136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um mikilvægi atvinnugreinarinnar. Við erum alveg sammála um mikilvægi landbúnaðarins og auðvitað var reynt að nálgast þetta viðfangsefni með þeim hætti og með því sjónarmiði sem þar liggur til grundvallar. Ekki var verið að ganga svo hart fram að okkar mat væri að það væri slík röskun á grundvelli landbúnaðarins, enda er ekki farið inn í grundvöll sjálfs búvörusamningsins. Eingöngu er verið að — og ég veit að ýmsum þykir nóg um — setja tiltekið þak á þær vísitölubætur sem verða á búvörusamningnum á næsta ári. Auðvitað má segja sem svo að ekki sé nein fullvissa um hver niðurstöðutalan verður. Gert er ráð fyrir því miðað við þær forsendur sem við höfum um verðlag að þarna geti munað um 700 millj. kr. til 800 millj. kr. en það mun ráðast af verðlagsþróun og að sjálfsögðu er það keppikefli okkar að verðlagsþróunin verði jákvæðari en þarna er talað um.

Hv. þingmaður velti fyrir sér hver væri staða einstakra bænda. Auðvitað hafa einstakir bændur möguleika á því að leita réttar síns ef þeir telja að brotið sé á þeim og ekkert sem kemur í veg fyrir það. En ég er alveg sammála hv. þingmanni um að ég held að mjög æskilegt væri ef samkomulag gæti tekist milli bænda og ríkisvaldsins um aðrar útfærslur á búvörusamningunum sem gætu þá kannski gert það að verkum að greiðslum sem renna í búvörusamninginn verði breytt með þeim hætti að þær gagnist beinlínis kjörum bænda betur en ella og ég vil lýsa því yfir að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða allar slíkar útfærslur. Ég skil vel að forustumenn bænda geti ekki á þessari stundu tekið jákvætt undir slíkar hugmyndir. Þetta þarf að ræða betur en ég vil ítreka það að af minni hálfu er að velkomið og væri raunar fagnaðarefni ef við gætum reynt að ræða aðra útfærslu þó að ég beri að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á þeirri niðurstöðu að setja þak á vísitöluhækkanir á búvörusamningunum.