136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli þingheims og þeirra sem fylgjast með hér á Alþingi á að nú er lagt til að nema úr gildi lögin sem lutu að ráðstöfun á söluandvirði Landssímans í þessum efnum, m.a. hvað Fjarskiptasjóð varðar. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að horfa til baka til þeirra röksemda sem beitt var er reynt var að selja þjóðinni að það væri mjög gott að selja Landssímann, þá fengi hún fjármagn sem væri merkt í sérgreindar framkvæmdir. Það voru fjarskiptamálin, vegamálin, bygging hátæknisjúkrahúss o.s.frv. Það var mikið úr þessu gert og ég minnist þess að um það leyti sem þáverandi ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins gekk frá sölu Landssímans var gerð skoðanakönnun sem sýndi að yfir 70% þjóðarinnar, milli 70 og 80%, vildu ekki að Síminn yrði seldur. Samt var hann seldur og á þessum gylliboðum sem fylgdu með um það hvernig fénu skyldi ráðstafað.

Nú er verið að nema þessi lög úr gildi og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvernig honum líði með þessum röksemdum sem þá var beitt.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. forsætisráðherra um búvörusamningana. Það er gert ráð fyrir því að þeir verði skertir um einar 800 millj. kr. og ég velti fyrir mér hvort það hafi verið greint hvaða áhrif þessi skerðing muni hafa t.d. á matvöruverð í landinu annars vegar — mun þetta ekki leiða til hækkunar á matvöruverði? — og hins vegar (Forseti hringir.) hvaða áhrif þetta muni hafa á kjör bænda sem eru með tekjulægri stéttum landsins.