136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:26]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég nefndi áðan í atkvæðaskýringu við lið 112, ég hélt að hann mundi koma sérstaklega til atkvæða en nýti þetta tækifæri til að koma að athugasemdum og ábendingum um þann lið. Þar er verið að leggja til 200 millj. kr. niðurskurð í niðurgreiðslum til húshitunar íbúðarhúsnæðis á köldum svæðum. Gert var ráð fyrir því að á milli ára mundi þetta framlag hækka um 150 millj. kr. þannig að með þessu móti er verið að fara aftur fyrir fjárframlög til niðurgreiðslu á þessu ári og allir vita hvernig olíuverðið hefur verið. Það er dapurlegt að við skulum vera að fara aftur á bak í þessum efnum. Þetta er liður sem kemur mjög illa niður á landsbyggðinni og á fólki sem þarf að eyða hvað mestu til að kynda íbúðarhúsnæði sitt. Þetta er mjög slæmur niðurskurður.