136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:21]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Það væri auðvitað óskandi ef við ættum nóg af peningum til þess að verja til allra þeirra þjóðþrifamála sem við viljum vinna að hér á hinu háa Alþingi. Þessir peningar eru því miður ekki til. Ég fór yfir það áðan að orðið hefur og fyrirsjáanlegt er tekjufall hjá ríkissjóði. Tekjur ríkisins dragast saman og einhvern veginn verður að bregðast við því.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að það sé auðvitað þyngra en tárum taki fyrir okkur sem höfum verið að vinna að því hörðum höndum síðustu árin að byggja upp menntakerfið að þurfa að mæla fyrir niðurskurði á fjárframlögum til þess. Við verðum hins vegar að horfast í augu við staðreyndirnar eins og þær eru. Það er ekki hægt að eyða um efni fram og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn reyna að stíga ekki fastar til jarðar en nauðsynlegt er til þess að verja menntakerfið.

Menn hafa ekki svarað þeirri spurningu hér hvernig þeir ætla að svara því fólki sem spyr: Hverjir eiga að bera byrðarnar? Hvað ætla hv. þingmenn Vinstri grænna að segja við fólk sem er búið að missa vinnuna, sem hefur lækkað í launum, sem hefur orðið fyrir kjaraskerðingu (Gripið fram í.) þegar fólkið spyr hvort ríkið ætli ekki líka að draga úr útgjöldum? (Gripið fram í: Þið hafið völdin í landinu.) Auðvitað verður ríkið að draga úr útgjöldum þegar harðnar á dalnum alveg eins og fólkið í landinu. Það er það sem málið snýst um.

Staðan er grafalvarleg og við verðum að taka á henni. Við megum ekki vera í einhverri vinsældakeppni með yfirlýsingum (Gripið fram í.) sem ekkert er á bak við. (Gripið fram í.) Það þarf að taka á vandanum og það þarf að skera niður og horfast í augu við það. Annars verður niðurstaðan skelfileg og kallar á himinháa skuldsetningu. Skuldir í dag eru skattar á morgun (Forseti hringir.) og ef við viljum forðast að skuldsetja börnin okkar til framtíðar verðum við að skera niður og ríkið er þar ekki undanskilið. (Gripið fram í.)