136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:52]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði ekki tíma til að geta þess í svari mínu áðan að með þessu ákvæði er auðvitað ekki gert ráð fyrir því að það leggist af sama þunga á þá sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Það er gert ráð fyrir því að fullfrískir menn eins og t.d. ég og hv. þingmaður (ÖJ: Eru þeir á spítala?) sem þurfum annað slagið að nýta okkur þjónustu spítala borgum þetta innlagnargjald. Það er verið að vitna í greinargerð frumvarpsins, virðulegi forseti, með þínu leyfi:

„Með töku komugjalds vegna innlagnar á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsókna hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi. Þess má geta að komugjöld vegna innlagnar eru innheimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð og Finnlandi og er því síður en svo um einsdæmi að ræða á Norðurlöndunum.“

Síðan segir:

„Sú breyting á gjaldtöku sem hér er lögð til mun falla undir hámark á greiðsluþátttöku einstaklinga vegna heilbrigðisþjónustu, í samræmi við vinnu nefndar um gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni sem þingmennirnir Pétur H. Blöndal og Ásta R. Jóhannesdóttir hafa stýrt.“

Með öðrum orðum, þetta gjald mun falla undir þær reglur sem nú eru fyrir hendi um uppsöfnun gjalda þar til kemur að því að viðkomandi fær afsláttarkort. Auðvitað er þetta bara einn liður í því að auka samræmi og þar með jafnræði sem þarf að vera fyrir hendi í þessum rekstri þannig að stjórnendur þessara stofnana geti með markvissum hætti rekið þær eins vel og hægt er. (ÖJ: Ég sit í þessari nefnd og þekki ill störf hennar.)