136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum á þskj. 357, 243. máli. Í frumvarpinu eru gerðar tillögur um nauðsynlegar lagabreytingar til samræmis við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar sem fram komu við 2. umr. um fjárlagafrumvarpið og sem Alþingi var að afgreiða rétt í þessu.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um aðdraganda þessara tillagna. Allt frá því lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., voru samþykkt á Alþingi 6. október sl. hafa störf þingsins markast af því að takast á við hrun íslensku bankanna og efnahagskreppu þá sem fylgdi í kjölfarið.

Ein augljósasta afleiðing kreppunnar er sú að skatttekjur ríkisins lækka vegna minnkandi umsvifa í þjóðfélaginu og útgjöld aukast vegna hækkandi verðlags og gengisfalls íslensku krónunnar. Að óbreyttu stefndi í að halli ríkissjóðs á árinu 2009 gæti orðið um 215 milljarðar kr. Í efnahagsáætlun fyrir Ísland sem unnin var í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er hins vegar gert ráð fyrir að hallinn verði ekki meiri en sem nemur 165–170 milljörðum kr. Það þurfti því að bregðast við með mjög afgerandi hætti. Með aðhaldssemi í ríkisbúskapnum stuðlum við að því að þjóðfélagið nái sér sem fyrst upp úr kreppunni.

Ríkisstjórnin kynnti hinn 11. desember sl. sparnaðaraðgerðir sem lagðar voru til við fjárlaganefnd. Meiri hluti hennar gerði þær að sínum og þingið afgreiddi þær í atkvæðagreiðslu fyrr á þessum fundi. Megintónninn í þeim breytingum er að standa vörð um velferðarkerfið, menntun og löggæslu en þess í stað verði hagrætt sem mest í rekstri ráðuneyta og hefðbundinna stjórnsýslustofnana. Þá mun tekjuskattur hækka og sveitarfélögum verður heimilað að hækka útsvar. Þessar aðgerðir munu bæta afkomu ríkissjóðs alls um allt að 45 milljarða kr. Þar af munu þær aðgerðir sem kveðið er á um í frumvarpi því sem hér er til umræðu bæta afkomuna um 16,5–17 milljarða kr.

Ég mun nú stikla á stóru í frumvarpinu sem hér er mælt fyrir en það skiptist í 11 kafla og er þeim raðað upp í aldursröð þeirra laga sem lagt er til að breytt verði.

Í I. kafla er lögð til breyting á lögum um sóknargjöld þannig að fjárhæð þeirra hækki ekki eins og núgildandi lög gera ráð fyrir milli áranna 2008 og 2009. Þess í stað munu þau lækka tímabundið árið 2009, um 2% frá því sem var árið 2008. Þessi gjöld renna úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskólasjóðs. Með þessum hætti sparast 328 millj. kr.

Í II. kafla er lagt til að sett verði þak á útgjöld ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga. Verðhækkunin verði þannig óbreytt frá því sem reiknað var með í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. 5,7%. Til að ná þessu fram er lagt til að bætt verði bráðabirgðaákvæði við búvörulögin þess efnis að búvörusamningar við bændur um sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkjuafurðir hækki einungis upp að vissu marki árið 2009 en ekki í takt við vísitölu neysluverðs.

Þarna er lagt til að Alþingi heimili að gripið verði inn í gerða samninga við bændur og ríkisstjórnin vill alls ekki gera lítið úr afleiðingum sem þetta kann að hafa í för með sér fyrir þá. Líkt og aðrir þjóðfélagshópar verða bændur hins vegar að axla nokkrar byrðar. Laun hafa skerst á almennum vinnumarkaði og hið sama mun eiga sér stað í opinbera geiranum, samanber frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um kjararáð. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið hugað að samræmi við 72. gr. stjórnarskrárinnar sem verndar eignarréttinn. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að lagabreyting þessi fái fyllilega staðist.

Skerðingin er almenn með því að hún kemur jafnt niður á þá sem eiga rétt til framlaga samkvæmt búvörusamningum, en þeir eru á þriðja þúsund talsins.

Sú ráðstöfun sem felst í frumvarpinu tekur einungis til eins árs, samningsársins 2009.

Loks er rétt að benda á að réttur til framlaga samkvæmt búvörusamningum er af allsherjarréttarlegum meiði. Eignarréttarvernd slíkra réttinda er að því leyti til veik að játa verður löggjafanum mikið svigrúm við að takmarka réttindin við þær aðstæður sem nú eru uppi þegar nauðsynlegt reynist að draga ríkisútgjöld verulega saman til að verjast þeim gríðarlegu efnahagslegu áföllum sem yfir þjóðina hafa dunið.

Sparnaður af þessari ráðstöfun fyrir ríkið verður um 800 millj. kr. árið 2009.

Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að hækka útsvar um 0,25 prósentustig, þ.e. úr 13,03% í 13,28%. Áætlað er að þessi hækkun geti skilað sveitarfélögum allt að 2 milljörðum kr. í útsvarstekjur miðað við það að öll sveitarfélög landsins fullnýti heimildina. Verði frumvarpið að lögum mun það skapa mun betri forsendur fyrir rekstri sveitarsjóðanna á næstu árum, en að öllu óbreyttu hefði stefnt í allnokkra tekjulækkun hjá mörgum sveitarfélögum vegna hinna miklu umskipta sem orðið hafa í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Í V. og IX. kafla frumvarpsins er að finna tillögur til breytinga á lögum um málefni aldraðra annars vegar og almannatrygginga hins vegar. Felur þetta í sér að aukin verða áhrif fjármagnstekna á lífeyristryggingar auk þess sem frítekjumarki 70 ára og eldri verður breytt til samræmis við aðra hópa. Sparnaður verður um 1 milljarður kr. fyrir ríkið. Þá verður ákveðið að bætur almannatrygginga hækki ekki fyllilega og að öllu leyti í samræmi við vísitölu neysluverðs milli áranna 2008 og 2009, heldur um 9,6% fyrir aðra hópa en þá sem lægstu bæturnar fá. Þannig verður komið í veg fyrir 5,9 milljarða kr. aukningu útgjalda. Á móti kemur sérstök viðbót elli- og örorkulífeyrisþega að fjárhæð samtals um 2 milljarðar kr.

Í VI. kafla er gert ráð fyrir að greiðslur vegna fæðingarorlofs verði að hámarki 400.000 kr. á mánuði í stað 480.000 kr. Mun breytingin ná til foreldra barna sem fæðast frá og með 1. janúar nk. Gert er ráð fyrir að þessi breyting spari ríkissjóði um 400 millj. kr. miðað við það sem annars hefði orðið.

Í VII. kafla eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Helsta breytingin er sú að lagt er til að tekjuskattur einstaklinga verði hækkaður um 1,25 prósentustig, úr 22,75% í 24%. Markmiðið með þessari hækkun er tvíþætt. Annars vegar er hækkun um 1 prósentustig til að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs og hins vegar er hækkun um 0,25 prósentustig sem ætlað er að fjármagna sérstakt 1 milljarðs kr. framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og greiðslur ríkissjóðs á fasteignagjöldum, samtals um nálægt 1,5 milljörðum kr. Áætlað er að tekjuskattur geti hækkað um samtals 8,5–9 milljarða kr. vegna þessara breytinga.

Í VIII. kafla frumvarpsins er lagt til að lög nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., verði felld úr gildi. Breytingartillögur við 2. umr. fjárlaga munu gera ráð fyrir að frestað verði ýmsum þeim framkvæmdum sem kveðið er á um í lögunum og hefur atkvæðagreiðsla þegar farið fram um þau atriði hér í dag. Vegna gjörbreyttra aðstæðna í efnahagslífi þjóðarinnar frá því lögin voru sett þykir réttast og hreinlegast að fella þau úr gildi og að ákvarðanir um fjármögnun framkvæmda og verkefna sem þar er fjallað um verði teknar árlega á vettvangi fjárlaga, eins og raunin hefur reyndar verið ár hvert frá því þessi lög voru samþykkt. Sparnaður á árinu 2009 vegna þessa, umfram það sem þegar hafði verið ákveðið í fjárlagafrumvarpinu, er um 700 millj. kr.

Í X. kafla er lögð til sú breyting á nýsettum lögum um sjúkratryggingar að heimilað verði að taka komugjald vegna innlagnar á sjúkrahús. Gjaldið sem heilbrigðisráðherra mun ákveða í reglugerð mun ná fyrst og fremst til kostnaðar vegna innritunar og aðstöðu til innritunar og verður heimilt að innheimta það einu sinni fyrir hverja legu. Ekki verður þó heimilt að taka gjald vegna innlagnar á fæðingardeild, og gjald fyrir þjónustu skal vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum.

Sértekjur heilbrigðisstofnana af gjaldinu eru áætlaðar um 360 millj. kr. á næsta ári.

Lagt er til að frumvarpið taki gildi um áramótin að undanskildum ákvæðum er varða hækkun útsvars sem taki gildi þegar í stað þannig að sveitarfélög hafi svigrúm til að ákveða hvort þau nýti sér umrædda heimild.

Virðulegi forseti. Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru vissulega umfangsmiklar, og sparnaður fyrir ríkið sem í þeim felst þýðir auknar álögur eða minni tekjur fyrir marga þjóðfélagshópa. Ríkisstjórnin hefur leitast við að fara fram af fullri sanngirni þannig að aðgerðirnar komi síst niður á þeim sem minnst mega við því. Vonir standa til þess að í flestum tilfellum verði hér um tímabundnar aðgerðir að ræða sem hægt verði að endurskoða að ári liðnu.

Að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og efnahags- og skattanefndar og hún geri jafnframt ráðstafanir til að vísa þeim hlutum frumvarpsins sem undir aðrar nefndir heyra til þeirra til umsagnar.