136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:24]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á því að verið er að leggja til að framlög til náttúruverndarmála séu skorin stórlega niður. Ég geri ekki athugasemd við 12 millj. kr. niðurskurð til fyrirhugaðra rannsókna eða annars undirbúnings vegna olíuleitar á Drekasvæðinu. En ég geri athugasemdir við það að þegar Umhverfisstofnun er skorin niður skuli teknar heilar 50 millj. kr. af þeim 64 sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að fara eigi í þjóðgarða og friðlýst svæði. Ég geri athugasemd við að það skuli eiga að loka Surtseyjarstofu og Hornstrandastofu og hætt verði við gestastofuna við Látrabjarg og í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi.

Ég segi við hæstv. iðnaðarráðherra sem var að segja í ræðustóli rétt áðan að ekki væri verið að skera niður til ferðamála: Það er víst verið að skera niður til ferðamála og það er gert með því að skera niður framlög til náttúruverndar. Ég mótmæli niðurskurði af þessu tagi, hæstv. forseti.