er hins vegar ljóst að í kerfinu eru miklir möguleikar til endurskipulagningar og í heilbrigðisþjónustulögum, sem samþykkt voru á vorþingi á síðasta ári, er m.a. mælt fyrir um ákveðna verkaskiptingu í heilbrigðisþjónustunni sem er mjög mikilvægt að farið verði eftir sem mun leiða þegar upp er staðið til mikils sparnaðar í kerfinu. Þá á ég m.a. við verkaskiptingu milli umdæmissjúkrahúsa og sérhæfðra sjúkrahúsa en jafnframt innan heilsugæslunnar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um þann pott sem lagður er til í fjárlagafrumvarpinu við 2. umr. en verið er að mælast til þess að í þann pott (Forseti hringir.) fari ákveðið fjármagn frá öllum stofnunum sem síðar verði endurúthlutað til að standa straum af skipulagsbreytingum til hagsbóta fyrir sjúklinga í landinu.