136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

niðurskurður í mennta- og heilbrigðismálum.

[14:25]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi bregðast aðeins við orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur sem mér fannst veitast ansi ómaklega að hv. þingmönnum Ástu Möller og Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir (Gripið fram í.) að hafa ekki tekið þátt í umræðunni í gær. Í umræðu sem er svona viðamikil eins og fjárlagaumræðan er jafnan við 2. umr., og ekki síst í gær, verð ég sem þingflokksformaður að skipuleggja hvernig fólk raðast inn í umræðuna. Þau höfðu gert ráð fyrir og undirbúið sig mjög vel fyrir þessa umræðu en það var sem sagt ég sem óskaði eftir því að þau mundu ekki taka þátt í umræðunni úr ræðustól. (Gripið fram í.) Þau voru hins vegar búin að hlýða á umræðuna og fylgjast með henni, m.a. ræðu hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Ég tek fram að ég útskýrði mjög nákvæmlega fyrir hv. þm. Álfheiði Ingadóttur í gær hvernig í málinu lægi. Þess vegna vil ég segja að það var ómaklegt að taka þetta upp með þessum hætti úr ræðustólnum.

Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess hversu mikið hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði úr því að þessir tveir hv. þingmenn hefðu ekki tekið þátt í umræðunni. (Gripið fram í.) Mér fannst það hins vegar skipta miklu máli að þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd fengju tækifæri til þess að taka þátt í umræðunni og þess vegna er þetta svona.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, hefur það komið fram í framhaldsfjárlagaumræðunni sem átt hefur sér stað undir störfum þingsins að um miklar aðgerðir er að ræða sem miða að því að þeir sem veikast standa (Forseti hringir.) verði ekki fyrir niðurskurði. Ég held að það sé mjög mikilvægt og að við höfum það inni í 3. umr. og það er það markmið sem (Forseti hringir.) við stöndum fyrir í meiri hlutanum að landstjórninni.