136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

afbrigði um dagskrármál.

[14:34]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þingið á að standa vörð um lýðræði í landinu og það á líka að vanda vinnubrögð sín. Við erum að greiða atkvæði um afbrigði, þ.e. um að taka ráðstafanir í ríkisfjármálum til umræðu þó að því frumvarpi hafi verði dreift seint í gærkvöldi, líklega rétt fyrir kl. 11. Það er algerlega óásættanlegt að taka það mál til umræðu í dag og því greiðum við atkvæði gegn því. Svona vinnubrögð eiga ekki að líðast og ég verð að viðurkenna að ég verð meira og meira hissa á þinginu þegar ég heyri í umræðum að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Arnbjörg Sveinsdóttir, „handpikkar“ út af mælendaskránni hjá Sjálfstæðisflokknum, „handpikkar“ út formenn stærstu nefndanna, formann menntamálanefndar og formann heilbrigðisnefndar. Hvers lags lýðræði er þetta? Um hvað eigum við að ræða í þessu þingi þegar ekki einu sinni stjórnarsinnar mega tala?