136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hluta utanríkismálanefndar til fjárlaganefndar þá styðjum við í aðalatriðum þann niðurskurð á stofnunum utanríkisráðuneytisins og yfirstjórn sem hér eru lagðar fram tillögur um en hefðum þó viljað forgangsraða öðruvísi innan málaflokksins, einkum og sér í lagi með það í huga að hlífa þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoð meira við niðurskurð en hér er gert með það að markmiði helst að framlög okkar til þess málaflokks yrðu á næsta ári óbreytt hlutfall af þjóðartekjum, því miður mun minni þjóðartekjum en í ár. Að því leyti til mætti ganga lengra í niðurskurði að okkar mati á ákveðnum sviðum og hlýtur það að gleðja þá stjórnarliða sem ákaflega hafa saknað þess að við lýstum því hvar við gætum hugsað okkur að bera niður í sparnaði og ráðdeild. Það mætti til að mynda gera þarna og alveg sérstaklega í tölulið 92 sem ég mun gera grein fyrir í atkvæðagreiðslu á eftir.