136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:23]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra spyr hvort hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hafi lesið fjárlagafrumvarpið. Ég spyr nú bara hver það er sem hefur lesið fjárlagafrumvarpið með öllum þeim breytingum sem lagðar hafa verið fram. Ég skal bara viðurkenna að ég hef ekki náð að lesa yfir það enda eru vinnubrögðin sem einkennt hafa vinnu tengda fjárlagagerðinni algjörlega ótrúleg.

Ég sit í heilbrigðisnefnd og þar kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti okkar að okkur fannst vera algjör skortur á markvissum vinnubrögðum. Það kom engin heildarsýn fram, hvorki frá heilbrigðisráðherra né meiri hlutanum í nefndinni. Við skulum bara tala mannamál hérna. Það sem er verið að leggja til er að fækka störfum, það er verið að leggja til að segja fólki upp. Kostnaður heilbrigðiskerfisins er 70–80% launakostnaður þannig að þegar við tölum um að skera niður, hvort sem það er um 3,5 milljarða eða 10 milljarða eða hvaða tölu sem við tölum um, erum við að tala um að fækka störfum. (Gripið fram í.) Það er verið að tala um að skera niður. (Gripið fram í.)

Eftir að búið var að óska ítrekað eftir upplýsingum frá meiri hlutanum um hvað ætti að leggja til og spyrja fulltrúa stofnana beint kom skýrt fram að verið væri að tala um að loka deildum, jafnvel heilum stofnunum til þess að hægt væri að spara. Það má t.d. benda á að meðal þess sem ég hef skoðað er verið að tala um að skera niður fyrir 300 milljónir á Heilbrigðisstofnun Akureyrar. Það þýðir að þar þarf að loka stofnun þannig að við skulum bara tala mannamál hérna.

Það sem er líka einkennandi hérna er að það virðist enginn hafa neina yfirsýn yfir um hve mörg störf er að ræða, enginn. Þeir sem verða atvinnulausir geta væntanlega (Forseti hringir.) fagnað því að það eru átaksverkefni á vegum hæstv. iðnaðarráðherra sem þeir geta tekið þátt í.