136. löggjafarþing — 59. fundur,  16. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Skrýtin er tilveran orðin þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hæstv. ráðherrar koma hér upp sem alveg sérstakir talsmenn hins norræna fyrirkomulags og spyrja þann sem hér stendur hvort hann sé orðinn eitthvað bilaður í trúnni á það. En það er ekki aðalsmerki hins norræna fyrirkomulags að menn borgi fyrir undirstöðuþjónustu af þessu tagi þó að vissulega hafi frjálshyggjuveikin víða haldið innreið sína og menn hafi bilast að hluta til í ágætum löndum eins og Svíþjóð og jafnvel Finnlandi. Veruleikinn er nú sá að það mun hafa verið í þeim tveimur löndum sem einhver hliðstæð innritunargjöld á sjúkrahús er að finna en ekki á öðrum Norðurlöndum ef marka má meira að segja fylgiskjal með þessu frumvarpi og þá er verið að færa Ísland yfir í þann hópinn sem var áður í minni hluta þar sem slík gjöld voru ekki við lýði.

Ég veit vel um það, frú forseti, sem hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi sökum tiltekinnar nýlegrar lífsreynslu að það eru komugjöld, rannsóknargjöld og endurkomugjöld á slysadeildir o.s.frv. ef menn lenda í slíkum hremmingum en menn hafa ekki borgað sérstaklega fyrir að innritast á sjúkrahúsin. (Gripið fram í.) Nei, það hafa menn ekki gert. (Heilbrrh.: Hvað af þessu?) Til innlagnarinnar sjálfrar, hæstv. heilbrigðisráðherra. (ÁI: Þekkir ekki ráðherrann lögin?) Hæstv. ráðherra veit ekki hvað hann er að leggja til sjálfur í frumvarpi. Annaðhvort er ekkert að marka ráðherrann eða ekkert að marka frumvarpið og fylgiskjölin með því. Það stendur hér að þetta sé innritunargjald á sjúkrahús. Nú segir hæstv. ráðherra að það sé til, það er ekki þannig. Það á að taka upp nýjan sjúklingaskatt með þeim rökum að vegna þess að slíkir skattar séu þegar orðnir fjölmargir hér og þar í kerfinu sé um að gera að fjölga þeim, bæta þeim við, þannig að það verði hvergi nokkurs staðar hægt að fá neina þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu nema borga sérstaklega fyrir hana. Þá erum við að færast enn lengra út á þá braut að við stöndum ekki undir þessari þjónustu með sameiginlegum aflatekjum heldur látum þá borga sem eru orðnir veikir. Það er tiltekið módel en það er ekki aðalsmerki norræna módelsins. Það er ameríkanisering íslenskra heilbrigðismála.