136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:10]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað hefði enginn kosið að fara inn í búvörusamningana með þeim hætti sem við gerum með frumvarpinu sem hér er rætt. Þegar við lögðum fram fjárlagafrumvarpið í haust var gert ráð fyrir því að bæta búvörusamningana að fullu með vísitölu. Þar var lögð til grundvallar tiltekin vísitöluhækkun sem var grundvöllur fjárlagafrumvarpsins en við vitum hins vegar hvað hefur gerst síðan. Tekjukerfi ríkissjóðs hefur hrunið og við höfum orðið að takast á við miklu meiri vanda en nokkurt okkar gat ímyndað sér. Hluti af því er auðvitað það að við þurfum að fara yfir þá hluti sem við getum reynt að hagræða í og hér er sett tiltekið þak á vísitöluhækkun á búvörusamningunum. Ekki er verið að fara inn í grundvöll sjálfra samninganna. Sá grundvöllur stendur að sjálfsögðu og auðvitað er það þannig að þegar við stöndum frammi fyrir efnahagsvanda af stærðargráðu sem við höfum ekki áður séð hlýtur samningurinn að ráðast af þeim fjárveitingum sem unnt er að veita til hans.

Ég vil vekja athygli á því að í fyrsta lagi verður þessi samningur virtur að fullu á árinu 2008. Í fjáraukalagafrumvarpinu sem verður rætt í dag eða á morgun er síðan gert ráð fyrir því að, eins og hv. þingmaður vék að, setja tiltekið þak á þær hækkanir sem verða á samningnum og gert er ráð fyrir því að þær vísitölubætur sem lagðar verði til grundvallar séu vísitöluhækkunin sem fjárlagafrumvarpið gekk út frá. Þannig að sú tala sem verður virk í samningunum er talan sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu eins og það var lagt fram í upphafi þings í byrjun októbermánaðar.

Hv. þingmaður vék að því hvort skrúplur væru um hvort þetta stæðist stjórnarskrána. Vitaskuld er það eðlilegt af hálfu fagráðuneytisins, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, að velta þessum hlutum fyrir sér og það verður auðvitað gert og niðurstaðan er sú að þetta stenst ákvæði stjórnarskrárinnar, enda gerir stjórnarskráin bókstaflega ráð fyrir því að réttur á fjárgreiðslum úr ríkissjóði sé háður ákvæðum stjórnarskrárinnar og bundinn því skilyrði að fjárveiting fáist með samþykkt Alþingis.