136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagsumhverfi frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram á Alþingi í byrjun október. Hin snöggu umskipti hafa eðlilega sett mark sitt á störf fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar í fjárlagaferlinu. Þær breytingartillögur sem nú eru lagðar fram við 2. umr. eru þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og voru teknar til umfjöllunar í fjárlaganefnd í annarrar viku desember. Þar að auki er í breytingartillögunum sá hluti tillagna forsætisnefndar um fjárheimildir Alþingis 2009 er lýtur að rekstri þingsins og stofnana þess.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins er nú unnið að frekari áætlunum um vissa útgjaldaliði frumvarpsins sem þurfa frekari skoðunar við, meðal annars endurmat á vaxtagjöldum ríkisins á næsta ári. Þá er unnið að endurmati á verðlags- og tekjupóstum frumvarpsins. Síðan bíða 5. og 6. greinar ákvæði enn fremur 3. umr. fjárlaga. Skipting á útfærslu fjárheimildar til rekstrar- og öldrunarþjónustu milli félags- og heilbrigðisráðuneytis er ekki lokið eins og stefnt var að og er nú er fyrirhugað að tillögur um það efni komi fram við 3. umr. frumvarpsins. Það kann að hafa í för með sér flutning á milli fjárlagaliða til leiðréttingar.

Virðulegi forseti. Fjárlaganefnd og fastanefndir hafa lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem bárust sem voru á annað þúsund. Tillögur fastanefnda og fjárlaganefndar sem varða afgreiðslu (Forseti hringir.) þeirra verða til umfjöllunar við 3. umr. samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar.